20.12.2010 | 12:53
Okkar stærsta vandamál
Ekki veit ég hvað er satt eða logið í þessari frétt enda teljast fregnir úr Hádegismóum þessa dagana vart til mikilla sanninda.
Hins vegar er það umhugsunarefni hvernig hinir dæmigerðu stjórnmálamenn atast yfir Lilju Mósesdóttur, nýliða á þingi og skilgetins afkvæmis Búsáhaldabyltingarinnar. Kallað hefur verið eftir endurmati og endurnýjun í stjórnmálunum, persónukjöri og að stjórnmálamenn hætti að þiggja falið fé frá sérhagsmunaaðilum.
Lilja er býsna gott dæmi um stjórnmálamann eins og kallað hefur verið eftir. Hún er mjög vel menntuð beggja vegna Atlandshafsins, dr. í hagfræði, og sérfróð um kreppuástand þjóða. Hún bauð sig fram til þingmennsku á eigin verðleikum án þess að vera kostuð til þess af öðrum eða hafa beðið þolinmóð innan einhvers stjórnmálaflokks eftir að röðin kæmi að henni. Hún hlýtur þess vegna að teljast verðugur fulltrúi fólks á Alþingi.
Það er því með ólíkindum að sjá hvernig atvinnustjórnmálamenn bregðast við fólki eins og Lilju. Steingrímur J. hefur sterklega gefið það til kynna að Lilju sé vart stætt innan "hans" flokks lengur. Jóhanna Sigurðardóttir afgreiddi málið stuttaralega, talaði um bull og að hlaupast undan ábyrgð. Aðrir tala á göngum Alþingis eða skrifa rætnar athugasemdir á bloggi.
Fjórflokkurinn er líklega orðinn okkar stærsta vandamál.
![]() |
Stöðugir níðpóstar um Lilju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |