5.1.2010 | 13:08
Hvað gera Íslendingar?
Á meðan að Íslendingar hringsnúast hver um annan þveran í umræðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, framtíð ríkisstjórnarinnar og hlutverk forsetans munu fulltrúar breskra og hollenskra stjórnvalda leita til ESB. Það sem ég óttast mest er að við gleymum okkur enn eina ferðina í þrasi hér á heimavelli á meðan að það sem mestu máli skiptir fer forgörðum.
Við verðum að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri að við erum ekki að hlaupast frá öllum skyldum og skuldbindingum. Íslenskur almenningur tekur hins vegar ekki í mál að bera mestan skaða af misheppnuðu mikilmennskubrjálæði örfárra fjárglæframanna og reglugerð sem ESB færði okkur án þess að við gerðum okkur grein fyrir verstu mögulegu afleiðingum hennar. Það verður að tala okkar máli á æðstu stöðum innan ESB strax í dag eða á morgun til að koma í veg fyrir að við verðum gerð að blóraböggli. Þetta er ekki bara spurning um peninga og tryggingar, heldur líka réttlæti og mannréttindi.
![]() |
Bretar leita til ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.1.2010 | 11:44
Vísir að byltingu?
Ólafur Ragnar Grímsson hélt sína árvissu ræðu á nýársdag þar sem hann á köflum talaði eins og kurteis byltingarsinni. Það hefði verið í hæsta máta undarlegt ef forsetinn hefði nú ákveðið að þjóðin ætti ekki að eiga síðasta orðið í þessu martraðarkennda Icesave-máli sem tekið hefur mestan tíma Alþingis sl. mánuði.
Það er auðvitað með ólíkindum að ekki hafi enn verið sett nein lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og eykur það vissulega á óvissuna núna. Eftir synjun forsetans á fjölmiðlalögunum 2004 gafst færi á að bæta úr því en síðan eru liðin meira en 5 ár. Þetta sýnir hversu illa er komið fyrir okkur sem þjóð með úrelta stjórnarskrá, vanhæfa stjórnsýslu og stjórnmálaflokka sem hugsa alltaf fyrst um sig og sína.
Látum þetta vera upphafið að byltingu sem færir okkur nýja stjórnarskrá, faglega stjórnsýslu og aukið lýðræði. Til hamingju með daginn.
![]() |
Staðfestir ekki Icesave-lög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2010 | 09:44
Fleira hangir á spýtunni
![]() |
Jaðrar við stjórnarskrárbrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2010 | 01:57
Reynist Ólafur vandanum vaxinn?
Það hefur verið stórfurðulegt að fylgjast með bæði nýjum þingmönnum og reyndari rembast í gömlu hjólförunum þegar svo mikil þörf er á samstöðu og samvinnu allra sem að Icesave-málinu koma. Að vísu var ágætur samstarfsvilji í sumar sem skilaði fyrra lagafrumvarpinu en Bretar og Hollendingar voru ekki tilbúnir að sætta sig við skilyrðin og svo fór allt í gamla farið.
Forsetinn hlýtur að vera að leita að lausn sem sameinar krafta þings og þjóðar fremur en að ausa olíu á eldinn. Honum er varla stætt á að undirrita lögin, með því væri hann að ganga gegn eigin fordæmi og kalla yfir sig fordæmingu fjölmargra. Með því að undirrita ekki hefst hins vegar atburðarás sem erfitt er að spá fyrir hvert leiðir. Yrði frumvarpið dregið til baka eða færi það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Myndu Bretar og Hollendingar einhliða fella samninginn úr gildi eða leita annarra leiða? Yrðu dagar ríkisstjórnarinnar taldir?
Líklegast þykir mér að hann synji lögunum staðfestingar og sé nú þegar að vinna að myndun þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar með þátttöku formanna stjórnmálaflokkanna. Einnig vona ég innilega að hann nýti sitt tengslanet til að ræða við valdamikla aðila innan ESB um að hlutast til um lausn á þessu ömurlega máli. Það er óumdeilt að ESB á hlut að máli sem löggjafi og sendir út slæm skilaboð ef þeir vilja ekki sjálfir taka þátt í að finna lausn sem þjóðirnar geta sætt sig við.
Í öllu falli má draga þá ályktun að íslenska stjórnkerfið ræður ekki lengur við hlutverk sitt og flokkarnir eru að bregðast þjóðinni með sundurlyndi og gamaldags skotgrafapólitík. Það er lífsnauðsyn að setja á fót stjórnlagaþing og fá nýja stjórnarskrá til að fást við málefni 21. aldarinnar á faglegum forsendum.
![]() |
Forsetinn leiti álits lögmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)