Hjólförin á Alþingi

Ég hlustaði rétt í þessu á sérkennilegan söfnuð fólks tjá sig um aðferðir við endurskoðun á grunnlögum ríkisins. Þessi sami söfnuður, að vísu með mismunandi þátttakendum, hefur með litlum árangri reynt að endurskoða þessi sömu grunnlög í hjartnær 70 ár, allt síðan 1944.

Við fólkiðÞað kemur líklega fæstum á óvart að Alþingi geti ekki sómasamlega afsalað sér því vandasama hlutverki að fjalla um breytingar á eigin vinnureglum og valdheimildum, heldur þrjóskist við að standa í vegi fyrir því að verðugir fulltrúar þjóðarinnar fái tíma og frið til að gera tillögur að nauðsynlegum endurbótum.

Fáum kemur það heldur á óvart að sumir fulltrúar gömlu helmingaskiptaflokkanna skuli lýsa því yfir að þeir munu ekkert mark taka á tillögum nýskipaðs stjórnlagaráðs. Þeir vilja heldur standa vörð um eigið embættismannakerfi sem bæði á stóran þátt í hruninu og hefur einnig ógilt lýðræðislegar kosningar án þess að hafa til þess efnislegar forsendur eða nothæf rök. Þjóðin mun því miður líklega áfram vera klofin í þessu máli eftir því hvort að fólk hefur persónulegan hag af óbreyttu ástandi eða ekki. Hjólförin eru dýpri en nokkru sinni og hagur heildarinnar alls ekki hafður í heiðri.

Ég lýsi fullkomnu vantrausti á Alþingi við endurskoðun samfélagssáttmálans en bind jafnframt vonir við nýskipað stjórnlagaráð sem ég hvet til dáða og þess að setja tillögur sínar í dóm þjóðarinnar strax og þær liggja fyrir og hafa fengið nægilega kynningu.

Alþingismenn ættu að leggjast undir feld og velta því fyrir sér hvort að vantraust almennings á Alþingi sé sjálfum þeim að kenna, flokkunum, embættismönnum, stjórnkerfinu eða einhverju enn öðru. Að skaðlausu mættu þeir taka sér launalaust leyfi þangað til að ný grunnlög hafa verið endurskoðuð og meirihluti þjóðarinnar lagt blessun sína yfir þau.

mbl.is Stjórnlagaráð samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú talar um vantraust almennings á Alþingi en hvað með vantraust almennings á þessu svokallaða stjórnlagaráði? Einungis 37% þjóðarinnar tók þátt í þessari skrípakosningu, einungis 11 af þessum 25 fengu tilskilinn lágmarksfjölda atkvæða til að taka sæti.

Sjálfur er ég fylgjandi því að breiðari hópur en Alþingismenn taki þátt í mótun stjórnarskrárinnar, þó svo að endanlegt vald til breytinga á stjórnarskránni sé skv. henni sjálfri hjá Alþingi. Hins vegar var gerð meginmistök við setningu laganna um val á þessum fulltrúum og var framkvæmdin í samræmi við lögin, enda ófagrar lýsingar á því hvernig framkvæmdin var, þar sem t.d. starfsmennirnir við talninguna voru að handfæra atkvæði, eftir því sem þeir töldu að væri rétt skrifað á kjörseðilinn, vegna þess að um 13 þúsund atkvæði var ekki hægt að lesa inn í tölvukerfið. Þessi ólög og framkvæmdin á þeim varð til þess að ég sá mig knúinn til að mæta ekki á kjörstað, nokkuð sem er í andstöðu við skoðun mína á skyldu landsmanna til að taka þátt í kosningum. Og ég veit um marga aðra sem hættu við að mæta vegna þess að þegar þeir fóru að kynna sér hvernig kosningarnar færu fram og hvernig atkvæðin yrðu meðhöndluð sáu það að maður gat ekki með nokkru móti vitað hvert atkvæði manns færi, né heldur haft neina vissu fyrir því að sá sem maður valdi yrði ekki látinn víkja fyrir einhverjum með færri atkvæði vegna þess að hann var ekki af réttu kyni.

Allur þessi prósess er því búinn að vera skrípaleikur frá upphafi til enda og bara verið að gera grín að kjósandanum með honum. Þess vegna myndi ég skora á alla þá sem þarna er lagt til að skipa í stjórnlagaráðið og fengu "ekkikosningu" skv. þessum ólögum og hafa ekki líst því yfir að þeir muni ekki taka þátt í þessu að lýsa því nú yfir að nóg sé komið af skrípaleiknum og að þeir muni ekki taka meiri þátt í þessu gríni. Sem betur fer eru þarna réttlátt þenkjandi menn og konur og hafa þegar líst þessu yfir enda getur maður ekki með neinu móti tekið þetta sjórnlagagerpi alvarlega.

Þegar það er síðan komið í höfn getum við síðan einhennt okkur að því að gera þetta rétt og velja menn til þessara starfa að alvöru.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 24.3.2011 kl. 13:26

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sæll nafni. Það sem mestu máli skiptir er það að tillögur að endurbættri stjórnarskrá hljóti hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Það væri endalaust hægt að rífast um það hvort að þessi eða hinn sé betri til að koma með tillögur en í raun og veru getur hver sem er komið tillögum á framfæri. Eins og venjulega er verið að deila um keisarans skegg.

Ég skora á þig og aðra efasemdarmenn að taka nú þátt í umræðunni um efni stjórnarskrárinnar, kosti og galla þeirra hugmynda sem helst eru til skoðunnar. Ef við ætlum alltaf að hjóla í manninn en ekki málefnið komumst við aldrei neitt úr hjólförunum.

Sigurður Hrellir, 24.3.2011 kl. 13:51

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hún er undarleg árátta pólitískra afla til að stöðva allar tilraunir í átt til beinna lýðræðis. Nú á það að skipta sköpum hvaða nöfn standa á bak við tillögurnar að bættri stjórnarskrá. Margir eru búnir að tala sig upp í lífshættulegan æsing vegna þess að Hæstiréttur hafi séð annmarka á framkvæmd kosninga sem voru kærðar af pólitískum hvötum. Líklega hefðu flestir dómstólar afgreitt þetta smámál með athugasemd svona til að friða kærendur.

Nú er málið farsællega leyst og þeir fjölmörgu alþingismenn sem sáu sér ekki fært að takast á við þetta erfiða mál fara nú líklega að naga sig í einhverja útlimi vegna skömmustukenndar. Það hlupu nefnilega svo margir á sig á Alþingi í dag og sumir illa eins og gengur.

Það gefur sér enginn vitið sjálfur.

Árni Gunnarsson, 24.3.2011 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband