Falleinkun hins opinbera

Það hlaut að koma að því að kvörtun yrði send til ESA. Hér á Íslandi hafa opinberir aðilar markvisst unnið að því að láta skuldug heimili greiða fyrir hrun bankanna. Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra sagði fólki að leita réttar síns fyrir dómstólum á sama tíma og eftirlitsstofnanir á hans ábyrgð voru með buxurnar á hælunum. Hér hafa árum saman verið brotin lög sem banna gengistryggingu lána og það hefur verið látið viðgangast.

Dómstólar gátu auðvitað ekki komist að annarri niðurstöðu en að gengistrygging lána í íslenskum krónum væri ólögmæt. Hins vegar hafa þeir ýtt allri neytendalöggjöf út af borðinu og margsinnis hunsað óskir um að leitað sé ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Við það verður ekki unað og forvitnilegt að sjá hvernig ESA bregst við svo reyfarakenndri lýsingu.

Þó tók fyrst steininn úr þegar arftaki Gylfa Magnússonar lagði fram frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þá fyrst hljóta lögspekingar að hafa fengið hraðan hjartslátt - lögin eru einfaldlega ekki brúkleg þar sem þau brjóta á stjórnarskrárvörðum eignarétti og ganga gróflega gegn grunnstoðum kröfuréttar.

En það er mörgum spurningum ósvarað um framgöngu opinberra aðila:

  • Alþingi - fyrir að setja lög sem brjóta gegn stjórnarskrá, kröfurétti og EES/ESB-rétti. 27 þingmenn staðfestu þessi ó-lög.
  • Ríkisstjórnin - fyrir að standa ekki með skuldugum heimilum og vísa fólki á dómstóla - úrræði sem kallar á milljónaútgjöld.
  • Seðlabankinn - fyrir að senda út röng skilaboð og hafa hvatt til þess að láta skuldug heimili borga fyrir lögbrot fjármálafyrirtækja.
  • FME - fyrir að hafa ekki gripið í taumana fyrir mörgum árum síðan.
  • Umboðsmaður skuldara - fyrir að standa ekki fastar í fæturna og að krefjast ekki lögbanns á nýja lánasamninga byggða á afturvirkum viðbótarvöxtum.
  • Hæstiréttur - fyrir að hafa ekki úrskurðað um ólögmæti afturvirkra endurútreikninga og að hafa þrásinnis hunsað neytendarétt og óskir um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.
  • Neytendastofa - fyrir að gera alls ekki neitt.
  • RÚV - fyrir að sniðganga umfjöllun um þessi mál.
Það hafa staðfastlega verið brotin lög á neytendum og enginn hefur þurft að svara til saka fyrir það. Enginn hefur þurft að axla ábyrgð. En nú er boltinn kominn til ESA. Það verður fróðlegt að sjá hvað þeim finnst um íslenskt réttar- og embættismannakerfi.

mbl.is Kvörtun lántakenda send til ESA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður, þetta er skelfilegur listi yfir opinbera aðila sem hafa (meðvitað eða fyrir stórkostlegt gáleysi) tekið þátt í að brjóta á almenningi. Ætli einhver þeirra muni sjá að sér?

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 26.4.2011 kl. 09:10

2 Smámynd: Anna Björg Hjartardóttir

Tel Hákon að engin þeirra muni sjá að sér fyrr en tilneydd. Bankarnir og ríkistjórnin eru eitt þess vegna hefur ekkert verið gert fyrir heimilin af hálfu stjórnvalda og hefur aldrei staðið til. Kvörtun lántakenda til ESA er enn ein sönnunin á að bjartasta og eina von þjóðarinnar er þjóðin sjálf.

Ný viðmið eru að taka gildi, tími valdhafanna er að líða undir lok, almenningur fólkið sjálft þarf að rísa upp taka ábyrgð og framkvæma.

Anna Björg Hjartardóttir, 26.4.2011 kl. 10:52

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Mér finnst það ólíklegt að einhverjir hjá hinu opinbera munu sjá að sér. Það tíðkast ekki á Íslandi að viðurkenna mistök og í þau örfáu skipti sem það gerist er það samt aðallega einhverjum öðrum að kenna. Hrunið stafaði t.d. að sögn ráðamanna aðallega að utanaðkomandi þáttum. Annað hefur nú samt heldur betur komið í ljós.

Sigurður Hrellir, 26.4.2011 kl. 10:58

4 Smámynd: Sigurður Hrellir

Lítill finnst mér manndómur efnahags- og viðskiptaráðherra. Í viðtali við fréttastofu Bylgjunnar sagði hann dómstóla ábyrga fyrir óbrúklegri lagasetningu sem hann sjálfur mælti fyrir á Alþingi, breytingu á lögum um vexti og verðbætur. Hann sleppti þó alveg að minnast á þá lykilstaðreynd að dómstólar hafa aldrei úrskurðað um lögmæti íþyngjandi afturvirkra vaxta og greiðsluskyldu sem af þeim kann að hljótast.

Sigurður Hrellir, 26.4.2011 kl. 20:13

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst hann Árni Páll alveg gleyma frumvarpinu sem hann lagði fyrir Alþingi í júní í fyrra.  Það var frumvarp sem Sigurmar K. Albertsson, eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra, pantaði við munnlegan málflutning í Hæstarétta 6. júní.  Árni Páll virðist líka vera búinn að gleyma viðbrögðum Gylfa Magnússonar, samráðherra síns, eftir að gengisdómarnir féllu í Hæstarétti 16. júní, en þá var strax sagt að ekki kæmi til greina að samningsvextir myndu gilda.  Loks er Árni Páll búinn að gleyma tilmælum FME og Seðlabanka Íslands frá 30. júní, en í þeim var fjármálafyrirtækjum uppálagt að fara eftir þeirri fyrirmynd sem kom fram í frumvarpi Árna Páls sem var þá til umfjöllunar á Alþingi, þó það hafi dagað uppi.  Nú Árni Páll virðist loks vera búinn að gleyma gengdarlausum áróðri Gylfa Magnússonar, FME og SÍ fyrir því að leið þessara aðila væri farin.  Jú, vissulega eru dómstólar sjálfstæðir, en lítið fór á milli mála hvaða afleiðingar "rangur" dómur myndi hafa á samfélagið og ítrekað lögð áhersla á að Hæstiréttur yrði að taka tillit til fjármálastöðugleika.

Marinó G. Njálsson, 27.4.2011 kl. 01:35

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Siggi, mig langar að bæta við:

  • FME fyrir að hafa ekkert aðhafst þrátt fyrir áralanga vitneskju um stórfelld ólögleg viðskipti nokkurra fjármálafyrirtækja án tilskilinna starfsleyfa.
  • Ríkissaksóknari fyrir að hafa ekki aðhafst þrátt fyrir áeggjan vegna ofangreindrar vanrækslu stjórnenda FME og skaðsemi hinna brotlegu.
  • Þeir sem hafa svona glæpamenn ennþá á launaskrá meðan heiðarlegt fólk sveltur. Blóð þeirra sem gáfust upp er á höndum slíkra landráðunauta.
Tvö þessara fyrirtækja eru nú orðin dótturfélög fjármálafyrirtækis í meirihlutaríkiseigu. Annað þeirra varð gjaldþrota og hluti viðskiptavina má þola tap. Hitt fékk að halda áfram rekstri þrátt fyrir tæknilegt gjaldþrot og skattgreiðendur sitja að öllum líkindum uppi með tugmilljarða tap þess, en ég veit ekki betur en að stjórnendurnir sitji samt enn að störfum sínum og rausnarlegum starfskjörum. Að enginn skuli hafa verið svo mikið sem settur í handjárn er auðvitað reginhneyksli.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.4.2011 kl. 04:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband