26.4.2011 | 00:51
Falleinkun hins opinbera
Það hlaut að koma að því að kvörtun yrði send til ESA. Hér á Íslandi hafa opinberir aðilar markvisst unnið að því að láta skuldug heimili greiða fyrir hrun bankanna. Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra sagði fólki að leita réttar síns fyrir dómstólum á sama tíma og eftirlitsstofnanir á hans ábyrgð voru með buxurnar á hælunum. Hér hafa árum saman verið brotin lög sem banna gengistryggingu lána og það hefur verið látið viðgangast.
Dómstólar gátu auðvitað ekki komist að annarri niðurstöðu en að gengistrygging lána í íslenskum krónum væri ólögmæt. Hins vegar hafa þeir ýtt allri neytendalöggjöf út af borðinu og margsinnis hunsað óskir um að leitað sé ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Við það verður ekki unað og forvitnilegt að sjá hvernig ESA bregst við svo reyfarakenndri lýsingu.
Þó tók fyrst steininn úr þegar arftaki Gylfa Magnússonar lagði fram frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þá fyrst hljóta lögspekingar að hafa fengið hraðan hjartslátt - lögin eru einfaldlega ekki brúkleg þar sem þau brjóta á stjórnarskrárvörðum eignarétti og ganga gróflega gegn grunnstoðum kröfuréttar.
En það er mörgum spurningum ósvarað um framgöngu opinberra aðila:
- Alþingi - fyrir að setja lög sem brjóta gegn stjórnarskrá, kröfurétti og EES/ESB-rétti. 27 þingmenn staðfestu þessi ó-lög.
- Ríkisstjórnin - fyrir að standa ekki með skuldugum heimilum og vísa fólki á dómstóla - úrræði sem kallar á milljónaútgjöld.
- Seðlabankinn - fyrir að senda út röng skilaboð og hafa hvatt til þess að láta skuldug heimili borga fyrir lögbrot fjármálafyrirtækja.
- FME - fyrir að hafa ekki gripið í taumana fyrir mörgum árum síðan.
- Umboðsmaður skuldara - fyrir að standa ekki fastar í fæturna og að krefjast ekki lögbanns á nýja lánasamninga byggða á afturvirkum viðbótarvöxtum.
- Hæstiréttur - fyrir að hafa ekki úrskurðað um ólögmæti afturvirkra endurútreikninga og að hafa þrásinnis hunsað neytendarétt og óskir um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.
- Neytendastofa - fyrir að gera alls ekki neitt.
- RÚV - fyrir að sniðganga umfjöllun um þessi mál.
![]() |
Kvörtun lántakenda send til ESA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.4.2011 | 20:28
Hafa einhver ykkar fengið endurgreitt?
Í Peningamálum SÍ segir orðrétt:
"Fjármálaleg skilyrði heimila eru enn erfið þótt úrlausn á samningum um gengistryggð lán lækki eflaust greiðslubyrði margra heimila, auk þess sem fjöldi þeirra hefur fengið endurgreiðslu á ofteknum greiðslum frá lánafyrirtækjum og niðurfærslu á lánum. Áætlað er að heimili sem tóku lán sem tengd voru gengi erlendra gjaldmiðla fái um 8,5 ma.kr. endurgreidda frá lánafyrirtækjum sem að stærstum hluta komu til greiðslu í lok síðasta árs."
Ég velti því enn fyrir mér hvernig það gat viðgengist í fjölmörg ár að bankar gætu boðið almennum neytendum upp á ólögmæt gengistryggð lán. Allt frá árinu 2001 hefur það staðið skýrt í lögum um vexti og verðtrygginu að slík binding við gengi erlendra gjaldmiðla sé óheimil og mun Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri hafa barist mjög hart fyrir því að svo yrði. Þeim mun óskiljanlegra er að SÍ og opinberar eftirlitsstofnanir skyldu ekki taka í taumana til að hindra slíkar lánveitingar.
Af lestri Peningamála SÍ mætti helst skilja að heimilin í landinu séu að fá endurgreiddar háar upphæðir vegna oftekinna greiðslna til fjármálafyrirtækja og að mánaðarleg greiðslubyrði umræddra lána muni lækka. Það passar hins vegar ekki við þau dæmi sem ég hef heyrt um þar sem svokallaður endurútreikningur leiðir í flestum tilfellum til enn hærri greiðslubyrði en hinnar ólögmætu gengistryggðu greiðslubyrði. Einnig hef ég enn ekki heyrt af fólki með gengistryggð húsnæðislán sem hefur fengið endurgreitt vegna oftekinna greiðslna. Mig grunar að slíkt fólk sé ekki á hverju strái og lýsi því hér með eftir einhverjum slíkum.
![]() |
12 milljarða endurgreiðsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.4.2011 | 23:32
47.128
Sú var tíðin að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir vildi stöðva söluna á HS-orku til "Magma Energy Sweden" sama hvað það kostaði. Það var löngu áður en 47.128 Íslendingar settu nafn sitt undir áskorun þess efnis.
Í kvöld nefndi hún hvorki Magma Energy né áskorun 23% kjósenda einu orði.
![]() |
Vantrauststillaga felld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2011 | 15:04
Fólk vill fá ábyrgari og samfélagsvænni fjármálastofnanir
Ég á spænskan tengdapabba sem er fremur íhaldssamur lögfræðingur, kominn á eftirlaun. Hann hringdi í morgun og óskaði okkur til hamingju með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þrátt fyrir að vita ekki hvernig atkvæði okkar féllu.
Almenningur á Spáni hefur svo sannarlega fengið að kenna á samdrætti og afleiðingum óábyrgrar stefnu banka og ríkisins í fjármálum. En á meðan að fólk flest neyðist til að þrengja sultarólina og jafnvel lifa á atvinnuleysisbótum sem duga vart fyrir mat, hefur lítið breyst í sjálfu fjármálakerfinu. Fólk kallar eftir ábyrgara og samfélagsvænna regluverki en lítið gerist fyrr en fólk segir hingað og ekki lengra.
Við skulum vona að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar marki upphafið að ábyrgari fjármálastjórnun á Íslandi og að annars konar bankastarfsemi fylgi í kjölfarið. Það eru mikil vonbrigði að "nýju" bankarnir skuli hafa verið byggðir á gömlum og úreltum gildum.
![]() |
Gott hjá Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)