25.11.2008 | 09:41
Hvað nú?
Ég var einn af þeim fjölmörgu sem ekki komust einu sinni inn í stóra salinn í Háskólabíó í gærkvöldi. Samt var ég mættur 10 mínútum fyrir 8. Fréttablaðið segir að 1.500 manns hafi lagt leið sína þangað en við vitum jú að fjölmiðlar kunna ekki að telja. Það voru a.m.k. 2.500 manns á staðnum meðan fundurinn stóð yfir og örugglega mikill fjöldi sem varð frá að hverfa.
En ríkisstjórnin er í afneitun eins og alki af verstu sort. Alltaf eru fundnar upp ástæður fyrir því að ekki sé tímabært að fara frá - ekki þegar allt hrundi - ekki þegar reynt var að semja við Breta, Hollendinga og fleiri - ekki þegar lánið mikla er skila sér - hvaða ástæða verður notuð eftir áramót? Þeim virðist fyrirmunað að skilja að nærvera þeirra spillir endurreisnarstarfinu og að tómt mál sé að tala um óháða rannsókn á þeirra eigin stjórnsýslu á meðan þau sitja enn og stjórna.
Geir hefur svosem sýnt sitt hrokafulla viðmót margoft áður og kom væntanlega engum á óvart en Solla kom viðmælendum sínum örugglega í opna skjöldu þegar hún sagði viðmælendur sína ekki dæmigerða fyrir vilja þjóðarinnar. Hún kýs semsagt frekar að líta á einhverja aðra sem hina sönnu þjóð - skyldi það vera fólkið sem Hannes Hólmsteinn lýsti með orðunum "...hafa engan áhuga á pólitík" og "...vilja græða á daginn og grilla á kvöldin"?
Ræðumenn stóðu sig með ágætum og vel þess virði að hlusta á ræður þeirra aftur. Þar var m.a. varað við því að yfirvöld taki ekki mark á friðsamlegum mótmælunum því að það væri ekki sjálfgefið að þau héldu áfram að vera friðsamleg. Ég býst ekki við að margir vilji sjá hér bardaga á götum úti, brennandi bíla og sérsveit BB með piparúðabrúsa út um allar koppagrundir.
Þetta er þjóðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.