Sáttmálinn og grunngildin

Þessi frétt af ógeðfelldum "réttarhöldum" á Spáni vekur upp spurningar um grunngildin og sáttmála þjóðarinnar. Af því tilefni set ég hér inn grein sem ég skrifaði í vikunni. Hún birtist á Smugunni undir nafninu "Ísland - Bútan, framþróun eða stöðnun?"
 
-----------
 
13. nóv. sl. fékk ég birta grein í Smugunni þar sem ég færði rök fyrir því að ekki borgaði sig að slá stjórnlagaþingi á frest líkt og forsætisráðherra hefur nú talað fyrir. Einnig gagnrýndi ég þá aðferð sem tilgreind er í frumvarpi til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing, sjá hér.

SkjaldarmerkiÞó að ýmsir ráðamenn reyni að tala á bjartsýnum nótum um ástand og horfur í málum þjóðarinnar, hringja margar viðvörunarbjöllur sem fá fólk til að efast um að allt sé með felldu. Alþingi situr fast í umræðu um Icesave og önnur mikilvæg mál hrannast upp án þess að á þeim sé tekið. Lögspekingar tala í mismunandi áttir um ákvæði stjórnarskrárinnar, hvort fyrirliggjandi samningar við Breta og Hollendinga brjóti í bága við ákvæði hennar eða ekki. Löng hefð er fyrir því að túlka ákvæði hennar frjálslega og jafnvel á allt annan veg en orðanna hljóðan segir til um. Mörg vestræn ríki hafa sérstakan stjórnarskrárdómstól til að kveða úr um svo mikilvæg álitamál en hér á landi hefur verið látið nægja að spyrja háskólaprófessora álits sem oftar en ekki komast að ólíkum niðurstöðum.

Fáir mótmæla því að íslensk þjóð stendur á miklum tímamótum. Fyrir liggur að skuldir þjóðarbúsins séu yfir 300% af VLF sem óháðir hagfræðingar hafa sagt vera ávísun á greiðsluþrot. Misskipting auðs hefur sjaldan verið meiri en nú þar sem að afrakstur auðlinda landsins rennur að mestu óskiptur í vasa útvaldra. Um helmingur heimila landsins skuldar hins vegar húsnæðislán sem hafa hækkað langt umfram nokkur eðlileg viðmið og höfuðstólar margra lána hreinlega stökkbreyst sökum gengishruns krónunnar. Landflótti er ekki bara hræðsluáróður heldur staðreynd sem tölur frá Hagstofunni staðfesta. Bless-vísitalan fer hækkandi með hverjum mánuði sem líður.

Stjórnarskráin okkar er jafngömul lýðveldinu en hlutar hennar reyndar mun eldri, enda heimanmundur frá Dönum. Þó svo að sumir (t.d. forseti Íslands) vilji meina að hún hafi ágætlega staðist tímans tönn þá yrði hún seint talin nútímaleg, hvað þá framsækin. Réttindi og skyldur forsetans eru tíundaðar í 30 greinum af 81 en ekki er einu orði minnst á fjölmargt sem skiptir okkur svo miklu máli, t.d. lífsgæði, auðlindir, mengun, fjölmiðla, menningu, sjálfbærni, loftgæði, drykkjarvatn, náttúru og umhverfi. Lítið bólar heldur á mörgum þeim gildum sem nýafstaðinn Þjóðfundur helst dró fram s.s. heiðarleika, virðingu, réttlæti, kærleika og jöfnuð.

„Without a living constitution there is no future“. Þetta sagði María Emilia Casas Baamonde, forseti spænska stjórnarskrárdómstólsins nýlega í viðtali og lýsti stjórnarskránni sem nauðsynlegu tæki til framþróunar. Hún yrði að vera í takt við tímann og mætti því ekki vera eins og heilög kýr sem ekki mætti hrófla við. Að mati Maríu er nú þegar orðið nauðsynlegt að gera gagngerar endurbætur á hinni 31 árs gömlu spænsku stjórnarskrá vegna mikilla þjóðfélagsbreytinga á seinni árum.

BútanEn fyrirmyndir að nútímalegri stjórnarskrá má finna víðar en á Vesturlöndum. Varla myndi mörgum Íslendingum detta konungsríkið Bútan í hug þegar leitað er eftir góðu fordæmi. Þetta einangraða land í Himalayafjöllum tók í notkun nýja stjórnarskrá árið 2008 sem er allar athygli verð og sýnir í samanburði hvað sú íslenska er takmörkuð og úr sér gengin. Þar eru t.d. settar miklar skyldur á ríkið að standa vörð um náttúru landsins og vistkerfi, að koma í veg fyrir mengun og tryggja öllum öruggt og heilsusamlegt umhverfi. Einnig er þar að finna óvenjulegri hluti eins og tilvísun til „Vergrar Þjóðarhamingju“ (e. Gross National Happiness) sem er mæling á félagslegum, umhverfislegum og menningarlegum lífsgæðum. Ríkinu ber að móta sér stefnu og markmið með hamingju fólks að leiðarljósi. Þessi sérstaka nálgun hefur reyndar vakið athygli málsmetandi manna á Vesturlöndum eins og nóbelsverðlaunahafans Joseph Stieglitz og Sarkozy Frakklandsforseta svo að ekki er ólíklegt að einhver "þróuð" ríki taki sér þetta til fyrirmyndar.

Konungur Bútan lagði mikla áherslu á að vinna nýrri stjórnarskrá fylgi meðal þjóðarinnar og ferðaðist um öll héruð landsins til að ræða innihald hennar milliliðalaust við fólk. Þannig tók stór hluti þjóðarinnar beinan þátt í mótun hennar og fyrst það var hægt í afskekktu konungsríki í Himalayafjöllum hlýtur það að vera hægt á Íslandi líka. "Ef við horfum upp á Bútan innleiða svo framsækna nýja stjórnarskrá fyrir 21. öldina án þess að gera nokkuð sjálf mun það verða okkur til ævarandi skammar" sagði spænska konan mín sem benti mér á þetta sérstaka frumkvæði þjóðhöfðingjans í Bútan, sjá nánar hér. Þegar þjóðir hætta að setja sér háleit takmörk er næsta víst að hnignun er á næsta leiti.

Viljum við áfram vera eftirbátar annarra þjóða? Ætlum við að fórna meiri tíma í að þrasa um skatta og skuldir án þess að huga að grunngildum þjóðfélagsins, sáttmálanum sem við gerum hvert við annað? Ætlum við að leyfa stjórnmálaflokkunum og hagsmunaaðilum innan þeirra að ráðskast með öll okkar mikilvægustu mál? Ætlum við enn um sinn að horfa upp á alþingismenn tala sig hása langt fram á nótt í tilraun til að sporna við framkvæmdavaldinu? Treystum við Alþingi til að rannsaka sig sjálft? Ætlum við að sætta okkur við að dómarar séu skipaðir á pólitískum forsendum? Hvers vegna í ósköpunum eigum við að líða það að auðlindum landsins sé svo illilega misskipt? Hér á enginn að þurfa að líða skort.

Sigurður Sigurðsson
höfundur er kvikmyndagerðarmaður og situr í stjórn Borgarahreyfingarinnar
mbl.is Ætluðu að lífláta konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég held að fólk sé ekki vaknað til vitundar en það kemur að því.

Sigurður Þórðarson, 6.12.2009 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband