29.10.2009 | 14:01
Reykvélin á fullu
Fyrir ári síðan var efnahagskerfið hrunið og farið að bera á reglulegum mótmælum á Austurvelli. "Raddir fólksins" stóðu fyrir ræðuhöldum á laugardögum þar sem m.a. háværar kröfur voru uppi um nýtt gildismat, nýtt lýðveldi, faglega stjórnsýslu og réttláta málsmeðferð í tengslum við hrunið.
Í október 2009 er lítið rætt um nýtt lýðveldi og nýja stjórnarskrá. Engin fjárveiting er á fjárlögum til stjórnlagaþings þó svo að ríkisstjórnin sé með frumvarp í mýflugumynd til að þykjast hafa áhuga á málinu. Að sjálfsögðu ætla stjórnmálaflokkarnir hins vegar að reisa skjaldborg um eigin hag og myndu síst af öllu samþykkja stjórnlagaþing þar sem raunverulegum fulltrúum almennings væri falið að semja nýja stjórnarskrá með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.
Í október 2009 hefur enginn verið dæmdur fyrir þátt sinn í hruninu. Engar fréttir hafa borist af því að eignir hafi verið frystar, engir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald - þvert á móti, flestir þeir líklegustu eru enn á fullu í viðskiptum eða á kafi í stjórnmálum. Vissulega óttast sumir skýrslu rannsóknarnefndarinnar en sá ótti er ástæðulaus því að skýrslan sú mun í framtíðinni fyrst og fremst verða viðfangsefni sagnfræðinga, en ekki lögfræðinga og dómara.
Í október 2009 er hins vegar enn verið að nota bankaleynd til að hjúpa alls kyns gjörnina leyndarhjúpi og veita ýmsum aðilum sérstaka fyrirgreiðslu. Munurinn er bara sá að bankarnir eru nú á forsjá ríkisins og skilanefnda sem geta ráðið ráðum sínum án þess að gagnsæi eða upplýsingaskylda sé þrándur í götu. Það er ekki einu sinni svo gott að hluthafar eins og Vilhjálmur Bjarnason geti haldið uppi beittri gagnrýni.
Nokkur nýleg dæmi sem mbl.is hefur að mestu kosið að láta hjá liggja að fjalla um:
Afskriftir lána til forgangsbarna - hverjir skyldu ábyrgðarmenn þeirra vera? BANKALEYND!
Kennitöluflakk með aðstoð Landsbankans - BANKALEYND!
Nýi upplýsingafulltrúi Landsbankans - FAGLEG RÁÐNING?
Umbunað fyrir innherjaviðskipti - STJÓRNSÝSLAN SÉR UM SÍNA!
Sauðfjárrækt í Arnarnesinu - BANKALEYND!
Bara svo því sé haldið til haga þá er bankaleynd hugsuð til að vernda viðskiptahagsmuni en ekki til að fela siðlaust athæfi forréttindafólks! Það eru bara ekki allir með sömu hagsmunina þegar kemur að bönkunum sjálfum.
Hættum að vera meðvirk og lesum fjölmiðla sem standa undir nafni!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Facebook
Athugasemdir
Lýðræðisræningjar á launum samfélagsins. Stend við þau orð mín, þótt svo þau séu orðin frekar gömul.
Skorrdal (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.