11.10.2008 | 20:36
Draugagangur í Valhöll
Ég óttast að Sjálfstæðismenn átti sig þrátt fyrir allt ekki á alvöru málsins. Þetta snýst ekki um einstakar persónur, Davíð Oddsson eða aðra. Ísland sem við þekktum verður ekki til mikið lengur.
Þegar Geir Haarde og félagar hans í ríkisstjórninni eru búnir að bjarga lífi sjúklingsins (ríkisins) þá verður hlutverki þeirra lokið. Endurhæfingin þarf að fara fram með víðtækri aðkomu fólks úr hinum ýmsu þjóðfélagshópum, s.s. háskólasamfélaginu, atvinnulífinu, menntakerfinu, o.s.frv. Það ríður á að hér verði komið á fót nýju lýðræðissamfélagi þar sem gömlu flokkarnir og stjórnunarhættirnir verða lagðir af og allt þjóðskipulag endurmetið með framtíðina að leiðarljósi.
Þetta verður algjörlega afgerandi fyrir það hvort að hér verði fjölbreytilegt menningarsamfélag eftir 10 ár eða niðurdrepandi verksmiðjunýlenda. Það þarf miklu fremur aðkomu heimspekinga en stjórnmálamenn á þessu stigi málsins.
Nú verður endanlega að kveða niður þennan draug sem óvart fylgdi okkur inn í 21. öldina. Flokkaklíkur, bitlingar, fyrirgreiðslupólitík verktakamafíur og fyrirhyggjulausir útrásarvíkingar mega ekki fá að ráðskast með íslenska þjóð framar. Nú þarf að bretta upp ermar og það eru ekki gömlu stjórnmálamennirnir og flokkstengdir steingervingar sem það eiga að gera.
![]() |
Ekki gagnrýni á Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.10.2008 | 12:55
Eigum við ekkert betra skilið?
Af hverju var ekki eðlilega staðið að einkavæðingu ríkisfyrirtækjanna? Hvað var gert við peningana sem fengust fyrir sölu þeirra? Var þeim hyggilega veitt til að auðvelda fólkinu í landinu að lifa og starfa? Hvar er stóra planið??? Það hlýtur t.d. að vera markmið að gera Ísland minna háð innfluttri olíu. Af hverju ekkert raflestarkerfi?
Ætli Héðinsfjarðargöng og hálfbyggt tónlistarhús í miðju Reykjavíkur verði ekki minnisvarði um þessa þaulsetnu stjórnmálamenn sem skömmtuðu sér sérstök lífeyrisréttindi og verðlaunuðu sífellt sig og sína en hirtu lítið um að passa upp á þjóðina sem kaus þá aftur og aftur og aftur og aftur......
![]() |
Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |