22.12.2010 | 16:37
Ríkið tekur á sig auknar ábyrgðir og lögbrjótar sleppa við refsingu
Í færibandaafgreiðslu síðasta vinnudaginn fyrir jól samþykktu stjórnarliðar í nafni "réttlætis" og "sanngirni" breytingar á einum umtöluðustu lögum síðustu ára, lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Í nóvember sendi ég inn umsögn til efnahags- og skattanefndar út af þessu makalausa breytingafrumvarpi sem byggir á mjög hæpnum forsendum, þ.e. úrskurði Hæstaréttar í frægu máli sem varðaði uppgjör á bílaláni.
Það er mér stórlega til efs að alþingismenn hafi allir sem einn kynnt sér þetta mál til hlýtar, enda er "réttlætið" og "sanngirnin" ekki meiri en svo að margir munu eflaust fara í mál og krefjast skaðabóta frá ríkinu vegna eignaupptöku af þessum sökum. Þannig hefur ábyrgðin verið flutt frá fjármálafyrirtækjum sem brutu lögin með því að bjóða þessi lán, yfir á ríkissjóð.
----------
Frumvarpið byggir á dómum Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september sl. en síðarnefndi dómurinn var efnislega samhljóða tilmælum Seðlabanka Íslands og FME frá 30. júní um endurútreikning lánasamninga vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Þau tilmæli voru gefin út til að skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi eins og segir í tilmælunum. Því er það ljóst að hagur fjármálastofnana og öryggi fjármálakerfisins hafa hér skipt meginmáli en ekki hagsmunir neytenda sem virðast engu síður eiga að taka skellinn af ólögmætum samningsskilmálum sem þeir þó áttu engan þátt í að útbúa. Erfitt er að koma auga á þá sanngirni sem í því felst.
Tilgreindir dómar Hæstaréttar fjölluðu auk þess um uppgjör bílaláns sem í meira lagi er vafasamt að leggja til grundvallar fyrir öllum gengistryggðum lánum til lengri eða skemmri tíma, sama hvort þau voru tekin til kaupa á fasteign, ökutæki, tjaldvagni, bíl eða einfaldlega til daglegrar neyslu.
Vert er að hafa í huga að þar sem gengistryggingarákvæði lánasamninganna eru ólögmæt og óskuldbindandi, máttu kröfuhafar ekki uppreikna höfuðstól þeirra og afborganir. Höfuðstóll lánanna stóð því í stað og meint stökkbreyting átti sér enga lagalega stoð. Því er það rangt sem iðulega er haldið fram og nú síðast á minnisblaði með þessu frumvarpi þar sem segir: Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán. Hér er verið að afvegaleiða umræðuna og hlýtur að verða að gera þá kröfu til stjórnvalda að bera ekki svona upplýsingar á borð. Réttara er að skuldir heimilanna hækka verulega þar sem búast má við því að aukin greiðslubyrði eftir endurútreikning (afturvirkt) auk vaxta af mismuninum yrði bætt við höfuðstól lánanna eins og lýst er í 2. gr. Þannig gæti höfuðstóll láns með óskuldbindandi gengistryggingu hækkað í einu stökki um 60% eða meira í kjölfar fyrirhugaðra lagabreytinga.
Frumvarp þetta er lagt fram á sama tíma og tekist er á um fyrstu álitamálin sem varða gengistryggð húsnæðislán fyrir Hæstarétti. Erfitt er að sjá það fyrir hvernig dómarar muni bregðast við frumvarpinu verði það samþykkt, en augljóslega eru ítarlegar greinargerðir málsaðila miðaðar við allt önnur lög en frumvarpið hefur í för með sér. Lagagrundvelli yrði þ.a.l. kippt undan málsaðilum. Í nokkrum málum hefur verið óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um vexti af gengistryggðum lánum og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur nýlega fallist á kröfu þess efnis.
Loks er ástæða til að minna á skattalega óvissu sem gæti skapast vegna frumvarps þessa. Háar upphæðir munu skipta um hendur eða færast til í bókhaldi þegar og ef lán verða endurútreiknuð miðað við gjörólíkar forsendur. Nauðsynlegt er að búa svo um hnútana að leiðréttingar á höfuðstól verði ekki skattlagðar fyrir neytendur sem staðið hafa í skilum með sín lán í góðri trú.
Með afturvirkum lagabreytingum virðast höfundar frumvarpsins algjörlega hafa gleymt lögmætisreglunni, verndun eignaréttar neytenda undir Evrópusáttmálanum (1. gr. Protocol 1 European Convention of Human Rights) og öllum meginreglum neytendaréttar EES sem eru ófrávíkjanlegar og í fullu gildi á Íslandi. Ríkið gæti hæglega orðið skaðabótaskylt gagnvart neytendum burtséð frá mögulegum skaðabótum sem kröfuhafar gömlu bankanna gætu áunnið sér með fulltingi dómstóla. Óvissan er slík að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú óskað eftir áliti EFTA-dómstólsins varðandi vaxtaskilmálabreytingar.
----------
Hér er svo að lokum línurit yfir greiðslubyrði af rúmlega 19 milljón króna gengistryggðu húsnæðisláni frá upphafi árs 2006. Afborganir eru á 3ja mánaða fresti og má sjá að ansi langt er orðið á milli upphaflegrar greiðsluáætlunar bankans og þeirra upphæða sem nýsamþykktar breytingar á lögum um vexti og verðbætur hafa í för með sér. Breytingarnar eru afturvirkar og þýðir það að fólk sem staðið hefur í skilum með afborganir af lánum sínum fær viðbótarálagningu aftur í tímann sem í flestum tilfellum verður líklegast klínt ofan á höfuðstól lánanna.
Landsbankinn birtir endurútreikninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.