Batnandi (stjórnmála)mönnum er best að lifa

Líklega hefur ríkisráðsfundurinn í morgun verið öllu rólegri en sá sem haldinn var fyrir sléttu ári síðan. Þann dag gerði ég mér ferð til Bessastaða fyrir birtingu í köldu en stilltu veðri og mótmælti í góðum félagsskap hlandvolgum Icesave-samningi sem naumur meirihluti Alþingis samþykkti kvöldið áður þrátt fyrir áköf mótmæli margra. Í ljósi þess sem síðar gerðist, synjunar forsetans og þjóðaratkvæðagreiðslu sem helstu fulltrúar stjórnarflokkanna beinlínis hunsuðu, get ég ekki annað en verið sáttur við eigin þátt í því.

Mótmæli á gamlársdag 2009Annars er við hæfi að líta til baka um áramót til að læra af reynslunni og setja sér háleit en raunhæf markmið á nýju ári. Öll höfum við ástæðu til að líta í eigin barm og velta því fyrir okkur hvort tíma okkar hafi verið vel varið. Einnig hlýtur fólk að þurfa að spegla sig sjálft í því umhverfi sem það býr við og spyrja sig hvort það sé sátt við eigin hag og sig sjálft í þessu samhengi.

Mig langar til að hvetja fólk til  að hlusta á ágæta áramótadrápu Guðmundar Ólafssonar sem er hér í spilaranum vinstra megin. Ég veit ekki hvort að hagfræðingurinn hafi orðið fyrir eldingu eða heilögum anda hafi lostið niður, en pistill Guðmunar kom mér skemmtilega á óvart. Öðruvísi mér áður brá.  


mbl.is Ríkisráðsfundur í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólamyndin í ár

Íslandsvinurinn Julian Assange er hetja. Hann lætur ekki ummæli varaforseta Bandaríkjanna hræða sig en sá síðarnefndi líkti Assange við "hátæknihryðjuverkamann". Hann virðist heldur ekki láta sérlega ógeðfelld og umhugsunarverð ummæli áhrifamikils fólks innan Repúblikanaflokksins halda fyrir sér vöku en þau hafa sum hver hvatt til þess að hann verði drepinn með köldu blóði án dóms og laga. Um forsetaframbjóðendurna Söru Palin og Mike Huckabee segir Julian Assange í þessu viðtali:

"Just another idiot trying to make a name for himself.  It's a serious business.  If we are to have a civil society you cannot have senior people, making calls on national TV, to go around the judiciary and illegally murder people."
 
Auðvitað er það galið þegar áhrifamiklir stjórnmálamenn í svo yfirþyrmandi ríki láta svona hluti út úr sér og það í sjónvarpsviðtölum!
 
The war you don't seeMargir fjölmiðar virðast vera í vanda staddir. Þeir horfast nú í augu við það að þurfa annað hvort að taka slaginn gegn alríkisstjórninni og verja upplýsingafrelsið eða fara auðveldu leiðina, taka þátt í ófrægingarherferðinni gegn Julian Assange og sætta sig við að vera lítið annað en málpípa valdamikilla afla.
 
Gefið ykkur tíma til að horfa á glænýja heimildamynd hins þekkta stríðsfréttamanns Johns Pilger, The war you don't see. Þar fjallar hann um þátt fjölmiðla í áróðursstríði sem ætlað er að réttlæta grimmilega framgöngu ráðamanna beggja vegna Atlandshafsins og þátt Wikileaks í að fá sannleikann fram. Myndina má sjá á bloggsíðu Láru Hönnu eða hlaða niður hér (á eigin ábyrgð). Þeim tíma er vel varið sem fer í að horfa á þessa mynd og velta því fyrir sér hvernig lýðræði við búum við þar sem upplýsingar eru svo ósannar. Hér er viðtal við Pilger um myndina og Wikileaks.
 

mbl.is Assange svarar Biden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ályktanir Alþingis orðin tóm?

Ég hef sagt það áður og ég segi það enn: Ísland á að veita Julian Assange skjól og bjóða honum ríkisborgararétt í einum grænum.

Í sumar var samþykkt þingsályktun á Alþingi þar sem segir í upphafi: "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verið tryggð".

Svo gæti hæglega farið að okkar eigin landsmenn yrðu sömuleiðis fyrir barðinu á alríkisstjórninni fyrst hún á annað borð virðist ætla að brjóta Wikileaks niður með fantabrögðum og lögleysu.

Hér má sjá nánar um það sem er í gangi:

http://www.armycourtmartialdefense.info/2010/12/typical-day-for-pfc-bradley-manning.html

http://www.democracynow.org/2010/12/16/alleged_wikileaks_whistleblower_bradley_manning_imprisoned

Og hér er svo tengill á ágæta heimildamynd um Wikileaks frá sænska sjónvarpinu:

http://svtplay.se/v/2264028/wikirebels_the_documentary

Þessi mynd sýnir ljóslega hversu margir Íslendingar hafa tekið þátt í starfsemi Wikileaks, ekki síst hinu óhugnanlega myndbandi frá Baghdad. Gleymum ekki þætti Íslands í þessu kaldrifjaða stríði.

Og hér er svo jólamyndin í ár, nöturlegur sannleikurinn um fjölmiðla, splunkuný heimildamynd í boði Láru Hönnu sem ég mæli mjög eindregið með:

http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/12/20/sannleikurinn-og-fjolmiðlarnir


mbl.is Julian Assange kosinn maður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið tekur á sig auknar ábyrgðir og lögbrjótar sleppa við refsingu

Í færibandaafgreiðslu síðasta vinnudaginn fyrir jól samþykktu stjórnarliðar í nafni "réttlætis" og "sanngirni" breytingar á einum umtöluðustu lögum síðustu ára, lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Í nóvember sendi ég inn umsögn til efnahags- og skattanefndar út af þessu makalausa breytingafrumvarpi sem byggir á mjög hæpnum forsendum, þ.e. úrskurði Hæstaréttar í frægu máli sem varðaði uppgjör á bílaláni.

Það er mér stórlega til efs að alþingismenn hafi allir sem einn kynnt sér þetta mál til hlýtar, enda er "réttlætið" og "sanngirnin" ekki meiri en svo að margir munu eflaust fara í mál og krefjast skaðabóta frá ríkinu vegna eignaupptöku af þessum sökum. Þannig hefur ábyrgðin verið flutt frá fjármálafyrirtækjum sem brutu lögin með því að bjóða þessi lán, yfir á ríkissjóð.

----------

Helstu niðurstöður umsagnar minnar: Þó svo að yfirlýstur ásetningur með þessu frumvarpi sé af hinu góða óttast undirritaður að verið sé að gera neytendum með gengistryggð lán mikinn bjarnargreiða með  ósanngjörnum ákvæðum þess. Í nafni jafnræðis og sanngirni er verulega verið að þyngja vaxtabyrði af lánum þessum afturvirkt og setja nýja óhagstæða skilmála í stað þeirra sem fyrir eru. Þetta brýtur í bága við neytendavernd EES-réttar sem er í fullu gildi á Íslandi. Neytendur eru klárlega veikari aðilinn í þessu reiknidæmi og mikil nauðsyn að standa þétt við bakið á þeim þar sem kröfuhafar munu eflaust leita allra leiða til að “endurheimta” meint tap sitt vegna ólögmæti gengistryggingarinnar.

Frumvarpið byggir á dómum Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september sl. en síðarnefndi dómurinn var efnislega samhljóða tilmælum Seðlabanka Íslands og FME frá 30. júní um endurútreikning lánasamninga vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Þau tilmæli voru gefin út til að “skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi” eins og segir í tilmælunum. Því er það ljóst að hagur fjármálastofnana og öryggi fjármálakerfisins hafa hér skipt meginmáli en ekki hagsmunir neytenda sem virðast engu síður eiga að taka skellinn af ólögmætum samningsskilmálum sem þeir þó áttu engan þátt í að útbúa. Erfitt er að koma auga á þá sanngirni sem í því felst. 

Tilgreindir dómar Hæstaréttar fjölluðu auk þess um uppgjör bílaláns sem í meira lagi er vafasamt að leggja til grundvallar fyrir öllum gengistryggðum lánum til lengri eða skemmri tíma, sama hvort þau voru tekin til kaupa á fasteign, ökutæki, tjaldvagni, bíl eða einfaldlega til daglegrar neyslu.

Vert er að hafa í huga að þar sem gengistryggingarákvæði lánasamninganna eru ólögmæt og óskuldbindandi, máttu kröfuhafar ekki uppreikna höfuðstól þeirra og afborganir. Höfuðstóll lánanna stóð því í stað og meint “stökkbreyting” átti sér enga lagalega stoð. Því er það rangt sem iðulega er haldið fram og nú síðast á minnisblaði með þessu frumvarpi þar sem segir: “Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán.” Hér er verið að afvegaleiða umræðuna og hlýtur að verða að gera þá kröfu til stjórnvalda að bera ekki svona upplýsingar á borð. Réttara er að skuldir heimilanna hækka verulega þar sem búast má við því að aukin greiðslubyrði eftir endurútreikning (afturvirkt) auk vaxta af mismuninum yrði bætt við höfuðstól lánanna eins og lýst er í 2. gr. Þannig gæti höfuðstóll láns með óskuldbindandi gengistryggingu hækkað í einu stökki um 60% eða meira í kjölfar fyrirhugaðra lagabreytinga.

Frumvarp þetta er lagt fram á sama tíma og tekist er á um fyrstu álitamálin sem varða gengistryggð húsnæðislán fyrir Hæstarétti. Erfitt er að sjá það fyrir hvernig dómarar muni bregðast við frumvarpinu verði það samþykkt, en augljóslega eru ítarlegar greinargerðir málsaðila miðaðar við allt önnur lög en frumvarpið hefur í för með sér. Lagagrundvelli yrði þ.a.l. kippt undan málsaðilum. Í nokkrum málum hefur verið óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um vexti af gengistryggðum lánum og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur nýlega fallist á kröfu þess efnis.

Loks er ástæða til að minna á skattalega óvissu sem gæti skapast vegna frumvarps þessa. Háar upphæðir munu skipta um hendur eða færast til í bókhaldi þegar og ef lán verða endurútreiknuð miðað við gjörólíkar forsendur. Nauðsynlegt er að búa svo um hnútana að leiðréttingar á höfuðstól verði ekki skattlagðar fyrir neytendur sem staðið hafa í skilum með sín lán í góðri trú.

Með afturvirkum lagabreytingum virðast höfundar frumvarpsins algjörlega hafa gleymt “lögmætisreglunni”, verndun eignaréttar neytenda undir Evrópusáttmálanum (1. gr. Protocol 1 European Convention of Human Rights) og öllum meginreglum neytendaréttar EES sem eru ófrávíkjanlegar og í fullu gildi á Íslandi. Ríkið gæti hæglega orðið skaðabótaskylt gagnvart neytendum burtséð frá mögulegum skaðabótum sem kröfuhafar “gömlu bankanna” gætu áunnið sér með fulltingi dómstóla. Óvissan er slík að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú óskað eftir áliti EFTA-dómstólsins varðandi vaxtaskilmálabreytingar.

----------

Hér er svo að lokum línurit yfir greiðslubyrði af rúmlega 19 milljón króna gengistryggðu húsnæðisláni frá upphafi árs 2006. Afborganir eru á 3ja mánaða fresti og má sjá að ansi langt er orðið á milli upphaflegrar greiðsluáætlunar bankans og þeirra upphæða sem nýsamþykktar breytingar á lögum um vexti og verðbætur hafa í för með sér. Breytingarnar eru afturvirkar og þýðir það að fólk sem staðið hefur í skilum með afborganir af lánum sínum fær viðbótarálagningu aftur í tímann sem í flestum tilfellum verður líklegast klínt ofan á höfuðstól lánanna. 


  Línurit yfir greiðslubyrði


mbl.is Landsbankinn birtir endurútreikninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkar stærsta vandamál

Ekki veit ég hvað er satt eða logið í þessari frétt enda teljast fregnir úr Hádegismóum þessa dagana vart til mikilla sanninda.

Hins vegar er það umhugsunarefni hvernig hinir dæmigerðu stjórnmálamenn atast yfir Lilju Mósesdóttur, nýliða á þingi og skilgetins afkvæmis Búsáhaldabyltingarinnar. Kallað hefur verið eftir endurmati og endurnýjun í stjórnmálunum, persónukjöri og að stjórnmálamenn hætti að þiggja falið fé frá sérhagsmunaaðilum.

Lilja er býsna gott dæmi um stjórnmálamann eins og kallað hefur verið eftir. Hún er mjög vel menntuð beggja vegna Atlandshafsins, dr. í hagfræði, og sérfróð um kreppuástand þjóða. Hún bauð sig fram til þingmennsku á eigin verðleikum án þess að vera kostuð til þess af öðrum eða hafa beðið þolinmóð innan einhvers stjórnmálaflokks eftir að röðin kæmi að henni. Hún hlýtur þess vegna að teljast verðugur fulltrúi fólks á Alþingi.

Það er því með ólíkindum að sjá hvernig atvinnustjórnmálamenn bregðast við fólki eins og Lilju. Steingrímur J. hefur sterklega gefið það til kynna að Lilju sé vart stætt innan "hans" flokks lengur. Jóhanna Sigurðardóttir afgreiddi málið stuttaralega, talaði um bull og að hlaupast undan ábyrgð. Aðrir tala á göngum Alþingis eða skrifa rætnar athugasemdir á bloggi.

Fjórflokkurinn er líklega orðinn okkar stærsta vandamál.

 


mbl.is Stöðugir níðpóstar um Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer þetta ekki að vera gott?

Lilja Mósesdóttir var gestur Kastljóssins í gær. Hún hefur verið óhrædd við að leggja fram róttækar hugmyndir til lausnar efnahagsvanda þjóðarinnar, óháð því hvort þær eigi samhljóm innan ríkisstjórnarinnar eða hvort þær samræmist stefnu AGS. Hugmyndir Lilju hafa hins vegar fallið í grýttan jarðveg hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar og hefur hún átt erfitt uppdráttar í þingflokki VG af þeim sökum.

Nú er það svo að Lilja er býsna gott dæmi um stjórnmálamann eins og kallað hefur verið eftir. Hún er mjög vel menntuð beggja vegna Atlandshafsins, dr. í hagfræði, og sérfróð um kreppuástand þjóða. Hún bauð sig fram til þingmennsku á eigin verðleikum án þess að hafa beðið þolinmóð innan einhvers stjórnmálaflokks eftir að röðin kæmi að henni. Hún er með öðrum orðum verðugur fulltrúi fólks á Alþingi.

En hvernig bregðast atvinnustjórnmálamenn við fólki eins og Lilju? Steingrímur J. hefur sterklega gefið það til kynna að Lilja sé ekki velkomin innan "hans" flokks lengur. Jóhanna Sigurðardóttir afgreiddi málið stuttaralega, talaði um bull og að hlaupast undan ábyrgð.

Ég tel að tími Jóhönnu og Steingríms sé liðinn.


mbl.is Ríkisstjórnin veik en ekki í lífshættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsögn mín um þetta makalausa frumvarp

Í nóvember sendi ég inn umsögn til efnahags- og skattanefndar út af þessu makalausa frumvarpi. Umsögnin mín er hér fyrir neðan og hef ég í sjálfu sér litlu við hana að bæta. Hvort að nefndarmenn hafi kynnt sér meginröksemdir lánþega í þessu máli kemur væntanlega betur í ljós á næstunni en samkvæmt nefndaráliti fulltrúa SF og VG fæ ég ekki séð að svo sé.

Þessi ríkisstjórn hefur staðið þétt við bakið á fjármálastofnunum og sett upp leikþætti hvað eftir annað þar sem fólk er blekkt til að trúa að verið sé að koma með lausnir á skuldavanda heimilanna. Allar róttækar tillögur hafa verið slegnar út af borðinu eða einfaldlega gert lítið úr þeim.

-----------------------------------------------------------------------------------------

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara, með síðari breytingum.

(Þingskjal 225 – 206. mál).

Sendandi: Sigurður Hr. Sigurðsson (samkvæmt erindi).

 

Þó svo að yfirlýstur tilgangur frumvarpsins sé góðra gjalda verður og nauðsynlegt sé að fyrirbyggja að þúsundir neytenda þurfi að leita á náðir dómstóla til að fá ólögmætum lánasamningum sínum hnekkt, er ýmislegt í útfærslu frumvarpsins sem tæpast heldur vatni og er síst til þess fallið að skapa sátt og leiða til sanngirni.

Undirritaður vill gera athugasemdir við fyrstu 3 greinar frumvarpsins sem snúa að breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og þá sér í lagi grein 2 sem hefur í för með sér verulegar breytingar sem varða samningsskilmála gengistryggðra lána með neikvæðum og ófyrirséðum afleiðingum fyrir efnahag þúsundir neytenda. Ef frumvarpið fengi samþykki Alþingis í óbreyttri mynd væri auk þess verulega raskað grundvelli og nokkrum mikilvægum forsendum í þeim málum sem dómstólar hafa nú til meðferðar (þ.á.m. mál undirritaðs), sem varða gengistryggð húsnæðislán. Þannig veikir frumvarpið réttarstöðu neytenda í málaferlum gegn kröfuhöfum og fjármálastofnunum þvert á yfirlýst markmið þess sem er m.a. að tryggja sanngirni og réttlæti.

Rétt er að minna á að forveri hæstvirts ráðherra og flutningsmanns frumvarpsins ráðlagði aðilum með gengistryggð lán að leita liðsinnis dómstóla til að fá úrlausn sinna mála. Þeir sem það gerðu hafa nú þegar eytt miklum tíma og háum fjárhæðum í undirbúning og málarekstur og yrði það með hreinum ólíkindum ef setja ætti allt það ferli í uppnám sem aftur myndi leiða til annars konar málshöfðana.

 

1.gr. Frumvarpinu er ætlað að gera svonefnd gengistryggð lán lögleg þegar lögaðilar og aðrir aðilar í atvinnurekstri eiga í hlut. Ekki virðist þá skipta máli hvort að viðkomandi aðili hafi tekjur í erlendum gjaldeyri eða ekki. En hvers vegna á nú að leyfa gengistryggingu skulda í íslenskri mynt ef ekki til að réttlæta þau ótalmörgu brot fjármálastofnana á lögum sem banna gengistryggingu?
Í athugasemd um 1. gr. segir í 5. málsgrein: “Vandséð er hver efnislegi munur sé á því að taka lán í erlendri mynt eða taka lán í íslenskri mynt sem bundin er við gengi erlendra gjaldmiðla”.
Ef svo er, hvað þrýstir þá á um að leyfa gengistryggingu sem eitt form verðtryggingar?

Einnig er vert að hafa í huga hvernig gengistryggð lán hafa verið bókfærð hjá fjármálastofnunum. Hafa þau verið bókfærð sem gjaldeyriseign þrátt fyrir að vera í raun eign í íslenskum krónum? Í gildi eru reglur um gjaldeyrisjöfnuð sem varða lánastofnanir, sjá 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Væri mögulega með fyrirhugaðri breytingu verið að skjóta stoðum undir bókhaldskúnstir sem gætu gefið kolranga mynd af raunverulegri eign viðkomandi aðila í erlendum myntum og þ.a.l. gjaldeyrisforða þjóðarbúsins?

Lagt er til að gengistrygging lána í íslenskri mynt verði eftir sem áður óheimil þar sem að lögaðilar geti allt eins tekið lán raunverulega í erlendum myntum.

 

2. gr. Með frumvarpinu yrði 18. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 umbylt, en hún fjallar í núgildandi lögum um ábyrgð af ógildum samningsákvæðum um vexti, dráttarvexti eða endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar. Hingað til hefur sú kvöð einungis verið á hendi kröfuhafa að endurgreiða lántaka þá fjárhæð sem hann hefur ranglega af honum haft vegna ógildra samninga. Ekkert er kveðið á um samskonar ábyrgð lántaka hvað þetta varðar, enda koma þeir sjaldnast að gerð lánasamninga, allavega ekki almennir neytendur. Neytendur eru alltaf í stöðu veikari aðilans og eiga undir engum kringumstæðum að vera ábyrgir fyrir ólögmæti samninga eða handvömm við gerð þeirra. Sú ábyrð hvílir hins vegar eðlilega á lánveitanda með sína sérþekkingu og ýmsar lagalegar skyldur.

  1. Samkvæmt fyrirhugaðri breytingu munu vaxtaákvæði samnings sjálfkrafa teljast ógild ef skilmálar um verðtryggingu eða gengistryggingu brjóta í bága við lög og munu lánin þá bera vexti (ex tunc) samkv. 4. gr. (lægstu óverðtr. vextir SÍ).
    Hvergi í núgildandi lögum er kveðið á um að eitt samningsákvæði ógildi sjálfkrafa annað og er tekist á um þetta atriði í þeim ágreiningsmálum sem Hæstiréttur hefur nú til meðferðar. Auk þess yrði þetta í ósamræmi við 36. gr. (c) samningalaga nr. 7/1936 þar sem segir í 2. mgr.:
    “Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

    Lagt er til að víxlverkun á ógildingu skilmála verði endurskoðuð með hagsmuni neytenda í huga. Ekki er réttlætanlegt að ákvarða aðra og meira íþyngjandi skilmála um vexti og vaxtavexti (ex tunc) í stað umsaminna samningsvaxta. Minnt er á að meginreglur neytendaréttar EES eru í fullu gildi á Íslandi en þær reglur eiga að koma í veg fyrir að hagsmunum neytenda sé fórnað.


  2. Neytendur verða einnig gerðir ábyrgir ef útreikningar eftir endurákvörðun vaxta sýna að of lítið hefur verið greitt (ex tunc). Hér er um afturvirka vaxtaákvörðun að ræða sem er andstæð reglum EES-réttar sem innleiddar hafa verið á Íslandi. Slík endurákvörðun vaxta gæti stórlega aukið á greiðslubyrði neytenda mörg ár aftur í tímann en frumvarpið gerir ráð fyrir að mismuninum yrði bætt ofan á höfuðstól lánsins auk þess að krefjast mætti vaxtagreiðslu af mismuninum. Ljóst er að um gífurlega íþyngjandi breytingar yrði að ræða fyrir fjölmarga neytendur sem staðið hafa í skilum og greitt afborganir af lánum sínum í góðri trú. Vextirnir af endurkröfunni einir og sér gætu valdið verulegri hækkun höfuðstóls.
    Ekki virðist skipta neinu máli hvort veð fyrir láninu sé í fasteign, bifreið, tjaldvagni eða öðru lausafé – allt fær sömu meðferð þó svo að lán með veði í fasteignum njóti iðulega mun betri kjara en önnur neytendalán.
    Hér yrði raunar á ferðinni eignaupptaka, ekki hjá kröfuhöfum eins og alþingismenn virðast sumir hverjir helst hafa áhyggjur af, heldur neytendum. Slíkt myndi eflaust innan tíðar koma til álita hjá EFTA-dómstólnum og gæti það skapað umtalsverða skaðabótaábyrgð á hendur ríkissjóði.
     
    Í meðfylgjandi töflu og línuriti má sjá tölur yfir raunverulegt húsnæðislán sem bíður niðurstöðu Hæstaréttar í dómsmáli undirritaðs. Þetta er nokkuð dæmigert 19,2 milljóna myntkörfulán til 30 ára, tekið í janúar 2006. Tölurnar sýna greiðslubyrði m.v. afborganir ársfjórðungslega fram til apríl 2010 og ber himinn og haf á milli þess sem upphafleg áætlun bankans gerði ráð fyrir (dökkblátt) og þess sem endurútreiknaðir vextir hafa í för með sér (gult), hvað þá ef vöxtum af mismuninum er bætt við (ljósblátt). Einnig má sjá afborganir (fjólublátt) sem grundvölluð var á ólögmætri gengistryggingu og bankinn innheimti, (á tímabili einungis greiddir vextir). Dæmi þetta sýnir vel fáránleika þess að láta úrskurð Hæstaréttar frá 16. september 2010 vera fordæmisgefandi fyrir öll gengistryggð húsnæðislán en frumvarp þetta byggir að verulegu leyti á þeim úrskurði. Til að fá út greiðslubyrði á ári þarf að margfalda tölur með 4.

      Tafla yfir greiðslubyrði





    Endurútreikningur í dæminu hér (gulur litur) er gerður af kröfuhafa á forsendum dóms Hæstaréttar frá 16. sept. sl. og er vafalaust réttur miðað við gefnar forsendur.  Að viðbættum vaxtavöxtum af mismuni endurútreiknings og afborgana (ljósblár litur) er útkoman hins vegar háð óvissuþáttum en tölur yrðu líklegast enn hærri en dæmið hér sýnir. Lægstu óverðtryggðu vextir SÍ voru notaðir til grundvallar útreiknings á vaxtavöxtum.

      Línurit yfir greiðslubyrði

    Lagt er til að endurákvörðun vaxta vegna ógildra skilmála verði einungis framvirk (ex nunc) og réttur neytenda að fullu virtur sbr. meginreglur neytendaréttar EES. Ólíklegt hlýtur að teljast að EFTA-dómstóllinn muni samþykkja einhliða afturvirkar skilmálabreytingar sem þessar en afleiðingar þeirrar niðurstöðu myndu leiða til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart neytendum og gæti það orðið ríkissjóði æði kostnaðarsamt.
     
  3. Frumvarpið segir til um að lengri lánasamningar en til 5 ára breytist í verðtryggð lán nema skuldari kjósi heldur óverðtryggða vexti í samræmi við 4. gr. 38/2001 eða ef samið er um betri kjör honum til handa. Ennfremur er kröfuhafa gefið sjálfdæmi um að breyta lánasamningi 5 árum síðar, (sjá ath. við 3. gr. liður a).
    Í 5. málsgrein athugasemda við 2. gr. segir m.a.: “Með tilliti til jafnræðis og réttlætissjónarmiða er hér því lagt til að skuldurum veðlána, með ógildri gengistryggingu, standi til boða að greiða framvegis af lánum sínum sem þau væru verðtryggð.” Rétt er að hafa það hugfast að lánafyrirtækin buðu mun hagstæðari kjör og lægri vexti á myntkörfulánum en almennt þekktust á Íslandi. Þessi lán voru kynnt neytendum með stærri auglýsingum en almennt tíðkuðust, dag eftir dag, viku eftir viku, svo mánuðum og jafnvel árum skipti. Líklegt verður að teljast að margir neytendur hefðu alls ekki tekið á sig skuldbindingar sem þessar ef einungis “hefðbundin” verðtryggð lán hefðu verið í boði.
    Hvað varðar aðra möguleika en verðtryggt lán er vert að árétta að ekki er sjálfgefið að það verði þrautalaust fyrir neytendur að semja um nýja skilmála við kröfuhafa. Oft á tíðum hefur traustið tapast, sérstaklega þar sem málarekstur er í gangi eða kröfuhafi er fyrirtæki í þrotameðferð með litla eða enga viðskiptamannaþjónustu og með það eitt að markmiði að hámarka endurheimtur.
    Margt bendir til að þegar til lengri tíma er litið séu heildarafborganir af myntkörfuláni (gengistryggðu) mun lægri en af sambærilegu verðtryggðu húsnæðisláni þó svo að sveiflur kunni að vera meiri. Ekki verður því annað séð en að það eigi að skerða kjör neytenda verulega með fyrirhuguðum lagabreytingum, þrátt fyrir að þeir hafi engin lög brotið, ólíkt lánveitendum. Erfitt er að koma auga á sanngirni í þeirri ráðstöfun.

    Lagt er til að myntkörfulán eða gengistryggð lán breytist ekki sjálfkrafa í “hefðbundin” verðtryggð lán heldur verði leitað annarra leiða með hag neytenda að leiðarljósi. Finna þarf sanngjarnari úrræði með vöxtum og afborgunum eins nálægt þeim upprunalegu og kostur er .
    Neytendur ættu ekki að þurfa að reiða sig á náð og miskun kröfuhafa með úrlausn sinna mála og minnt er á þær skyldur sem EES-reglur kveða á um að neytendur fái fyrirfram réttar og nákvæmar upplýsingar um þær skuldbindingar sem þeir undirgangast.
     

3. gr. liður a. Vakin er athygli á þessu orðalagi: “Að liðnum fimm árum skulu vaxtakjör endurskoðuð og er þá lánveitanda heimilt að ákveða vaxtakjör sem miðast við sambærilegar lánveitingar hans á þeim tíma er til endurskoðunar kemur.” Tæpast er hægt að skilja þetta öðruvísi en að neytendur verði upp á náð og miskunn kröfuhafa komnir sem fá þá sjálfdæmi um að breyta lánasamningum og kjörum lánanna.

3. gr. liður c. Í 90 daga frá gildistöku laganna “skal með samningi kröfuhafa og skuldara vera heimilt að færa höfuðstól lánsins í erlendar myntir eins og um gilt erlent lán hafi verið að ræða frá stofntíma kröfunnar”.

En hvað er það í frumvarpinu sem tryggir neytanda algjörlega sambærileg kjör á erlendu láni og á hinu ólögmæta gengistryggða láni? Reyndar virðist lánveitanda ekki skylt samkvæmt orðalagi 3. gr. c að virða óskir neytanda um breytingu yfir í erlent lán. Athugasemd um greinina styður það sjónarmið en þar er talað um “heimild til að semja við lánveitendur sína”. Hafa ekki allir heimild til þess hvort eð er?

Hér þarf að kveða mun fastar að orði og tryggja rétt neytenda svo að lánveitandi geti ekki hafnað ósk hans eða sett fram kröfu um óhagkvæmari skilmála.

 

Helstu niðurstöður: Þó svo að yfirlýstur ásetningur með þessu frumvarpi sé af hinu góða óttast undirritaður að verið sé að gera neytendum með gengistryggð lán mikinn bjarnargreiða með  ósanngjörnum ákvæðum þess. Í nafni jafnræðis og sanngirni er verulega verið að þyngja vaxtabyrði af lánum þessum afturvirkt og setja nýja óhagstæða skilmála í stað þeirra sem fyrir eru. Þetta brýtur í bága við neytendavernd EES-réttar sem er í fullu gildi á Íslandi. Neytendur eru klárlega veikari aðilinn í þessu reiknidæmi og mikil nauðsyn að standa þétt við bakið á þeim þar sem kröfuhafar munu eflaust leita allra leiða til að “endurheimta” meint tap sitt vegna ólögmæti gengistryggingarinnar.

Frumvarpið byggir á dómum Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september sl. en síðarnefndi dómurinn var efnislega samhljóða tilmælum Seðlabanka Íslands og FME frá 30. júní um endurútreikning lánasamninga vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Þau tilmæli voru gefin út til að “skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi” eins og segir í tilmælunum. Því er það ljóst er að hagur fjármálastofnana og öryggi fjármálakerfisins hafa hér skipt meginmáli en ekki hagsmunir neytenda sem virðast engu síður eiga að taka skellinn af ólögmætum samningsskilmálum sem þeir þó áttu engan þátt í að útbúa. Erfitt er að koma auga á þá sanngirni sem í því felst. 

Tilgreindir dómar Hæstaréttar fjölluðu auk þess um uppgjör bílaláns sem í meira lagi er vafasamt að leggja til grundvallar fyrir öllum gengistryggðum lánum til lengri eða skemmri tíma, sama hvort þau voru tekin til kaupa á fasteign, ökutæki, tjaldvagni, bíl eða einfaldlega til daglegrar neyslu.

Vert er að hafa í huga að þar sem gengistryggingarákvæði lánasamninganna eru ólögmæt og óskuldbindandi máttu kröfuhafar ekki uppreikna höfuðstól þeirra og afborganir. Höfuðstóll lánanna stóð því í stað og meint “stökkbreyting” átti sér enga lagalega stoð. Því er það rangt sem iðulega er haldið fram og nú síðast á minnisblaði með þessu frumvarpi þar sem segir: “Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán.” Hér er verið að afvegaleiða umræðuna og hlýtur að verða að gera þá kröfu til stjórnvalda að bera ekki svona upplýsingar á borð. Réttara er að skuldir heimilanna hækka verulega þar sem búast má við því að aukin greiðslubyrði eftir endurútreikning (ex tunc) auk vaxta af mismuninum yrði bætt við höfuðstól lánanna eins og lýst er í 2. gr. Þannig gæti höfuðstóll láns með óskuldbindandi gengistryggingu hækkað í einu stökki um 60% eða meira í kjölfar fyrirhugaðra lagabreytinga.

Frumvarp þetta er lagt fram á sama tíma og tekist er á um fyrstu álitamálin sem varða gengistryggð húsnæðislán fyrir Hæstarétti. Erfitt er að sjá það fyrir hvernig dómarar muni bregðast við frumvarpinu verði það samþykkt, en augljóslega eru ítarlegar greinargerðir málsaðila miðaðar við allt önnur lög en frumvarpið hefur í för með sér. Lagagrundvelli yrði þ.a.l. kippt undan málsaðilum. Í nokkrum málum hefur verið óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um vexti af gengistryggðum lánum og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur nýlega fallist á kröfu þess efnis.

Loks er ástæða til að minna á skattalega óvissu sem gæti skapast vegna frumvarps þessa. Háar upphæðir munu skipta um hendur eða færast til í bókhaldi þegar og ef lán verða endurútreiknuð miðað við gjörólíkar forsendur. Nauðsynlegt er að búa svo um hnútana að leiðréttingar á höfuðstól verði ekki skattlagðar fyrir neytendur sem staðið hafa í skilum með sín lán í góðri trú.

Með afturvirkum lagabreytingum virðast höfundar frumvarpsins algjörlega hafa gleymt “lögmætisreglunni”, verndun eignaréttar neytenda undir Evrópusáttmálanum (1. gr. Protocol 1 European Convention of Human Rights) og öllum meginreglum neytendaréttar EES sem eru ófrávíkjanlegar og í fullu gildi á Íslandi. Ríkið gæti hæglega orðið skaðabótaskylt gagnvart neytendum burtséð frá mögulegum skaðabótum sem kröfuhafar “gömlu bankanna” gætu áunnið sér með fulltingi dómstóla. Óvissan er slík að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú óskað eftir áliti EFTA-dómstólsins varðandi vaxtaskilmálabreytingar.


mbl.is Gengislánafrumvarp úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð í að gera ekki neitt

Julian Assange sat í fangelsi í 9 daga án ákæru. Þá fyrst var honum sleppt gegn 44 milljón kr. tryggingu með áfastan eftirlitsbúnað. Hann má næstu vikurnar ekki yfirgefa Bretland, ekki vera utandyra um kvöld og nætur og verður að halda til á ákveðnum stað. Þetta hlýtur því að vera næsta stig við stofufangelsi og telst nokkuð vel í lagt þar sem að ekki er líklegt að hann hafi brotið nein lög.

Á Íslandi rændi hópur manna bankana innanfrá. Með útsmognum hætti komu þeir höndum yfir sparifé landsmanna og reynar einnig sparifé fjölmargra annara víða um lönd. Afleiðingar þess eru m.a. laskað þjóðarstolt og niðurlæging, stórfelld eignaupptaka, atvinnuleysi, andleg vanlíðan, landflótti, biðraðir við hjálparstofnanir og í verstu tilfellum sjálfsmorð. Þessir "athafnasömu" menn ganga allir lausir án eftirlitsbúnaðar, takmörkunar á ferðafrelsi eða greiðslu tryggingar.

Íslensk stjórnvöld hafa sérhæft sig í að skoða málin. Þau skoða og skoða en gera ekkert róttækt til að leysa vandann. Réttlætið er fótum troðið og almenningur er búinn að missa alla tiltrú á Alþingi og stjórnmálaflokkum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki einu sinni mannað sig upp í að fordæma pólitískar ofsóknir gagnvart Julian Assange. Skyldu þeir segja eitthvað ef Kristinn Hrafnsson yrði tekinn höndum? 


mbl.is Assange óttast framsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarveruleiki bandarískra fjölmiðla

Lesendur Time völdu Julian Assange sem mann ársins. Ritstjóri blaðsins sá hins vegar ástæðu til að sniðganga þá kosningu og velja Mark Zuckerberg í hans stað. Það þarf varla að vera mjög trúaður á samsæriskenningar yfirleitt til að sjá hvað veldur.
 
Fólk þarf hins vegar að gera það upp við sig hvort það vill lifa í sýndarveruleika eða ekki.
 

mbl.is Zuckerberg maður ársins hjá Time
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólagjöfin í ár

Ég er búinn að ákveða jólagjöf handa mér sjálfum í ár. Hún fór í póst í kvöld:

(Til viðskiptabanka minna og greiðslukortafyrirtækja),

Ég undirritaður hef að vandlega athuguðu máli ákveðið að hætta öllum viðskiptum við kortafyrirtæki og fjármálafyrirtæki sem á einn eða annan hátt standa í vegi fyrir starfsemi Wikileaks og upplýsingamiðlun til almennings. Þess vegna tilkynni ég hér með að öllum kortum á mínu nafni sem útgefin eru í nafni VISA, MasterCard eða af sömu rekstraraðilum skuli lokað frá og næstu áramótum eða við fyrsta mögulega tækifæri.

Ég lýsi ennfremur megnustu  óánægju minni vegna framferði þessara fyrirtækja í krafi aðstöðu sinnar og sérhagsmuna.

Með kveðju,

(Sign.)

Ég hvet þá sem þetta lesa til að íhuga það sama.


mbl.is Assange enn í haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband