6.11.2009 | 09:35
Rán um hábjartan dag?
Nú liggur fyrir frumvarp um stjórnlagaþing. Kjósa á 25-31 fulltrúa persónukjöri samhliða sveitastjórnum í vor og eiga fulltrúarnir að þiggja þingfararkaup á tímabilinu.
En bíðum aðeins við. Hverjir munu veljast á fyrirhugað stjórnlagaþing? Verða það fulltrúar almennings eða fulltrúar stjórnmálaflokkanna? Verður þetta kannski eins konar "hall of fame" eða samansafn þjóðþekktra einstaklinga? Veljast ef til vill e-s konar forréttindahópar á þingið eða fólk sem á undanförnum árum hefur notið ríkulegrar fyrirgreiðslu umfram aðra? Efnafólk hefur augljóslega forskot ef leyfa á auglýsingar í tengslum við kosninguna.
Höfum eitt á hreinu: Stjórnlagaþing á að vera þing þjóðarinnar sjálfrar þar sem nauðsynlegt er að sitji þverskurður samfélagsins alls. Það er algjörlega vonlaust að ímynda sér að það takist með því fyrirkomulagi sem ríkisstjórnin leggur upp með. Fyrirfram dauðadæmt. Ekki bætir úr skák að mikil tortryggni ríkir gagnvart stjórnvöldum og það eitt að einhverjir útsendarar flokkanna hreiðri um sig innan um aðra fulltrúa á stjórnlagaþingi er óbærileg tilhugsun. Flokkarnir hafa kosningamaskínur og ítök innan fjölmiðla sem flestir aðrir hafa ekki.
Stjórnlagaþing á að velja af handahófi úr þjóðskránni. Þar eiga að sitja mjög margir fulltrúar, því fleiri, því betra. Það á alls ekki að bera fé á þetta fólk því að um þegnskylduvinnu er að ræða og hún verður að vera unnin með glöðu geði af fólkinu fyrir fólkið. Greiða þyrfti ferðakostnað og uppihald fyrir fólk af landsbyggðinni og þá sem búsettir eru erlendis.
Hægt væri að hugsa sér útfærslu sem byggist á mjög stóru úrtaki úr þjóðskrá, a.a. 1% til að tryggja fjölbreytileika. Þetta fólk myndi hittast 3-4 helgar með nokkurra mánaða millibili. 1% af þessum hópi (30 manns á hóflegum launum) hefði mun stærra hlutverki að gegna og myndi vinna að útfærslu mála á milli þess sem stóra þingið hittist. Svo mætti jafnvel hugsa sér að kosnir yrðu 3-5 einstaklingar til að leiða þingið og að ráðnir séu nokkrir sérfræðingar á faglegum forsendum til ráðgjafar og upplýsingaröflunar.
Hér er einfaldlega á ferðinni spurning um framtíð þjóðarinnar í þessu landi. Viljum við sjá réttlátt þjóðfélag þar sem mannréttindi eru sett framar forréttindum? Viljum við setja alla við sama borð þegar trúmál eru annars vegar? Viljum við að faglegar forsendur ráði því hverjir veljast til stjórnunarstarfa eða fjölskyldu- og vinatengsl? Hvað með auðlindirnar, nýtingu þeirra og eignarétt? Hvernig stjórnkerfi viljum við? Viljum við forsetaembættið áfram og hvert á að vera valdsvið þjóðhöfðingjans? Viljum við kannski beint lýðræði þar sem almenningur getur alltaf gripið inn í ákvarðanatökur?
Ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga eru töluverð rök fyrir því að stjórnlagaþingið endurspegli ekki raunverulegan vilja þjóðarinnar. Þannig gæti Alþingi á endanum hagað málum eftir sínu eigin höfði og jafnvel breytt niðurstöðum stjórnlagaþingsins eftir eigin geðþótta. Stjórnlagaþing í boði Alþingis? Persónukjör í boði stjórnmálaflokkanna? Fjölmiðlar í boði auðmanna? Ætlum við aldrei að læra neitt af reynslunni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:58 | Facebook
Athugasemdir
Sæll nafni. Mér finnst þú ekki hafa mikið álit á lýðræðinu, telur fráleitt að fela þjóðinni að kjósa stjórnlagaþing. Vissulega má færa rök að því að þjóðinni séu mislagðar hendur við að kjósa sér fulltrúa til að fara með vald í sínu umboði. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkar fengu að hreiðra um sig árum saman og byggja svo grautfúinn grunn að hin hátimbraða höll hrundi að lokum með brauki og bramli.Pottlokabyltingin sagði út með alla af Alþingi, kjósum nýtt fólk. Það tókst ekki að kjósa nema 4 af nýju afli og þvílík útkoma. Það liggur við að ég segi að þar komu inn 4 ruglukollar, ég held að Þráinn sé sá eini sem er með heila hugsun af fjórmenningunum.
Þú telur að velja ætti á Stjórnlagaþing sem slembiúrtaki úr þjóðskrá, því fleiri því betra.
Þetta yrði skelfileg samkoma, nokkur hundruð manna valin með slembiúrtaki, hvernig samkomu skyldi það verða. Hún yrði skelfileg, þaðan kæmi ekki orð af viti, mér finnst það borðleggjandi.
Mér finnst hinsvegar að sú tala sem nefnd er ekki vera nægilega há, þetta mættu vera 50 - 60 einstaklingar og það er óhjákvæmilegt að þjóðin fái að velja þá í kosningum. En þar mætti setja ákveðnar girðingar. Kynin væru til helminga og fulltrúar ættu að koma úr öllum helstu starfstéttum þjóðfélagsins. Þess vegna gæti þurft að hafa fulltrúana fleiri. Það kemur ekki til greina að fulltrúar vinni þetta í þegnskylduvinnu. Gerirðu þér ljóst hvað þetta hefði í för með sér? Þeir láglaunuðu, eldri borgara og öryrkjar gætu ekki sinnt þessu en úr þessum hópum ættu einmitt að koma fulltrúar, fólk sem veit hvað lífsbaráttan er.
En það væri svo sem eftir öðru að það yrði ekkert úr Stjórnlagþinginu, sem ég tel algjöra nauðsyn að taki til starfa, vegna innbyrðis ágreinings okkar um hvernig skuli velja það og hvernig það skuli starfa.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 6.11.2009 kl. 11:25
Ég er eiginlega sammála ykkur báðum og mjög skemmtilega orðað hjá Sigurði Grétari og alveg klár staðreynd með kosningarhæfni þjóðarinnar.
En ég vil eins og Sigurður Hrellir ekki neina "flokkshunda" á stjórnlagaþing.
Er ekki þverskuður af þjóðinni á atvinnleysisskrá, svo hæglega ætti að vera hægt að manna slíkt þing strax og setja þingið strax og ekki neina helgarvinnu heldur 8 til 5 í nokkra mánuði - en ég hef sossum ekkert vit á þessu þó ég hafi löngun í mikklar breytingar í stjórnarfari okkar.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.11.2009 kl. 13:53
Ég er sammála ykkur öllum og finnst þið allir komast skemmtilega til orða. Þess vegna kem ég með eftirfarandi tillögu; Allir sem vilja skrái sig á lista yfir hugsanlega þingmenn á stjórnlagaþing. Svo verður dregið úr hattinum 63 nöfn (skemmtileg tala) og allir þingmenn fái greitt ferðir, uppihald og lágmarks laun. Fyrir starfsemi þingsins verði reist þinghöll á Þingvöllum (skemmtilegur staður, var ekki einmitt að losna lóð þarna nýlega með bruna Valhallar? Önnur skemmtileg tilviljun) með íslenska fánan sem undirlag fyrir grunnriss. Styttur af landvættum í réttri röð kringum húsið og allt samkvæmt kúnstarinnar reglum.
Það mætti hugsa sér að þingmenn bæru sérstaka búninga og að hver þingdagur hæfist með léttri blótsathöfn í Almannagjá áður en þrammað væri í takt við íslenska þjóðsönginn inn í Þinghöllina. En það mætti kannski sleppa því, ef einhverjum fyndist þetta kannski einum of (sem það er auðvitað ekki).
Jón (IP-tala skráð) 6.11.2009 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.