Dæma dómarar neytendum í hag?

Þegar fjalla á um ólöglega lánaskilmála og breytingar á forsendum útreikninga hlýtur að þurfa að bera saman afborganir og stöðu lána að gefnum ólíkum forsendum. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur ákvað að í stað gengistryggingar og LIBOR vaxta viðkomandi gjaldmiðla skyldi umrætt bílalán bera óverðtryggða vexti SÍ. Í þessu ákveðna tilfelli þýddi það lækkun á skuld viðkomandi lántaka úr 1,3 milljónum niður í tæpar 800 þúsund. Hér er um endanlegt uppgjör lánsins að ræða og varla hægt að mótmæla því að dómurinn sé til hagsbóta fyrir viðkomandi skuldara og brjóti þ.a.l. ekki í bága við lög sem verja hagsmuni neytenda.

Það sama verður hins vegar ekki sagt um flest þau gengistryggðu húsnæðislán sem fólk sér fram á að greiða afborganir af nokkra áratugi fram í tímann, ef það hefur ekki gefist upp nú þegar. Þá væri mun líklegra að óverðtryggðir vextir SÍ skili kröfuhöfum hærri endurgreiðslu heldur en hin gengistryggðu lán hefðu ellegar gert og nokkuð einkennilegt "réttlæti" ef niðurstaðan yrði á þann veg.

Vissulega er ekki hægt að fullyrða neitt um vexti og verðþróun fram í tímann en skoða þarf vandlega mismundandi forsendur að baki lántöku aftur í tímann og setja upp í töflu svo að fólk geti betur áttað sig á því hvað er í húfi. Ekki má undir nokkrum kringumstæðum velja leið þar sem hallar á neytendur í samanburði við hin ólöglegu gengistryggðu lán. Nóg hefur fólk mátt þola nú þegar.

Fordæmisgildi væntanlegs dóms Hæstréttar verður vafalaust dregið í efa og áfram haldið um langa hríð.


mbl.is Myntkarfan fyrir dóm á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ekki verður dæmt neytendum í hag, er ekki annað að gera en að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.

Stebbi (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 23:05

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ekki alveg svona einfalt, Sigurður. Skuldin upp á 1,3 milljónir var út frá gengistryggðum forsendum, sem eru óréttmætar. Þannig að sú skuld var ekki til staðar. Skuldarinn, hinn stefndi, telur sig þegar hafa greitt andvirði samningsins, þannig að 800 þúsund króna uppgjörsgreiðsla er ekki 500 þúsund króna lækkun frá 1,3 milljónum, heldur 800 þúsund króna hækkun frá 0 krónum. Ég mótmæli því hér með að slík málsmeðferð sé til hagsbóta fyrir skuldarann. :-)

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.9.2010 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband