11.1.2011 | 14:30
Kínverjar leyfa ekki sjálfir svona fjárfestingar
Í hádegisfréttum RÚV var viðtal við forstjóra Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Hann fullyrti líkt og Katrín Júlíusdóttir að salan á Elkem til kínversks stórfyrirtækis muni engu breyta um starfsmannahald og reksturinn hér á landi. Hér þori ég að fullyrða að um óskhyggju sé að ræða hjá þeim báðum því að Kínverjar hljóti einmitt að vilja hagræða í rekstrinum og gera breytingar svo að verksmiðjan skili auknum arði eða sé samkeppnishæfari á þeim mörkuðum sem við á. Annað væri fáránlegt. Hversu oft hefur maður ekki heyrt svona tal, t.d. í tengslum við útgerðarfyrirtæki og fiskveiðikvóta?
Rétt er að taka það fram að í Kína gilda þær reglur um verksmiðjur að þær verða að vera í meirihlutaeigu Kínverja. T.d. hafa ýmsir bílaframleiðendur sett þar upp verksmiðjur en mega sjálfir ekki eiga meira en 49% í þeim. Ætli Íslendingum væri ekki hollara að fara að fordæmi Kínverja í þessum málum?
Annars verður maður þunglyndur að hlusta á þennan ráðherra tjá sig eins og hún gerir:
"Hún [salan] hefur engin áhrif að ég tel, við erum bara með okkar regluverk hér á landi, á Íslandi, og sama hvort að erlendur einkaaðili komi frá Noregi eða Kína, þeir þurfa alltaf að lúta íslenskum reglum, og ég trúi ekki öðru en að þessir aðilar muni gera það. Ég sé engan mun á því hvaða erlendi einkaaðili á fyrirtæki hér á landi eins og í þessu tilfelli. Mér finnst hins vegar líka, kannski má segja, að það séu ákveðnar jákvæðar fréttir í þessu sem eru þær að fyrirtæki á Íslandi skuli vera álitið fýsilegur fjárfestingarkostur. Það hljóta að vera jákvæðar fréttir fyrir Ísland, sérstaklega á svona tímum eins og við erum að upplifa núna."
![]() |
Sala á Elkem breytir engu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2011 | 13:06
Gamla Ísland á útsölu
Orkustofnun veitti í gær leyfi til "rannsóknarborana" í trássi við tilmæli umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrustofnunar. Ég hlustaði á viðtal við Guðna A. Jóhannesson orkumálastjóra í hádegisfréttum RÚV. Hann sagði eitthvað á þá leið að ekki væri verið að gefa skotleyfi á svæðið við Gjástykki, því einungis væri um "rannsóknarleyfi" að ræða.
Fólk sem gengur um Reykjanesið getur þar virt fyrir sér alls konar mannvirki og ófagurt rask sem eru afleiðingar rannsóknarleyfa. Ef til stendur að friða svæði eins og Gjástykki er rannsóknarleyfi einmitt mjög slæm hugmynd. Hvers vegna skyldi eiga að minnka verndunargildi staðarins og eyða til þess miklum fjármunum nema einmitt til þess að koma í veg fyrir friðun?
![]() |
LV fær rannsóknarleyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2011 | 08:32
Össur og Ögmundur eiga næsta leik
Það hlýtur að vekja fólk til umhugsunar hvað gögn um samskipti þeirra á Netinu eru berskjölduð fyrir alríkisstjórninni í BNA. Svo virðist sem þeir geti gefið stórfyrirtækjum skipanir um að skila inn upplýsingum að eigin ósk, án nokkurrar fyrirstöðu. Trúlega á þetta ekki einungis við um Twitter heldur líka Facebook og Gmail auk margra annarra. Einnig er ljóst að upplýsingar frá VISA, MasterCard, PayPal og Amazon eru aðgengilegar fyrir alríkisstjórnina og hlýtur það að vekja óhugnað nú þegar að ofsóknaræði virðist hafa runnið á þarlend stjórnvöld.
Ef íslenskir ráðamenn eru ekki gungur og druslur þurfa þeir að bregðast við strax. Ég skora á þá félaga Össur og Ögmund að beita sér fyrir því að Julian Assange verði boðinn íslenskur ríkisborgararéttur líkt og gert var með Bobby Fischer, og þannig að sýna tilburðum bandaríska dómsmálaráðuneytisins lítilsvirðingu. Almenningsálitið mun vinna með Íslendingum ef þeir sýna kjark í þessu máli og lúta ekki höfði fyrir ömurlegum yfirgangi og tilburðum sem engu lýðræðisríki er sæmandi.
Alþingismenn mættu rifja upp þingsályktun frá því í sumar sem þeir samþykktu með öllum atkvæðum viðstaddra nema einu(*), en hún hefst á þessum orðum:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verið tryggð".
* Varasjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason sat hjá við þessa atkvæðagreiðslu.
![]() |
Twitter gert að afhenda öll skilaboð Birgittu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2011 | 01:03
Nokkrar áleitnar spurningar
Nokkrir punktar um sölu á HS Orku til Magma
Með sölunni á HS Orku til Magma Energy Sweden er verið að framselja nýtingarrétt af mikilvægum auðlindum í heilan mannsaldur eða jafnvel lengur. Salan er í meira lagi vafasöm vegna þess að:
- Magma sniðgengur íslensk lög sænskt málamyndafyrirtæki sett á svið
- Stór hluti kaupverðsins er fenginn að láni innanlands (kúlulán)
- Lánið er með óverulegum vöxtum (1,5%)
- Reiðufé er greitt með aflandskrónum
- Veð er tekið í bréfunum sjálfum
- Öðrum kaupendum var hafnað án viðræðna
- Óljóst er hvort verðmætir kolefniskvótar hangi á spýtunni
- Magma hefur enga þekkingu á rekstri sem þessum
- Ábyrgð ef Magma fer í þrot skilin eftir hjá almenningsfyrirtækjunum HS Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur.
- Hlutur OR var seldur með gífurlegu tapi (9 milljarðar?) á grundvelli úrskurðar Samkeppniseftirlitsins sem m.a. vitnaði í bandarísk lög. OR neitar að birta gögn sem málinu tengjast.
Hér kveður því við kunnuglegan tón. Auk þess blasir við að undirbúningur stjórnvalda var og er algjörlega ófullnægjandi. Fjölmargar áleitnar spurningar mætti betur ígrunda:
- Hafa verið settar skorður við að orkunýtingin verði ekki of ágeng? Nei.
- Er búið að setja ákvæði um auðlindagjald í samningana? Nei.
- Er búið að setja ákvæði sem takmarka verðhækkanir á orku til neytenda? Nei.
- Er búið að setja ákvæði sem takmarka tímalengd samningsins? Nei.
- Eru takmarkanir á sölu til þriðja aðila, t.d. Alcoa, Rio Tinto, Kína eða Bjögga Thor? Nei.
- Langtíma sýn og langtíma áætlun. Er hún einhver? Varla, en Magma vill tvöfalda orkuframleiðslu á Reykjanesi á næstu 5 árum. Auk þess hafa þeir nú þegar lýst yfir áhuga á að virkja á mörgum öðrum stöðum á landinu, t.d. í Kerlingafjöllum, en hafa ekki haft fyrir því að kanna áhuga almennings eða stjórnvalda á því.
Umræðan er á villigötum. Þetta er fyrst og fremst pólitískt ágreiningsefni fremur en lagalegt. Þjóðin hefur ekki fengið tækifæri til að segja sína skoðun og ríkisstjórnin hefur augljóslega ekki dug til að takast á við þetta mikilvæga mál. Þetta snýst öðru fremur um leikreglur, siðferði og tilgang með nýtingu auðlindanna og það hversu langt þjóðin vill ganga á þau gæði sem náttúra landsins býr yfir.
Það verður ekki hjá því komist að láta rannsaka allt ferlið í kringum einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja og aðkomu Geysir Green Energy að sölu á HS Orku til Magma Energy. Ekki er hægt að líta framhjá himinháum styrkjum til stjórnmálaflokka á sama tíma og Glitnir og GGE voru að bera í víurnar um að kaupa hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Hlut Orkuveitu Reykjavíkur í REI málinu þarf einnig að upplýsa þó svo að tekist hafi að stöðva það í tæka tíð. Varpa þarf ljósi á aðkomu bæjarfulltrúa og helstu stjórnenda umræddra fyrirtækja á það hvernig markvisst hefur verið unnið að því að færa yfirráð á auðlindum frá opinberum aðilum til útvaldra einkafyrirtækja og "athafnamanna".
![]() |
Skráð gegn vilja sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2011 | 16:29
Samtakamáttur fólksins er sterkasta aflið
Fyrst langar mig að óska Björk og öllum sem að þessu standa til hamingju með hafa nú þegar fengið 30 þúsund manns til að setja nöfn sín undir þessa mikilvægu áskorun. Þess verður varla langt að bíða að 35 þúsund manna markinu verði náð og líklega gott betur áður en síðasti söngvarinn hefur lokið sér af. Ríkisstjórnin hins vegar heyrir ekkert, sér ekkert og gerir ekkert.
Spurningin er þessi: Hversu margar undirskriftir skyldi þurfa til þess að vekja VG til meðvitundar?
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, talaði mjög afgerandi gegn sölunni á Magma sl. sumar. Í viðtali á Rás 2 sagði hún m.a.:
"Það er grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að auðlindirnar okkar séu ekki settar í eigu einkaaðila. Þetta eru leifar af þessari hugmyndafræði, sem olli hruni á Íslandi. Þessi hugmyndafræði lifir alveg óskaplega sterku lífi í öllu okkar samfélagi. En þetta er algert grundvallarmál í okkar hreyfingu, að vinda ofan af þessari hugmyndafræði. Ég stóð í þeirri meiningu fyrir mörgum mánuðum síðan, við höfðum heit fyrir því, að þetta yrði stöðvað með einum eða öðrum hætti. Að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að koma í veg fyrir þetta."
Svo var skipuð nefnd og málið svæft. Nefndin skilaði að vísu mjög áhugaverðri skýrslu en fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að fara neitt í efni hennar, enda virðist tilgangurinn með nefndinni helst hafa verið sá að róa "órólegu" deildina innan VG.
En nú hafa rúmlega 30 þúsund manns krafist þess að komið verði í veg fyrir söluna á íslenskum orkuauðlindum til skúffufyrirtækis í vafasamri eigu. Það eru skýr skilaboð sem verður að bregðast við. Annars hefur ríkisstjórnin grafið sína eigin gröf.
![]() |
Hátt í þrjátíu þúsund undirskriftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2011 | 10:26
Áhyggjur bæjarstjóra
Eftirfarandi er haft er eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum:
Elliði hefur greinilega meiri áhyggjur af upplýstri umræðu heldur en krabbameinsvaldandi mengunarefnum sem safnast m.a. fyrir í fiski.
Nú er það svo að þegar díoxínmengun var síðast mæld í Vestmannaeyjum árið 2007 reyndist hún vera 80 sinnum meiri en leyfilegt hámark ESB segir til um. En líklegast segir Elliði bara líkt og kollegi og flokksbróðir sinn á Ísafirði, Halldór Halldórsson f.v. bæjarstjóri: "Hvað er 20 sinnum leyfilegt magn?". Hvað er þá 80 sinnum leyfilegt magn? Af hverju skyldi bæjarfélag sem bókstaflega byggir tilveru sína á fiskveiðum yfirleitt hafa áhyggur af krabbameinsvaldandi þungmálmum í fiski, Elliði?
Eitrunaráhrif geta verið margvísleg og koma fram við mjög lágan styrk efnanna. Díoxín og fúran eru meðal eitruðustu efna sem prófuð hafa verið og nægir um 0,001 mg af eitruðustu afleiðunni til að drepa lítil nagdýr. Einn slíkur örskammtur dregur dýrin til dauða á 14-28 dögum og enn minni skammtur veldur krabbameini í dýrunum. Ekki er ljóst hvernig efnin virka, en talið er að áhrifin megi rekja til bælingar á ónæmiskerfinu og áhrif á hormónabúskap dýrsins. Hormónar eru efnafræðilegir boðberar sem stjórna ýmsum viðkvæmum ferlum í lífverum og þessar sautján afleiður get hermt eftir hormónum. Hormónastjórnun er framkvæmd af örmagni af hormónum og eru þeir brotnir hratt niður af frumunum. Þannig takmarkast tímalengd áhrifanna við eðlilegar aðstæður. Þrávirku efnin sem herma eftir hormónunum brotna hins mjög hægt niður og skapa þannig ójafnvægi í frumum sem leiðir til ýmissa truflana á starfsemi þeirra.
Meðal þeirra áhrifa sem díoxín og fúran hafa eru
- Skemmdir á ónæmiskerfi, sérstaklega í ungviði
- Skemmdir á lifur
- Minnkuð viðkoma og áhrif á þroska fóstra og barna
- Skemmdir á miðtaugakerfi , hegðunarvandamál
- Krabbamein
- Húðsjúkdómur (chloracne)
- Tæring (Wasting Syndrome)
- Röskun á efnaskiptaferli vítamíns A
- Auk þess er talið að díoxin og fúran geti orsakað getuleysi og haft neikvæð áhrif á fjölda sæðisfruma
![]() |
Díoxínið var rétt yfir mörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2011 kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2011 | 09:13
Klúður eða spilling?
Á sínum tíma fékk ríkið alla stóru bankana í fangið. Kaupthing Luxembourg var dótturfélag Kaupþings á Íslandi en margir vissu að þar inni væri upplýsingar að finna um flesta vafasama vafninga, viðskiptafléttur, skattaundanskot og peningaþvætti síðustu ára. Því var sumum eflaust hugleikið að koma þessu fyrirtæki í erlent eignarhald sem fyrst og forða gögnum undan klóm réttvísinnar.
Það vakti hins vegar athygli hversu lítinn áhuga ráðamenn virtust hafa á því að fresta þessari sölu til að vernda rannsóknarhagsmuni. Ekki minnist ég þess að hafa séð neina forystumenn ríkisstjórnarinnar tjá sig á þeim nótum. Þetta vekur vissulega grunsemdir um víðtæka spillingu og skýtur stoðum undir það að stjórnmálamönnum hafi hreinlega verið umbunað fyrir greiðasemi og almennt aðgerðarleysi á tímum "gróðærisins".
Varla dregur það úr grunsemdunum að Magnús Guðmundsson sem var forstjóri Kaupthing Luxembourg skyldi áfram halda um stjórnartaumana eftir söluna á bankanum. Hér má lesa pistil Sölva um hrokagikkinn Magnús og hér er eitt lítið dæmi um "viðskipti" þau sem tíðkuðust innan veggja fyrirtækisins og nauðsynlegt er að fletta ofan af ef eitthvað réttlæti á að ríkja hjá íslenskri þjóð.
Það hlýtur allavega að flokkast undir alvarleg mistök í starfi að búa ekki svo um hnútana að sérstakur saksóknari hefði aðgang að gögnum til að fletta ofan af þeim sem settu líf heillar þjóðar í uppnám.
![]() |
Sérstakur væntir niðurstöðu í febrúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)