1.9.2008 | 09:57
Áfram Kjötborg!
Þessir bræður eru gulli betri og eins og fram kemur í myndinni er þetta engin venjuleg búð. Sjálfur ólst ég upp nálægt Kjötborg í Búðargerði sem Jónas, faðir þeirra rak á meðan hann hafði heilsu til. Þeir Gunnar og Kristján störfuðu þar frá unga aldri og hið létta skap þeirra og einstök þjónustulund hefur fylgt þeim og ætíð verið til fyrirmyndar svo að vægt sé til orða tekið.
Eina sögu kann ég sem örugglega er ekkert einsdæmi. Móðir mín vann á tímabili hjá Hitaveitu Reykjavíkur og sá þar um mötuneytið. Eitt skiptið þegar haldin var árshátíð urðu þær uppiskroppa með bland í vodkann þegar komið var fram á nótt. Fyrirsjáanlegt var að karlarnir færu að drekka óblandað og í öngum sínum hringdi hún heim til Gunnars og bað hann um að redda málunum. Hann birtist skömmu síðar á bíl með nokkra kassa af gosi og vandamálinu var þar með afstýrt. Fáir kaupmenn hygg ég að tækju slíkt í mál.
Myndin um Kjötborg og þá bræður er mjög vel heppnuð og snertir áhorfendur. Vonandi verða góðar móttökur hvatning fyrir þessar ungu kvikmyndagerðarkonur og kaupmennina á horninu. Áfram Kjötborg!
Kjötborg best | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Facebook
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér :)
Ég hef verið svo heppin að búa í nágrenni við þessa búð og verslað við þá bræður, mætti reyndar vera duglegri eftir að ég flutti hinum megin við Hringbraut:) En amma er flutt á Grund og þeir eru auðvitað yndislegir við hana eins og alla þá sem leggja leið sína til þeirra. Frábært að þessi einstæða saga manngæsku hafi verið fest á filmu...
Birgitta Jónsdóttir, 1.9.2008 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.