11.5.2011 | 14:56
Hver kaus LÍÚ og SA til að ráðskast með framtíðarskipan mikilvægra mála?
Þó að margt sé óvissu háð á Íslandi í dag getum við gengið að einu sem vísu, að útgerðarmenn vilji engar breytingar á kvótakerfinu.
LÍÚ og SA (sem LÍÚ er stærsti aðilinn að) hafa beitt undarlegustu þvingunarúrræðum til að standa í vegi fyrir breytingum og virðast hafa náð nokkuð góðu taki á ráðamönnum. Það er allavega orðið ansi breitt bilið á milli þess sem stjórnarflokkarnir lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga og þess frumvarps sem nú er að líta dagsins ljós eftir mikið baktjaldamakk.
Það eitt að frumvarpið skuli fyrst vera kynnt fulltrúum útgerðarmanna áður en því er dreift á Alþingi hlýtur að benda til þess að óeðlilega sé að málum staðið. Einnig hafa loðin ummæli ráðherra ekki hjálpað til og stækur fnykur af hrossakaupum loðir við málið.
En sem betur fer er almenningur orðinn nokkuð vanur því að grípa fram fyrir hendurnar á vanhæfum stjórnvöldum og spilltum embættismönnum. Þjóðin verður að ráða því sjálf hvernig farið verður með nýtingu fiskistofna við landið og víðtæk sátt að ríkja um skiptingu arðsins.
Síðan hvenær fékk LÍÚ og SA umboð þjóðarinnar til að ráðskast með auðlindir landsins? Veit einhver annars hversu háir fjármunir hafa farið frá útgerðaraðilum til stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda á undanförnum árum?
![]() |
Sægreifarnir ekki í sáttahug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)