26.4.2011 | 00:51
Falleinkun hins opinbera
Það hlaut að koma að því að kvörtun yrði send til ESA. Hér á Íslandi hafa opinberir aðilar markvisst unnið að því að láta skuldug heimili greiða fyrir hrun bankanna. Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra sagði fólki að leita réttar síns fyrir dómstólum á sama tíma og eftirlitsstofnanir á hans ábyrgð voru með buxurnar á hælunum. Hér hafa árum saman verið brotin lög sem banna gengistryggingu lána og það hefur verið látið viðgangast.
Dómstólar gátu auðvitað ekki komist að annarri niðurstöðu en að gengistrygging lána í íslenskum krónum væri ólögmæt. Hins vegar hafa þeir ýtt allri neytendalöggjöf út af borðinu og margsinnis hunsað óskir um að leitað sé ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Við það verður ekki unað og forvitnilegt að sjá hvernig ESA bregst við svo reyfarakenndri lýsingu.
Þó tók fyrst steininn úr þegar arftaki Gylfa Magnússonar lagði fram frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þá fyrst hljóta lögspekingar að hafa fengið hraðan hjartslátt - lögin eru einfaldlega ekki brúkleg þar sem þau brjóta á stjórnarskrárvörðum eignarétti og ganga gróflega gegn grunnstoðum kröfuréttar.
En það er mörgum spurningum ósvarað um framgöngu opinberra aðila:
- Alþingi - fyrir að setja lög sem brjóta gegn stjórnarskrá, kröfurétti og EES/ESB-rétti. 27 þingmenn staðfestu þessi ó-lög.
- Ríkisstjórnin - fyrir að standa ekki með skuldugum heimilum og vísa fólki á dómstóla - úrræði sem kallar á milljónaútgjöld.
- Seðlabankinn - fyrir að senda út röng skilaboð og hafa hvatt til þess að láta skuldug heimili borga fyrir lögbrot fjármálafyrirtækja.
- FME - fyrir að hafa ekki gripið í taumana fyrir mörgum árum síðan.
- Umboðsmaður skuldara - fyrir að standa ekki fastar í fæturna og að krefjast ekki lögbanns á nýja lánasamninga byggða á afturvirkum viðbótarvöxtum.
- Hæstiréttur - fyrir að hafa ekki úrskurðað um ólögmæti afturvirkra endurútreikninga og að hafa þrásinnis hunsað neytendarétt og óskir um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.
- Neytendastofa - fyrir að gera alls ekki neitt.
- RÚV - fyrir að sniðganga umfjöllun um þessi mál.
![]() |
Kvörtun lántakenda send til ESA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)