25.1.2008 | 11:28
Vitlaus stjórnskipunarlög
Frumvarp Marðar og félaga er þarft og skynsamlegt þó að stutt sé. Það er ekki nokkur maður sem sér tilganginn í því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi auk þess sem að margir borgarbúar hafa ekki hugmynd um hvoru kjördæminu þeir tilheyra. Reyndar væri að mínu mati skynsamlegast að hafa allt landið eitt kjördæmi enda eru landsbyggðarkjördæmin þrjú orðin risastór hvert fyrir sig og einungis stigsmunur að taka skrefið alla leið. Af hverju líðst það enn þann dag í dag að atkvæðavægi sé svo misskipt?
Svo væri nú ekki úr vegi að bera fram frumvarp um að fella úr gildi mjög svo umdeilt skilyrði sem hindrar að nýir stjórnmálaflokkar komist til valda. Þá á ég við 5% regluna svonefndu sem tók gildi árið 2000 og kom í veg fyrir að Ómar Ragnarsson og einn annar frambjóðandi Íslandshreyfingarinnar tækju sæti á Alþingi á sl. ári. Þar segir í 108. gr.
"Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."
Það væri kannski ekki úr vegi að rifja það upp að "Frjálslyndi" flokkurinn hefði ekki komið inn nokkrum einasta manni árið 1999 ef þessi lög hefðu verið í gildi þá. Þeir fengu 4,2% atkvæða á landsvísu og 2 þingsæti. En ætli flutningsmönnum nýja frumvarpsins finnist nokkur þörf á að breyta þessu?
Reykjavík verði eitt kjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.