Einelti fyrir fullorðna?

Eftir því sem umræðan um stóriðju og virkjanir á Íslandi hefur undið upp á sig heyrist æ oftar að andstæðingar framkvæmdanna þori ekki að tjá skoðanir sínar við fréttamenn. Á síðu 28 í Fréttablaðinu 30. ágúst mátti m.a. lesa:

"Íbúarnir [í Tjörneshreppi], sem Fréttablaðið talaði við, óttast álversframkvæmdirnar og telja þær geta lagt jarðir sínar í eyði. Þeir vildu ekki allir koma fram undir nafni og vísuðu sumir til þess að í sveitinni, sérstaklega á Húsavík, væri því sem næst bannað með lögum að vera á annarri skoðun en sveitarstjórnin. Nokkrir íbúar Húsavíkur höfnuðu einnig viðtalsbeiðni blaðamanns."

Á Vestfjörðum er sömu sögu að segja en þar hef ég heyrt talað um að fólk sé lagt í einelti fyrir að vera á móti olíuhreinsistöð. Í frétt sem birtist á RÚV 4. júní kom m.a. fram sú skoðun að þeir sem væru á móti gætu bara flutt í burtu. Þar kom einnig fram að þeir sem eru á móti hugmyndinni vilji síður tjá sig í viðtali en fylgjendur.

Er virkilega svo illa komið fyrir fólkinu hér á þessu landi að það eigi að troða mengandi verksmiðjum niður í flestum landshornum hvort sem mönnum líkar betur eða verr? Er nóg að alþjóðleg stórfyrirtæki veifi dollarabúntum (eða rúblum) til að sveitarstjórnir kikni í hnjánum og fái glýju í augun?

Á náttúruverndarfólki dynja sífellt ókvæðisorð af ýmsu tagi og er það kallað umhverfisfasistar, öfgamenn sem ekki hlusta á nein rök eða jafnvel hryðjuverkamenn. Vinsælt er að tala um einhverja kaffihúsamafíu sem heldur til í 101 Reykjavík og fer sjaldan austur fyrir Ártúnshöfða nema þá helst til að tína fjallagrös. Í 24 stundum á laugardaginn var kallaði hinn umboðslitli fulltrúi Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur framkvæmdastjóra Landverndar "atvinnumótmælanda"!

Að lokum má rifja upp atvik í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar árið 2000 þegar 60 manna hópur úr samtökunum "Afl fyrir Austurland" gekk í Náttúruverndarsamtök Austurlands gagngert til að koma í veg fyrir að ályktanir gegn stóriðju yrðu samþykktar innan félagsins og myndu í framhaldi af því birtast í fjölmiðlum.

Ef þetta er framgangsmáti þeirra sem vilja stóriðju í öllum landshlutum, hver er þá hinn öfgafulli sem ekki hlustar á nein rök? Samkvæmt skoðanakönnun í Fréttablaðinu 24. júní er töluverður minnihluti landsmanna fylgjandi frekari virkjunum fyrir stóriðju, hvort heldur sem spurt er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Ætlar hávær minnihlutinn sér að þagga niður í meirihlutanum?
 
Birtist í Mogganum í dag, 3. september 2008.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hversvegna ættu jarðir á Tjörnesi að fara í eyði vegna álversframkvæmda??

Mun líklegra er að álverið auðveldi mönnum að búa á jörðum sínum og vinna í álverinu með búskapnum. 

Spurning jafnvel hvort tveir þrír bændur gætu ekki skipt með sér einu starfi til að ná sér í aukatekjur , sem fullþörf er á.

Ég hreinlega trúi ekki að frændur mínir fyrir norðan séu slíkar heybrækur að þeir þori ekki að tjá sig um það sem á þeim brennur hverju sinni. Bara trúi því ekki.

Það er besta mál ef alþjóðleg fyrirtæki veifa dollurum og fjárfesta hér á landi.  Líka fyrir norðan.  þetta niðrandi tal um áliðnaðinn dæmir sig sjálft.

Álfyrirtækin þurfa að uppfylla fjöldan allan af kröfum varðandi umgengni við umhverfi og íslenska náttúru.

Óvildin í garð áliðnaðarins hlýtur að eiga sér aðrar rætur heldur en ást á landinu og fólkinu sem í því býr.

Tryggvi L. Skjaldarson, 3.9.2008 kl. 14:08

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir innlitið Tryggvi,

Að mínu mati virðist þú ekki hafa mikinn metnað fyrir hönd íslenskra bænda. Ég kannast ekki við að þeir hafi almennt sýnt því mikinn áhuga að fá sér vinnu í álverum samhliða bústörfum. Kannski ert þú einn um það. Einnig hlýtur þú að vita verandi fyrrverandi bóndi að margs konar búskapur er óæskilegur nálægt stórum álverum sökum mengunar. Svo er það deginum ljósara að landeigendur í nágrenninu muni eiga erfitt með að selja jarðir sínar ef af þessu verður.

Ég get fullvissað þig um að ég hef mikla ást á landinu og mörgum sem hér búa. Einnig get ég á vissan hátt skilið það hugarfar að virkja eigi orkuna sem í náttúrunni býr enda lifum við flest á landinu á einn eða annan hátt. Hins vegar hafna ég því að orkan okkar sé virkjuð án fyrirhyggju og seld til stóriðju á tombóluverði. Það er mjög sárt að sjá hvernig ýmsir ráðamenn þjóðarinnar tala nú eftir að hafa sjálfir klúðrað málum.

Einhverra hluta vegna þorir sumt fólk ekki að tala um þessa hluti frá hjartanu. Um það snýst pistillinn minn en ekki um það hvaða reglum álfyrirtækin þurfa að lúta eða hvort bændum henti að fá sér aukavinnu í verksmiðjum. Þetta snýst um það að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og forðast persónulegt skítkast. Það getur vel verið að náttúruverndarsinnar haldi stundum á lofti vafasömum fullyrðingum sér til málsbóta en ég kannast ekki við að þeir leggi fólk í einelti þó svo að um harða virkjanasinna sé að ræða.

Gangi ykkur vel í álverinu.

Sigurður Hrellir, 3.9.2008 kl. 15:04

3 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hvað er að því að vinna í álveri?  Glittir hér í fordóma?

Skil ekki hvernig þú færð það út að jarðir lækki í verði í nágrenni við uppgang.

 Ég er ekki að eini fyrrverandi bóndinn sem starfa í álveri.  Það fer gott orð af dreifbýlisfólki í álverum. Duglegt, úrræðagott og vant því að vinna með allskyns sérhæfðan vélbúnað.

Þú segir:"Það getur vel verið að náttúruverndarsinnar haldi stundum á lofti vafasömum fullyrðingum sér til málsbóta en ég kannast ekki við að þeir leggi fólk í einelti þó svo að um harða virkjanasinna sé að ræða."

Gott dæmi um vafasama fullyrðingu er hér að ofan hjá þér : "Hins vegar hafna ég því að orkan okkar sé virkjuð án fyrirhyggju og seld til stóriðju á tombóluverði."

Hafa ber það sem sannara reynist.

Ég held að það verði að skilgreina betur hvað átt er við með einelti. 

Flokkast skrif Andra Snæs um Jakob Björnsson fyrrverandi orkumálastjóra í bókinni Draumalandið sem einelti?

Stundum er erfitt að sjá skóginn fyrir trjám.

Tryggvi L. Skjaldarson, 3.9.2008 kl. 22:10

4 Smámynd: Sigurður Hrellir

Tryggvi, mig langar að benda þér á viðtal við Jónas H. Haralz í Speglinum á Rás 1 fyrr í dag. Hann lýsir yfir miklum efasemdum sínum með áframhaldandi stóriðjustefnu, ekki út af náttúruverndarsjónarmiðum heldur vegna efnahagslegra afleiðinga.

Varðandi fordómana þá er ég örugglega ekki laus við þá fremur en flestir aðrir. Sjálfur hef ég aldrei starfað í álveri og efast um að ég fengi nokkra þessháttar vinnu eftir allt það sem ég hef sagt og skrifað. Reyndar kysi ég fremur flest annað.

Sigurður Hrellir, 4.9.2008 kl. 01:00

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég bendi þér einnig á umræðu hér um bónda á Reyðarfirði sem ekki kærði sig um vinnu í álverinu.

Sigurður Hrellir, 4.9.2008 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband