12.11.2009 | 07:59
Og hvað með almenning?
Það virðist ekki vefjast fyrir bönkunum að færa niður höfuðstól lána til fyrirtækja, ólíkt einstaklingum sem ekki eru í vildarvinaklúbbi stjórnmálamanna og bankastjóra. Almenningur hefur líka verið gerður ábyrgur fyrir lánum sínum langt út yfir gröf og dauða og er gert að taka á sig allar afleiðingar óráðsíu í bankakerfinu, glæpsamlegum stöðutökum gegn krónunni, gagnlausum eftirlitsstofnunum og siðlausrar einkavinavæðingar.
Það kemur betur og betur í ljós að það kemur út á eitt hvort að horft er til vinstri eða hægri í stjórnmálum á Íslandi. Skjaldborgin skal reist utan um fjármálastofnanir og fjármagnseigendur hvað sem tautar og raular. "Norræna velferðarstjórnin" olli meira að segja sænska efnahagsráðgjafanum gífurlegum vonbrigðum.
En hvar eru Neytendasamtökin og ýmis önnur hagsmunasamtök almennings? ASÍ og verkalýðsfélögin? Getur almenningur e.t.v. sjálfum sér um kennt?
Höfuðstóll fyrirtækjalána gæti lækkað verulega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:06 | Facebook
Athugasemdir
Í hvaða myntkörfu ert þú eiginlega? Hefurðu ekki tekið eftir að Íslandsbanki er að lækka bæði erlend og verðtryggð lán hjá einstaklingum???
Gummi (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 08:39
Sæll Gummi. Ertu viss um að þú sért vel upplýstur um þessi mál? Mér vitanlega er Íslandsbanki eini bankinn sem býður e-s konar höfuðstólslækkun á gengistryggðum lánum. Um er að ræða ca. 25% lækkun á höfuðstól og að lánið breytist í óverðtryggt íslenskt lán á 7,5% stighækkandi vöxtum eða 9% föstum vöxtum. Rétt er að hafa í huga að gengistryggð lán hafa hækkað um 100-200% á sl. 2 árum og eru ólögleg samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 eins og útskýrt var í Speglinum á Rás 1 í gær.
Þó svo að Íslandsbanki bjóði þetta úrræði er ekki eins og það skeri fólk úr snörunni. Tökum dæmi: Fjölskylda nokkur átti 10 milljónir á banka og tók 20 milljón króna lán til 25 ára fyrir 2-3 árum síðan til kaupa á 30 milljón króna íbúð. Þrátt fyrir að hafa greitt reglulega af láninu er höfuðstóll þess kominn vel yfir 40 milljónir (segjum 42) en verðmæti íbúðarinnar er líklega helmingurinn af því, rúmlega 20 milljónir. Mánaðalegar afborganir voru í upphafi um 110.000 en eru núna um 220.000. Það þarf mikinn greiðsluvilja til að borga afborganir af slíku láni. Fjölskyldan er svo "heppin" að vera í viðskiptum hjá Íslandsbanka og sækir um höfuðstólslækkun. Samkvæmt reiknivél á heimasíðu bankans yrði mánaðarleg greiðsla eftir breytingu á bilinu 210.000 til 265.000 eftir því hvort að nýja lánið væri til 25 eða 40 ára og eftir því hvor vaxtaleiðin yrði fyrir valinu. Ég get hreinlega ekki séð að viðkomandi sé nokkru bættari eftir breytinguna, nema síður sé.
Sigurður Hrellir, 12.11.2009 kl. 10:26
Sæll Sigurður,
Ég tel mig nokkuð vel upplýstan um þetta mál og er í meginatriðum sammála þessari athugasemd hjá þér. Ég var fyrst og fremst að gagnrýna bloggið þitt um að það væri eingöngu verið að afskrifa hjá fyrirtækjum. Það er bara ekki rétt eins og þú viðurkennir reyndar í athugasemdinni.
Ég sá auglýsingu frá Landsbankanum um daginn þar sem hann var líka að auglýsa höfuðstólslækkun fyrir einstaklinga. Hef ekki séð fleiri aðila bjóða afskriftir. Auðvitað má svo deila um hvort þær gagnist í raun og veru.
Mér sýnist að ef maður ætli sér að selja fasteign innan skamms tíma gæti höfuðstólslækkun verið góð en ef maður er í framtíðarhúsnæði myndi ég mjög líklega halda erlenda láninu.
kv. Gummi
Gummi (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.