11.11.2008 | 10:08
Stjarna eitt augnablik
Með hverjum deginum sem líður magnast reiðin í þjóðfélaginu. Ég finn hvernig hún kraumar inni í mér. Fréttir berast sífellt af því hvernig ekki er staðið rétt að málum í stærsta áfalli þjóðarinnar á síðari tímum. Þingmönnum er flestum haldið utan við ákvarðanaferlið og hafa sumir hverjir fundið sér önnur áhugamál. Á meðan að flest hæfileikaríkasta fólk okkar Íslendinga er á fullu að ræða hugmyndir og koma með lausnir situr forsætisráðherrann og þykist hafa stjórn á hlutunum. "Það er ekki tímabært" segir hann og fréttamenn kinka kolli.
Finnar segja að nákvæmar áætlanir vanti, fulltrúi í stjórn IMF segir formlegt erindi ekki hafi borist og forsætisráðuneytið lætur ekki svo lítið að ansa fyrirspurnum frá Wall Street Journal. Á sama tíma hefur þjóðin ekki fengið upplýsingar um það hvaða skilyrði fylgja láninu sem ekki fæst afgreitt. Hvernig eigum við yfirleitt að trúa því að skilyrðin séu ásættanleg?
Veruleikinn er skýr. Bankarnir hrundu eins og spilaborg og fólk tapað eigum sínum. Gengi krónunnar hrundi sömuleiðis og verðbólgan geysist upp á við. Atvinnuleysi er orðið raunverulegt hjá stórum hópi fólks og greiðsluerfiðleikar fylgja í kjölfarið.
Martröðin er hins vegar að sitja uppi með óhæfa stjórnmálamenn sem halda heljartaki um stýrið og neita að gefa eftir stjórnina þrátt fyrir að kallað sé til þeirra víðs vegar úr þjóðfélaginu.
Það má ekki persónugera vandann. Við sitjum öll í sama bátnum.
Aðildarviðræður við ESB eru ekki á dagskrá.
Ekki stendur til að taka upp nýjan gjaldmiðil að svo stöddu.
Kosningar eru ekki áformaðar að svo stöddu.
Geir ætti að fara að horfast í augu við veruleikann og ríkisstjórnin að hætta að vera meðvirk. Það má ekki leggja Ísland í rúst. Fólkið sem kaus þessa flokka er vonsvikið og reitt. Alþingi Íslendinga er eins og leikhús fáránleikans þar sem Bjarni Harðarson stal senunni og var stjarna eitt lítið augnablik.
Spurning um hlutverk for(n)mannsins í þessu dramatíska atriði. Hann notar ekki tölvupóst, er það?
Bjarni segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, Heyr. Það er því miður svo að Geir Hilmar er algjörlega veruleikafyrrtur auk þess að vera vanhæfur til forustu. Frekar mun hann sitja áfram og valda óbætanlegum skaða fyrir þjóðina heldur en að gefa þumlung eftir þegar kemur að því að vernda eigin hagsmuni, ímyndaða flokkshagsmuni og almennt þá pólitísku spillingu sem hann er svo stór hluti af.
Það besta sem hann gæti gert væri að segja af sér og stuðla að myndun utanþingsstjórnar, en hann mun sitja áfram eins lengi og hann getur og bíða og sjá til. Eða eins og hann myndi orða það "Ég tel enga sérstaka þörf á því að ég segji af mér".
Fannar (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 10:28
Vel mælt Sigurður. Ég fylgist með ykkur á hverjum degi og það er átakanlegt að sjá framvinduna í þessu öllu. Aldrei hefur mér liðið verr að vera íslendingur í útlöndum. Þetta er eins og að komast ekki á dánarbeð móður sinnar og þaðan af síður í jarðaförina. Þurfa síðan að lesa minningargreinar skrifaðar af óvinum hennar og hálfvitum. Ég er haldinn slæmum þjóðernissálarkvölum og þrái það mest að komast heim í kreppuna svo ég geti lifað þetta alveg út.
Þess vegna er gott að lesa menn eins og þig skrifa svona pistla. Flestir eru uppteknir í nornaveiðum eða einhverjum flokka/klíku ranghölum og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Sögusagnir fara um eins og eldur í sinu og enginn veit hvað er rétt og hvað er rangt. Satt að segja hefði ég aldrei trúað því að Ísland myndi breytast í þessa ringulreið sem það er nú. Þetta er hreint ótrúlegt. Þetta upphlaup þingmannsins verður bara eins og lítil krúttleg saga í samanburði, en hefði verið hin mesti skandall án þeirra móðuharðinda og Sturlungaaldar sem nú ríða húsum.
Bestu kveðjur. Jón Gunnar
Jonni, 11.11.2008 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.