19.9.2007 | 10:47
Ekki seinna vænna
Gott er að heyra að Húsafriðunarnefnd sé loksins farin að taka við sér varðandi verndun Laugavegarins. Það verður seint talin rós í hnappagat R-listans sáluga að hafa lagt blessun sína yfir deiliskipulag þar sem heimilt var að rífa 25 gömul hús og rústa götumyndinni með háum steinkössum. Nú er boltinn sem sagt hjá menntamálaráðherra og bíður hennar trúlega erfið ákvörðun.
Ég geri það að tillögu minni að þessi hús verði friðuð og að lagt verði ríflegt fé í að færa þau til fyrra horfs. Það hlýtur að vera metnaðarmál okkar að halda í þá byggingasérstöðu sem einkennir gamla bæinn og geta með stolti sýnt hvernig Reykjavík byggðist upp. Allt tal um gamla og ónýta kumbalda byggist á afneitun og þröngsýni því að síðan Bernhöftstorfunni var bjargað frá niðurrifi 1973 hafa gömul timburhús risið til vegs og virðingar og eru nú orðin mjög eftirsótt. Það mætti svo meta ýmsa möguleika á viðbyggingum að aftanverðu og jafnvel nýjum og stærri húsgrunnum til að koma til móts við þarfir kaupmanna. Að endingu ætti svo skilyrðislaust að gera Laugaveginn að göngugötu líkt og Strikið í Kaupmannahöfn og gera götuna aðlaðandi fyrir ferðamenn jafnt sem íbúa.
Tíu hús verði friðuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú talar um menntamálaráðuneytið/menntamálaráðherra. Það vekur þá spurningu hjá mér hvort ekki sé til ráðuneyti/ráðherra sem sinni menningarmálum?
Auðvitað ætti ég að vita þetta, en þótti sjálfsagt að til væri einhvers konar forstaða fyrir menningarmál.
Emelia Einarsson, 19.9.2007 kl. 11:00
Ég er algjörlega sammála þér Siggi. Við eigum að halda Reykjavík sem Reykjavík en ekki reyna að gera hana að New York skrímsli. Okkur líður öllum betur innan um gömul fallega uppgerð hús með mikla sál og sögu, frekar en nýja steypukassa sem ekkert segja nema: græðgi, meira fyrir fermetrann!
Ragnhildur Jónsdóttir, 19.9.2007 kl. 11:18
Menntamálaráðuneytinu er ætlað að fara með menningarmál. Fólk hefur líklega misjafnar skoðanir á því. Þar sem ég er ekki hlyntur fjölgun ráðuneyta tel ég að núverandi tilhögun sé ásættanleg. Það mætti hins vegar breyta nafni ráðuneytisins í mennta- og menningarráðuneytið. Þegar kemur að byggingasögu og verndun gamalla húsa, þá finnst mér nokkuð langt seilst að láta menntamálaráðuneytið ákvarða um það. Væri ekki rökréttara að umhverfisráðuneytið tæki þau mál til umfjöllunar?
Ragnhildur, við verðum trúlega að halda þessari báráttu áfram fram í rauðan dauðann. Þeir sem með peningana fara hafa mikil völd og sumir hugsa fyrst og fremst um magn fremur en gæði. Við höfum þó allavega hreina samvisku og hugsjónir til að styðjast við og munum ekki láta í minni pokann!
Sigurður Hrellir, 19.9.2007 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.