Góð í að gera ekki neitt

Julian Assange sat í fangelsi í 9 daga án ákæru. Þá fyrst var honum sleppt gegn 44 milljón kr. tryggingu með áfastan eftirlitsbúnað. Hann má næstu vikurnar ekki yfirgefa Bretland, ekki vera utandyra um kvöld og nætur og verður að halda til á ákveðnum stað. Þetta hlýtur því að vera næsta stig við stofufangelsi og telst nokkuð vel í lagt þar sem að ekki er líklegt að hann hafi brotið nein lög.

Á Íslandi rændi hópur manna bankana innanfrá. Með útsmognum hætti komu þeir höndum yfir sparifé landsmanna og reynar einnig sparifé fjölmargra annara víða um lönd. Afleiðingar þess eru m.a. laskað þjóðarstolt og niðurlæging, stórfelld eignaupptaka, atvinnuleysi, andleg vanlíðan, landflótti, biðraðir við hjálparstofnanir og í verstu tilfellum sjálfsmorð. Þessir "athafnasömu" menn ganga allir lausir án eftirlitsbúnaðar, takmörkunar á ferðafrelsi eða greiðslu tryggingar.

Íslensk stjórnvöld hafa sérhæft sig í að skoða málin. Þau skoða og skoða en gera ekkert róttækt til að leysa vandann. Réttlætið er fótum troðið og almenningur er búinn að missa alla tiltrú á Alþingi og stjórnmálaflokkum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki einu sinni mannað sig upp í að fordæma pólitískar ofsóknir gagnvart Julian Assange. Skyldu þeir segja eitthvað ef Kristinn Hrafnsson yrði tekinn höndum? 


mbl.is Assange óttast framsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Beittur pistill hjá þér. Einn af lekunum á dögunum var um það hvernig Bretar þorðu ekki annað en að láta undan þrýstingi erlendis frá varðandi einn af þeim sem báru ábyrgð því að granda þotu fullri af fólki fyrir ofan bæinn Lockerby í Skotlandi.

Alþjóðastjórnmál eru full af dæmum um það hvernig stjórnmálamenn láta undan þrýstingi erlendis frá. 

Hér á Íslandi gerðist það vorið 1939 að ríkisstjórnin hafnaði kröfu Hitlers um aðstöðu til starfsemi Lufthansa á Íslandi. 

Í sögubókum okkar stendur að íslenska ríkisstjórnin hafi hlotið lof erlendis fyrir það að vera eina þjóðin sem þorði að standa uppi í hárinu á Þjóðverjum þegar allir skulfu af hræðslu við þá. 

Þegar nánar er skyggnst kemur í ljós að Bretar höfðu þá, eins og þeir höfðu haft um aldir, þau yfirráð yfir Norður-Atlantshafi, að þeir gátu á þessum tíma beitt Íslendinga margs konar þrýstingi. 

Vegna borgarastyrjaldarinnar á Spáni fór kreppan á Íslandi í nýja dýfu á árunum 1937-39 og var sagt að í raun ætti Hambrosbanki í London Ísland. 

Það kom sér því betur fyrir Íslendinga að laga sig eftir kröfum Breta en Þjóðverja á þessum tíma. 

Íslendingar voru ekki með meira bein í nefinu á þessum tíma en það, að þeir hleyptu aðeins örfáum Gyðingum til landsins á sama tíma og tekið var á móti tugum norskra skógarhöggsmanna. 

Ekkert er nýtt undir sólinni. Sagan endurtekur sig. 

Ómar Ragnarsson, 17.12.2010 kl. 00:13

2 Smámynd: Árni Björn Guðjónsson

Gera Assange að íslenskum ríkisborgara eins og skákmanninum Bobby Fischer.Þá leysist þetta mál.

Árni Björn Guðjónsson, 17.12.2010 kl. 00:17

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sagan endurtekur sig vissulega, en ég held hins vegar að afleiðingar upplýsinga sem Wikileaks og nokkrir traustir fjölmiðar eru í óða önn að birta muni verða varanlegar og vonandi til góðs. Það er hins vegar skömm að því hversu lítið og illa íslenskir fjölmiðar fjalla um sláandi upplýsingar sem birtast á hverjum degi í heimspressunni. Hefur litla Ísland aðallega áhuga á eigin nafla?

Ég myndi vilja sjá ríkisstjórnina sýna það í verki að stuðningurinn við Íraksstríðið var ekki í nafni íslensku þjóðarinnar. Það gætu þeir t.d. gert með stuðningsyfirlýsingu við þá sem færðu okkur myndbandið og skjölin sem varpa ljósi á það sem almenningur mátti aldrei vita.

Auðvitað ættum við að bjóða Julian Assange íslenskan ríkisborgararétt líkt og Bobby Fisher, ekki seinna en um áramótin.

Sigurður Hrellir, 17.12.2010 kl. 00:38

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Mér býður því miður í grun að flestar ef ekki allar ríkisstjórnir hafi horn í síðu WikiLeaks af ótta við að eitthvað verði birt um vandræðalegar gjörðir þeirra og innbyrðis samskipti, baktal og plott, sem afhjúpi hræsni þeirra bæði gagn vart eigin þjóð og öðrum þjóðum.

Hins vegar hefur WikiLeaks vonandi og væntanlega þegar haft þau áhrif að stjórnmálamenn og diplómatar vandi sig betur í skýrslugerð sinni um "náungann" og ræði ekki um aðra af þvílíkum hroka og með þvílíkum svívirðingum eins og WikiLeaks hefur opinberað hneykslanleg dæmi um.

Meðferðin á Assange virðist gott dæmi um hvernig bálreið stjórnvöld svífast einskis í viðleitni sinni við að halda leynd yfir "myrkraverkum" sínum, eftir að hafa verið afhjúpuð með allt niður um sig. Ekki voru bandarísk stjórnvöld t.d. að flýta sér við að ná tangarhaldi á leikstjóranum Polanski og var hann þó sakaður um alvarlegri glæp. Þar liðu nokkrir áratugir. Þetta sænska mál virðist því yfirskinið eitt í skollaleik á bak við tjöldin.

Kristinn Snævar Jónsson, 17.12.2010 kl. 00:49

5 Smámynd: Durtur

"Hann má næstu vikurnar ekki yfirgefa Bretland, ekki vera utandyra um kvöld og nætur og verður að halda til á ákveðnum stað. Þetta hlýtur því að vera næsta stig við stofufangelsi og telst nokkuð vel í lagt þar sem að ekki er líklegt að hann hafi brotið nein lög." (úr upphafsinnleggi)

Og jafnvel á meðan þessu stendur setjum við, vestrænu þjóðirnar, okkur á háan hest og gagnrýnum Kínverja fyrir að stunda það sama. Hræsnin er svo megn að maður finnur næstum bragðið af henni...

Tek ofan fyrir Ómari, og náttúrulega höfundi.

Durtur, 17.12.2010 kl. 00:50

6 Smámynd: Jónas Jónasson

Ómar er einn vitrasti maður Íslands, enda er hann af af Íslenskri náttúru kominn og virðir lögmál hennar.

Jónas Jónasson, 17.12.2010 kl. 01:25

7 Smámynd: Sveinn Þór Hrafnsson

Ofgva hægri og ofgva vinstri, hafa bæði farið sömuleið. Njósna um andstæðinginn. Skiptir ekki máli hver sá maður sé..

Bandaríkinn hafa verið rænd af frjálshyggjunni í mörg ár..  af hægri ofgvamönnum.. Allt þetta Vikileaks mál hefur bara sanfært heldur betur þá sem sjá mjög stórt samsæri gangi.

Ég skora á ykkur að skoða málið..

Sveinn Þór Hrafnsson, 17.12.2010 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband