Er embættismannakerfið að gera út af við okkur?

Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með sumarþinginu og þeirri leiksýningu sem þar á sér stað. Meginviðfangsefnin tvö, ESB og Icesave hafa skyggt á öll önnur mál, enda bæði hluti af sama harmleiknum sem enginn endir virðist vera á. Helstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þráfaldlega neitað að nokkur tenging sé á milli þessara umdeildu mála jafnvel þó að ýmsar vísbendingar um annað hafi lekið út og hollenski utanríkisráðherrann ekki farið leynt með lítt dulbúnar hótanir sínar.

Margir hljóta að klóra sér í hausnum yfir því að á sama tíma og viss hópur fólks telur Icesave samninginn ásættanlegan og jafnvel hagstæðan Íslendingum skuli sífellt stækkandi hópur sérfræðinga vara við honum og telja hann að flestu leyti óboðlegan, jafnvel stórhættulegan. Nú síðast í gær hlustaði ég á virtan hæstaréttarlögmann, Ragnar H. Hall lýsa mjög eindregið yfir þeirri skoðun sinni að samningurinn væri skelfileg mistök. Ragnar hafði verið þeirrar vafasömu ánægju aðnjótandi að fá að kynna sér leynileg fylgiskjöl með samningnum og taldi afar brýnt að leyndinni yrði létt af skjölunum.

Vanhæfir embættismennAð mínu mati blasir við okkur í þessu sambandi langvarandi og síversnandi vandamál sem er vanhæft embættismannakerfi. Hér hefur það tíðkast áratugum saman að ráða valdamikla embættismenn á pólitískum forsendum fremur en faglegum. Þannig hefur stjórnsýslan orðið að ákveðinni stétt út af fyrir sig - stétt sem stendur vörð um eigin hag, hátt yfir aðra hafin.

Það skyldi engan undra að Icesave samninganefndin var skipuð embættismönnum úr ýmsum ráðuneytum, Seðlabankanum og utanríkisþjónustunni. Eins og embættismanna er siður var pukrast með samningaferlið og heim komu þau (flest karlar) með samning til undirritunar sem halda átti leyndum fyrir þjóðinni og hennar lögkjörnu fulltrúum. Aðspurðir báru þó embættismennirnir höfuðið hátt og töldu sig mikinn sigur hafa unnið.

Í framhaldi af þessu væri eðlilegt að spyrja hvort embættismönnum sé yfirleitt treystandi til að fara í mikilvægar samningaviðræður fyrir hönd íslenska ríkisins. Það hlýtur að vera líklegra til árangurs að fá hæfasta fólkið til að semja fyrir okkar hönd frekar en mishæfa hrokagikki úr stjórnsýslunni. Er ekki einfaldlega kominn tími til að breyta algjörlega þeirri ömurlegu hefð að ekki eigi skilyrðislaust að láta faglegar forsendur ráða þegar ráðið er fólk í þessi störf?


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband