Alþingi úti að aka

Strax um vorið 2009 var flestum ljóst að svokölluð gengistryggð lán brytu í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, lét slíkt sem vind um eyru þjóta og sagði aðspurður að fólk þyrfti þá bara að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Ekki er það nú á allra færi að fara með flókin og erfið mál fyrir dómstóla. Lögfræðikostnaður er himinhár og einnig tæki fólk þá áhættu að ef málið tapaðist yrði það hugsanlega dæmt til að greiða allan málskostnað úr eigin vasa. En vasar skuldugra heimila eru sjaldnast fullir af peningum.

Örfáir aðilar tóku þó slaginn og höfðuðu mál til að fá úrskurð um ólögmæti gengistryggðra lána. Í miðjum klíðum, nánar tiltekið 18. desember 2010, samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 38/2001 með því yfirlýsta markmiði "að tryggja öllum einstaklingum sem tóku gengisbundin húsnæðislán eða bílalán lægri eftirstöðvar", "að tryggja sanngirni" og "skilvirkt uppgjör skulda". Einnig var skýrt tekið fram í minnisblaði frá ráðuneyti efnahags og viðskipta að álagning dráttarvaxta eða vanskilagjalda við uppgjör væri óheimil.

Frumvarp ráðherrans fór til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd en ekki viðskiptanefnd. Ástæða þess var væntanlega sú að líklegra var talið að frumvarpið fengi skjóta afgreiðslu á þann hátt. En hvers vegna lá svona mikið á? Þurfti að slá stoðum undir vondan málstað fjármálafyrirtækja í miðjum málarekstri? Fjölmörg erindi voru send til nefndarinnar, alls 36, og í sumum þeirra var bent á alvarlegar brotalamir og mjög slæmar afleiðingar fyrir lántakendur, sérstaklega þá sem tekið höfðu húsnæðislán fyrir 2007.

En vinnubrögðin á Alþingi eru oft á tíðum skelfileg og augljóst að nefndarmenn höfðu ekki fyrir því að kynna sér erindin sem þeim voru send. Þáverandi varaformaður efnahags- og skattanefndar, Álfheiður Ingadóttir, hefur trúlega frekar hlustað á rök eiginmanns síns, lögmanns Lýsingar, heldur en álit sérfróðra og annarra sem lögðu á sig mikla vinnu við að senda inn vel rökstudd erindi til nefndarinnar.

Hvort hún hafi eyrun betur opin nú, hálfu ári síðar og sitjandi sem formaður viðskiptanefndar, verður bara að koma í ljós. Hins vegar er það Alþingi til fullkominnar skammar að hafa samþykkt lagabreytingu sem kom svo illilega í bakið á mörgum skuldugum heimilum og setur málin í enn meiri óvissu en áður.


mbl.is Fundur um uppgjör lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Auðvitað fór þetta ekki til viðskiptanefndar, þar sem Lilja Mósesdóttir var formaður hennar og hefði aldrei hleypt þessum ólögum í gegn.

Marinó G. Njálsson, 10.6.2011 kl. 11:14

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Já Marinó, það er eflaust skýringin.

Sigurður Hrellir, 10.6.2011 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband