22.10.2008 | 12:43
Þráhyggja
Í ljósi hruns fjármálakerfisins og þess hvernig álverð hefur hríðfallið á mörkuðum finnst mér skrýtið að þessi plön skuli yfirleitt vera uppi á borðinu. Raforkuverð til álvera er afar lágt og enn lægra þegar álverð lækkar. Nær væri að hugsa vel hvernig hægt væri að fá hærra verð fyrir þá raforku sem nú þegar er fáanleg frekar en að fara út í rándýr langtímaverkefni við orkuöflun sem litlu skilar.
Það þarf að gera stórátak í að fá erlenda ferðamenn hingað til lands strax í vetur enda væri það ódýr og hraðvirk leið til að auka gjaldeyrisstreymi hingað. Fyrst að Finnum tókst að sannfæra 2 milljónir ferðamanna árlega að heimsækja Lappland í svartasta skammdeginu ættu Íslendingar að geta náð umtalsverðum árangri sömuleiðis.
Flestum er sem betur fer ljóst að álbræðslur og stórar verksmiðjur passa engan veginn inn í ímynd landsins sem hreint og fagurt land. Það er þráhyggja að sjá enga aðra möguleika til verðmætasköpunar hér.
250-346 tonna álver í athugun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:52 | Facebook
Athugasemdir
Fólki, bæði stjórnmálamönnum og almenningi hefur verið frjálst í gegnum árin að lokka hingað ferðamenn, byggja upp netþjónabú og selja íslenskt hugvit. Mér hefur meira að segja heyrst á þeim sem hafa stjórnað síðustu árin að stórfyrirtæki hafi hreinlega beðið í hópum eftir því að koma hingað með peningana sína, þess vegna sé algjört rugl að gera EITTHVAÐ annað en það.
Fyrst að staðan hefur verið svona, hvers vegna í ósköpunum gerir þú m.a. ekki eitthvað í því? Fólk úti á landi fær ekki greiddan pening inn á reikninginn sinn í hvert sinn sem gáfumenni úr náttúruverndargeiranum opinbera hversu fallegt Ísland er, eða af hverju menn gera ekki þetta en ekki hitt til þess að framleiða pening. Hversu mikið heldur þú að nýja lagið, Náttúra, sem Björk gaf okkur landsmönnum dugi á Húsavík? Kanski ættum við að fá greidd stefgjöldin. Þeir fáu Íslendingar og útlendingar sem heimsækja Bakka við Húsavík borga ekki krónu fyrir að fara þar um, þeir borga heldur ekki krónu fyrir að keyra upp á Þeystareyki og upp í Gjástykki ef að þeir myndu álpast þangað, sem mér þykir harla ólíklegt að þeir taki uppá að gera.
Það er alveg með ólíkindum hvað menn eru miklir snillingar í því hvernig á að græða pening, hvernig væri þá að byrja? Það er fyrirtæki úti í heimi sem vill koma hingað með pening, tryggja atvinnu til langs tíma og nota til þess orku í næsta nágrenni sem enginn tekur eftir að hafa verið tekin þaðan. Þessi orka hefur verið þarna í árhundruði og loksins þegar húsvíkingar sjá sér leik á borði og vilja nýta orkuna að þá poppa upp gáfumenni út um allt land, en þó sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og segja að það eigi að gera eitthvað annað.
Áður en að hreina fólkið í Reykjavík segir landsbyggðarfólki hvernig á að halda umhverfinu hreinu að þá væri kanski best að byrja á að hreinsa mannskítinn úr tjörninni, stolti borgarbúa.
Guðni (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 13:21
Guðni, ég á jafnmikið í þessu landi eins og hver annar Íslendingur, hvort heldur hann býr á Kópaskeri eða í Kópavogi. Umhyggjusemi þín vegna Tjarnarinnar í Reykjavík er vel þegin og sem betur fer kunna margir íbúar á landsbyggðinni því líka vel að umhyggja sé borin fyrir þeim og þeirra nánasta umhverfi.
Ég veit ekki hvort þú veist það en stjórnvöld hafa mjög litla áherslu lagt á ferðamannaiðnaðinn. Lítið hefur farið fyrir beinum stuðningi og átaksverkefnum sem studd eru af hinu opinbera. Flestir hagsmunaaðilar eru smáir og geta tæpast lagt út í stóra markaðssetningu.
Öðru máli gegnir um stóriðjuna en þar hefur ríkið heldur betur tekið þátt, bæði með kynningarátaki, lágu orkuverði og skattaívilnunum. Framkvæmdir hafa sumar hverjar notið ríkisábyrgðar og lánsfé því verið á hægstæðum kjörum þangað til nýlega. Svo er eins og það gleymist sífellt að arðurinn rennur til eigendanna en þeir eru ekki íslenskir.
Sigurður Hrellir, 22.10.2008 kl. 14:10
Sigurður, þú heldur þig þá bara í Kópavoginum. Það er brýn þörf á að koma einhverri atvinnustarfsemi í gang um landið, þeir þarna í 101 bankahverfinu geta haldiðáfram að sötra kaffi á sínum kaffihúsum, talað og sýnst gáfulegir.
Íslendingur (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 14:56
Það er allavega þannig að sumt fólk hefur talið sig eiga jafn mikið í landinu og aðrir, þeir ætlast allavega til þess að þar sé allt óbreytt ef og þá þegar þeim dettur í hug að kíkja þangað, og krefast jafnvel fullrar og góðrar þjónustu.
Staðreyndin er hinsvegar þessi. Fólk úti á landi reynir að bjarga sér og hefur gert það frábærlega oft á tíðum. Svo við tökum Húsavík sem dæmi þar sem álverið á að vera þar, að þá hafa þar verið mjög góð fyrirtæki í gegnum tíðina sem hafa skapað mörg störf. Þar sem það þarf venjulega fyrr eða síðar að hafa viðskipti við aðila í Reykjavík til að byggja upp fyrirtæki, selja vörur eða kaupa aðföng að þá eru fyrirtæki úti á landi háð þeim aðilum sem þar eru. Það hefur ávalt endað með því að fyrirtækin eru annað hvort drifin í þrot eða keypt í burtu, ekki vegna þess að það er endilega hagkvæmara heldur vegna þess að eigendurnir eru neyddir til þess. Það gengur ekki lengur að byggja upp fyrirtæki sem hverfa úr bænum jafn harðan og það skilar hagnaði eða er óhagkvæmt fyrir bankana í Reykjavík. Það þarf traustari stoðir en það, þetta þekkja þeir sem þarna búa og hafa, að ég held, lært af reynslunni. Það geta ekki allir staðið við bæjarmörkin og rukkað (vonandi væntanlega) túrista 12 mánuði á ári, ferðamanntíminn slefar í 6-7 mánuði núna og hefur líklega aldrei verið lengri. Veður úti á landi bjóða ekki uppá lengri ferðamannatíma en þetta. Við búum ekki í Lapplandi þar sem snjórinn fellur beint niður og varla hreyfir vind, það er einfaldlega of áhættusamt fyrir ferðamenn að fara norður í land yfir vetrartímann, enda þarf oftar en ekki að hirða upp ferðamenn á illa búnum bílum uppi á hálendinu og það kostar líka pening. Fólk hérna í Reykjavík getur aftur á móti haft tekjur af túristum flesta mánuði ársins. Fólk verður að skilja að það þarf pening á bankabókina 12 mánuði á ári, þeir skila sér ekki þangað nema eitthvað sé unnið, það er ekki nóg dáðst að fossum og fjöllum, það skilar fólkinu engu að borða.
Guðni (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.