Harðsvírað

Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu lána í íslenskum krónum ólöglega. Með því staðfesti hann það sem Samtök fjármálafyrirtækja höfðu vitað síðan 2001, sjá hér. Fjármálafyrirtækin ákváðu sjálf að fara ekki eftir lögum um vexti og verðtryggingu þegar þau buðu viðskiptavinum sínum að taka gengistryggð lán.

Á meðan að beðið er eftir endanlegri niðurstöðu dómstóla hvort leyft verði að endurskoða vaxtaákvæðin í ljósi hinnar ólöglegu gengistryggingar, ættu fjármálafyrirtækin að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í að rukka ekki afborganir af þessum lánum. Hvernig svo sem málið endar er ljóst að brotaþolarnir hafa nú þegar verið látnir greiða langt umfram það sem réttmætt er.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn brugðust bæði eftirlitsskyldu sinni í þessu tiltekna máli, ásamt Neytendastofu og Viðskiptaráðuneytinu. Það er engin sanngirni í því að þessar stofnanir leggi nú til að fólk sem greitt hefur langt umfram réttmæti skuli áfram eiga að greiða upphæðir sem eru hærri en löglegi hluti samninganna segir til um.  Auk þess er verið að flækja málið að óþörfu því að hver segir að dómstólar muni fallast á þessa niðurstöðu?

Sjaldan hefur maður orðið vitni að annarri eins meðvirkni. Einbeittur brotavilji?


mbl.is Miða við lægstu vexti á hverjum tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt skal það vera

Tilgangurinn með þessum ákærum er vafalaust að hræða almenna borgara til hlýðni. Eflaust munu sumir héðan í frá hugsa sig um tvisvar áður en þeir stunda frammíköll á þingpöllum líkt og Össur Skarphéðinsson forðum daga áður en hann fékk vel borgaða vinnu við svipaða iðju.

Hvers vegna þau?Þessi réttarhöld gera því miður lítið annað en að draga úr tiltrú almennings á dómstólunum. Jú, og að kosta fúlgur fjár, því að í hvert einasta skipti mætir stór hópur lögfræðinga á vaktina auk hins vanhæfa saksóknara nr. 2 og heill herskari af lögreglumönnum þeim til halds og trausts. Og héðan í frá bætast tveir embættisdómarar við þann eina sem fyrir var!

mbl.is Segir saksóknara vanhæfan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleit ummæli

Miðað við málflutning ráðherrans lengst af var hann alveg sáttur við að dómstólar hefðu úrskurðarvald í þessi mikla deilumáli sem varðar tugþúsundir einstaklinga. Nú kveður við annan tón og ljóst að ríkisstjórnin var ekki viðbúin þessari niðurstöðu, svo ótrúlegt sem það kann að virðast.

Gylfi Magnússon er hluti af framkvæmdavaldinu sem hefur verið legið á hálsi að valta yfir löggjafarvaldið. Nú hikar hann ekki við að leggja dómsvaldinu línurnar með svo ótvíræðum skilaboðum og gerir í leiðinni lítið úr áliti margra valinkunnra lögspekinga. Það er fullkomlega óeðlilegt og því ætti Gylfi að víkja úr sæti sínu sem fyrst.


mbl.is Fjarstæðukennd niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að spara sér sporin

Ég hugsa stundum til 4x4 gaursins á upphækkuðum Econoline sem ók framhjá mér á 100 km/klst á miðjum Kjalvegi. Sjálfur var ég á reiðhjóli og það rigndi yfir mig grjóti af öllum stærðum og gerðum. Klukkutíma síðar sá ég bílinn og ökumann hans á Hveravöllum og spurði kurteislega hvort hann gerði sér grein fyrir því að sumir ferðalangar væru algjörlega berskjaldaðir fyrir tillitslausum ökumönnum. Vinurinn sagði að Kjalvegur væri fyrir bíla og að reiðhjólamenn ættu bara að halda sig á þar til gerðum stígum. Það er sjónarmið út af fyrir sig!

Ekið inn á tjaldsvæðiReynsla mín af íslenskum hálendisökumönnum er frekar dapurleg. Þeir eru oft tillitslausir og því stærra sem ökutækið er, því minna tillit sýna þeir iðulega. Erlendir ökumenn eru hins vegar oftast mjög tillitssamir og hægja verulega á sér þegar þeir aka framhjá fólki sem kýs annan og rólegri ferðamáta. Þeir eru ekki heldur haldnir þeirri áráttu að þurfa helst að leggja bílnum á miðju tjaldsvæðinu til þess að spara sér örfá spor.

Skyldu meðlimir 4x4 ferðaklúbbsins ekki átta sig á sérstöðu þeirra svæða sem lokuð eru fyrir umferð vélknúinna ökutækja? Hvað með rétt þeirra ferðalanga sem leita í kyrrð og ró fjarri byggðu bóli?

 


mbl.is Mótmæla fyrirætlunum að loka fyrir bílaumferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta eru asnar, Guðjón

Í apríl 2001 fékk Alþingi í hendur umsögn frá Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, þar sem hann varar við því að samkvæmt óbreyttu frumvarpi (til laga um vexti og verðbætur) sé „óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt.“

http://www.visir.is/article/20100313/VIDSKIPTI06/337637238/-1

Lægri vaxtabyrði9 árum síðar virðist sami Guðjón Rúnarsson „ganga út frá því að fjármálafyrirtækin hafi talið sig vera að veita lögleg lán“!? Í Fréttablaðinu í dag kallar hann svo enn eftir aðkomu stjórnvalda, í þetta sinn „til að koma í veg fyrir mögulega ringulreið tengdri gengistryggðu bílalánunum“. Ringulreið hverra? Lögin eru skýr og dómsúrskurðir afdráttarlausir. Einnig er það skýrt samkvæmt áliti sérfræðings að dómarnir hafi fordæmigildi fyrir öll gengistryggð lán.

Það er gott til þess að vita að Kristinn H. Gunnarsson sem sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn vorið 2001 og samþykkti umrædd lög eigi ekki lengur sæti í leikhúsinu við Austurvöll. Það er einfaldlega ekki boðlegt að ætla framkvæmdavaldinu að grípa fram fyrir hendur dómsvaldsins í máli sem þessu þar sem eftirlitsstofnanir og kjörnir fulltrúar hafa einfaldlega brugðist skyldu sinni. Það gæti þar að auki skapað gífurlega skaðabótaskyldu fyrir ríkið á hvorn veginn sem færi. Verst er að Kristinn virðist eiga a.m.k. einn skoðanabróður á þingi.

Að lokum mæli ég með Benedikt Erlingssyni í Morgunútvarpi Rásar 2 á föstudögum. Einungis frjálsir menn og fordómalausir tjá sig með þeim hætti sem hann gerir. Eru Íslendingar upp til hópa ó-frjálsir? Hægt er að hlusta á Benedikt í spiladósinni hér á síðunni.


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÍSK+ÍSK=ÍSK

Hæstiréttur hefur síðasta orðið í lagalegum álitaefnum. Sem betur fer virðist ríkisstjórnin ekki ætla að gera neitt til að skerða rétt brotaþola eins og einn fyrrverandi þingmaður gerði að tillögu sinni. Lán veitt í íslenskum krónum og borguð til baka í íslenskum krónum má ekki verðtryggja við erlenda gjaldmiðla!

Eyvindur G. Gunnarsson er lektor við lagadeild HÍ og hefur manna mest rannsakað umrædd lög, lögskýringargögn, forsendur og dómafordæmi sl. 50 ár. Á vef RÚV stendur m.a.: 

"Eyvindur telur dómana hafa víðtækt fordæmisgildi fyrir öll gengistryggð lán. Þannig nái áhrif dómsins langt út fyrir þessa tvo bílalánasamninga sem dæmt var um og taki þá einnig til húsnæðislána og annarra lána sem eins er ástatt um. Aðalatriðið sé að hafi lántaki fengið íslenskar krónur að láni og greiði til baka miðað við gengi annarra miðla, þá sé það ólögmæt gengistrygging."

"Eyvindur segir dómana staðfesta það réttarástand sem gilt hefur á Íslandi síðustu 50 ár, að gengistryggð lán séu ólögmæt. Hann telur jafnframt að dómarnir muni koma lántökum gengistryggðra lána afar vel. Þannig muni þeir hafa þau áhrif að höfuðstóll lána sem veitt voru miðað við gengistryggingu lækkar verulega. Lánin séu eins og staðan er í dag óverðtryggð og ógengistryggð, þannig að höfuðstóllinn lækkar gríðarlega mikið, og þá væntanlega afborganir."

Loksins örlar fyrir réttlæti í þágu neytenda. Næst á dagskrá er baráttan við verðtrygginguna þannig að aðrir lántakendur sitji ekki eftir í súpunni.


mbl.is Meiriháttar áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villuráfandi styrkþegar

Almenningur hlýtur að furða sig á því hvaða skringilegu áhrif það hefur á fólk að taka sæti á Alþingi. Listinn yfir þau mál sem nauðsynlegt er að koma áleiðis er ógnarlangur en samt virðist mest af púðri þingsins fara í endalaust þref um styrkjamál og keisarans skegg.

10,5% þjóðarinnar treystir Alþingi og sú tala hlýtur að hafa fallið niður í eins stafa tölu síðan könnunin var gerð.

Styrkjakóngar flestra flokka flækjast nú fyrir enda eru hendurnar sem brauðfæddu þá orðnar kaldar og stirðar. Hlutverk þessara málaliða er því óljóst og nærvera þeirra til óþurftar.

Þjóðin þarf nýja stjórnarskrá, nýja trú á lýðræðið og trú á að framtíð lands og þjóðar sé björt.

www.samfelagssattmali.is 


mbl.is Enn rifist um styrkjamálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr samfélagssáttmáli

Ég er hjartanlega sammála því sem Þráinn segir um þetta mikilvæga mál. Okkur bráðvantar nýja stjórnarskrá en þar má alls ekki kasta til höndunum. Þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn og þess vegna verður þetta verk að vinnast í góðri sátt og samvinnu fólks úr öllum áttum. Þó það taki 2-3 ár að komast að niðurstöðu sem flestir landsmenn geta sætt sig við og þó að kostnaður hlaupi á hundruðum milljóna, þá er því fé og þeim tíma vel varið.

www.samfelagssattmali.is


mbl.is „Kostar okkur ekkert að doka við og hugsa"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband