17.11.2010 | 18:09
Makalaus meðferð á neytendum
Þá hefur Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, mælt fyrir einhverju því makalausasta frumvarpi sem sést hefur lengi. Um er að ræða breytingar á lögum sem varða gengistryggð lán í íslenskum krónum, lán sem dæmd hafa verið ólögmæt af Hæstarétti, enda er það alveg skýrt í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að slík gengistrygging er óheimil.
Frumvarpið er langt og leiðinlegt aflestrar en mælir fyrir um lagabreytingar sem eru neytendum síður en svo til hagsbóta. Hér eru nokkur dæmi:
- Gengistrygging verður lögmæt ef í hlut á lögaðili eða fyrirtæki. Þannig er stoðum skotið undir að gengistrygging sé í raun í góðu lagi. En hvers vegna skyldi hún þá hafa verið bönnuð fram að þessu?
- Lántakendur verða gerðir meðábyrgir fyrir ólögmætum samningsskilmálum. Í lögunum hingað til (gr. 18) hafa einungis lánveitendur verið ábyrgir, enda sömdu þeir samningana einhliða.
- Skilmálar um vexti verða sjálfkrafa ógildir ef skilmálar um verðtryggingu/gengistryggingu eru ólögmætir. Þannig á að þvinga lántakendur til að greiða mun hærri vexti en samningar sögðu til um, ekki bara í framtíðinni heldur líka afturvirkt, allt frá lántökudegi. Mismunurinn getur orðið verulegur og á í ofanálag að bera fulla vexti, þ.e. vaxtavexti.
- Gengistryggð húsnæðislán munu breytast í "venjuleg" verðtryggð lán nema að báðir aðilar semji um annað. Hversu líklegt er að lántakendur í mjög veikri samningsstöðu nái góðum samningum við kröfuhafa?
- Að 5 árum liðnum mega kröfuhafar endurskoða samningsskilmála einhliða.
Mælir fyrir gengislánafrumvarpi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Facebook
Athugasemdir
Hvað áttu við með lið 2: "Lántakendur verða gerðir meðábyrgir fyrir ólögmætum samningsskilmálum. Í lögunum hingað til (gr. 18) hafa einungis lánveitendur verið ábyrgir, enda sömdu þeir samningana einhliða." Ég fann ekki tilvísun í frumvarpinu til þessa nema þá helst í umsagnarkaflanum að enginn hefði efast um lögmætið á meðan slík lán töldust viðkomandi hagstæð.
Erlingur Alfreð Jónsson, 17.11.2010 kl. 23:58
Sæll Erlingur. Grein 18. í núgildandi lögum nr. 38/2001 hljómar svona:
18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.
Samkvæmt frumvarpi Árna Páls gjörbreytist þessi grein með þeim afleiðingum að lántaki verður í mörgum tilfellum að taka á sig hækkun á höfuðstól sem nemur mismun þeirrar upphæðar sem hann hefur greitt frá upphafi og endurútreiknaðra afborgana m.v. lægstu óverðtryggðu vexti SÍ. Auk þess getur kröfuhafi krafist vaxta af þessum mismuni en það hafði farið fram hjá mér við lestur frumvarpsins.
Þú getur séð hér á einföldu línuriti hvernig greiðslubyrðin þyngist stórlega af ákveðnu dæmigerðu myntkörfuláni. Þá er ekki tekið með í reikninginn að reikna má vexti af mismuninum á gulu línunni og dökku línunni sem myndi auka enn á greiðslubyrðina sem í mörgum tilfellum endar sem hækkun á höfuðstól, líkt og verðtrygging gerir.
Sigurður Hrellir, 18.11.2010 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.