5.2.2009 | 14:04
Nýir möguleikar
Það er augljóst mál að við eigum hauka í horni á mikilvægum stöðum innan ESB. Ekki er alveg víst að svo verði ef beðið verður með ákvörðun um aðildarviðræður.
Andstæðingar ESB á Íslandi, Heimssýn og LÍÚ eru óþreytandi að benda á hugsanlegan fórnarkostnað ef Ísland fengi fulla aðild. Af hverju minnast þeir aldrei á kostina?
Nýlega var ég í fríi á Kanaríeyjum. Víða á eyjunum (Tenerife og La Palma) sá ég skilti sem sýndu framlag ESB til uppbyggingar á ýmsum sviðum. Ég tók nokkrar myndir af þeim til gamans sem hér má sjá fyrir neðan. Þar eru lagðir vegir og byggðir flugvellir með framlagi frá ESB. Þar eru þjóðgarðar og náttúruminjar sem styrkir frá ESB gera kleift að veita fólki aðgang að án þess að það beinlínis eyðileggi svæðin. Á hæsta toppi eyjunnar La Palma í 2400 metra hæð var meira að segja byggður stærsti stjörnusjónauki í Evrópu, William Herschel telescope með þátttöku ESB.
Einn vonarpeningur Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífill Ingvarsson sagði nýlega:
"Rekstur sem byggist á styrkjum hefur lítið frumkvæði og lítinn lífsvilja. Styrkir einfaldlega drepa í dróma. Áherslur sveitarfélaga eiga að vera skýrar. Þær snúast um að vernda hag fjölskyldna í landinu og skapa fyrirtækjum aðstæður til þess að vaxa og dafna."
Ég verð að játa að ég botna ekkert í svona málflutningi. Júlíus talar í tómum þversögnum og hefur greinilega lítið lært af afdrifaríkum mistökum Sjálfstæðismanna á undanförnum árum. Ef hann virkilega trúir enn að lögmálum markaðarins sé best treystandi fyrir allri atvinnusköpun og frumkvæði, til hvers situr hann þá sjálfur í borgarstjórn?
Olli Rehn stendur fast á sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ok, ESB henti eitthverjum tugum, kannski hundruðum milljóna kr í þá, en hvað heldurðu að þeir séu búnir að henda miklu í ESB?
Þór (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 14:19
Það er ekki svo að Evrópusambandið framleiði fjármuni í þessi verkefni. Þeirra er aflað með skattheimtu. Skattheimtu sem Íslendingar mundu engu ráða um. Það er hafsjór af verkefnum sem Sambandið hefur styrkt sem eru fáránleg, allt frá ferðamannamiðstöðvum þar sem aldrei eru ferðamenn yfir í styrki til búfjárræktunar þar sem ekkert er búfé.
Það er dapurlegt að þessum sífellda áróðri fyrir innlimun Íslands skuli aldrei linna. Stundum vonar maður að þetta lið sem vill afhenda stórríkinu öll yfirráð yfir Íslandi og leggja þar með af lýðræðið pakki saman og flytji sjálft í sambandið þannig að við hin losnum við síbyljuna.
Þórður Pálsson (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 16:02
Er fullkomlega ósammála þér Sigurður minn! Aftur á móti tek ég undir með Júlíusi og Þór. Skiltin eru ömurleg. Getur þú ímyndað þér aðra eins lákúru í náttúruperlum landsins. Höldum okkar reisn. Það eru verðmæti, gulli betri.
Þórður Sævar Jónsson (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 16:25
Er þetta Þórðargleði hér á síðunni minni? Annars get ég vel tekið undir það að skiltin eru ekkert augnayndi. Áróðurinn sem Þórður fyrsti talar um er síst meiri en áróðurinn á móti Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur t.d. lengi haldið því fram að engin ástæða sé til að sækja um fulla aðild að ESB því að EES samningurinn sé svo hagstæður okkur. Núna er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn og kenna þeir EES samningnum um það hversu illa er komið fyrir efnahag landsins, sbr. grein Björns Bjarnasonar í Mogganum í gær. Vandamálið er að umræðan er svo öfgakennd og órökstudd að við komumst aldrei neitt úr sporunum, þökk sé duglausum stjórnmálamönnum.
Sigurður Hrellir, 11.2.2009 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.