Athugasemdirnar mínar

Jæja, þá er loksins búið að setja lokapunktinn og klára þessar blessaðar athugasemdir við skýrsluna sem fer fögrum orðum um fyrirhuguð náttúruspjöll við Ölkelduháls. Nú er eins gott að Skipulagsstofnun bretti upp ermarnar því að þeir þurfa að lesa ansi mikið á næstu dögum og vikum.

Ég birti athugasemdirnar mínar ekki einungis fyrir aðra að lesa, heldur líka svo að það geti flýtt fyrir einhverjum sem er sammála mér að einhverju leyti. Verið ófeimin að afrita og nýta í ykkar eigin þágu.

================================================

Ég undirritaður kem hér með á framfæri nokkrum athugasemdum við frummatsskýrslu um Bitruvirkjun og fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Byggi ég þær bæði á skoðunarferðum um svæðið sjálft og lestri skýrslunnar sem því miður ber þess nokkur merki að mínu mati að hagsmunaaðilar um framkvæmdirnar hafi haft umsjón með gerð hennar og frágangi. Mun ég rökstyðja það með dæmum í athugasemdunum hér á eftir. Skýrslan er því ein og sér sem útgangspunktur nokkuð hlutdræg í sinni umfjöllun og hlýtur innihald hennar að þurfa að skoðast sem slíkt.
 
Auk þess finnst mér gagnrýnivert að fjallað skuli um 2 virkjanir samtímis og að svo knappur tími sé gefinn til að kynna sér allar forsendur og senda inn athugasemdir. Skýrslurnar eru um 300 bls. samanlagt og varla á  margra færi að kynna sér innihald þeirra.

 


1) Hljóðvist - mjög vanmetin umhverfisáhrif:

Skýrslan tilgreinir þessi áhrif virkjunarinnar annars vegar sem talsverð (á framkvæmdatíma) og hins vegar sem óveruleg (á rekstrartíma). Á rekstrartíma er hins vegar gert ráð fyrir því að bora nýjar holur á 2ja til 4ra ára fresti vegna þess hve vinnslan er "ágeng" (=ósjálfbær), en það þýðir að hávaði eykst til muna með nokkru millibili, marga mánuði í senn.
 
Kyrrlátt svæði sem þetta, 5 km frá næstu umferðaræð og 6 km frá byggð, glatar miklu af gildi sínu ef stöðugur hávaði berst að eyrum göngufólks og þeirra sem um svæðið fara.Viðmiðunarmörk þau sem notuð eru í skýrslunni eru án nokkurns vafa of há, enda skilgreind fyrir útivistarsvæði í þéttbýli.  Ef það er rétt að í reglugerðir vanti viðeigandi viðmiðunarmörk, verður þá ekki að fá sérfræðing til að áætla þau og rökstyðja með einhverju móti? Að setja óbyggðir og þéttbýli undir sama kvarða hvað varðar hljóðvist er engan veginn ásættanlegt. Mun réttara væri að miða við 25dB(A) viðmiðunarmörk í hljóðstyrk á þessu kyrrláta svæði fremur en 45 dB(A) eins og gert er í skýrslunni. Með því móti myndi áhrifasvæði virkjunarinnar vegna hljóðvistar hins vegar margfaldast að stærð og á rekstrartíma ná a.a. 8 km radíus frá upptökum hávaðans í stað 900-1200 m. Á framkvæmdatíma og þegar nýjar holur eru boraðar og látnar blása ykist sú vegalengd hins vegar töluvert. Hafa skal í huga að 110 dB(A) stöðugur hávaði er svipaður hljóðstyrkur og búast má við í 1-2 m fjarlægð frá hátalarastæðu á stórum rokktónleikum utandyra!
 
Út frá breyttum forsendum tel ég því umhverfisáhrif sökum hljóðvistar talsverð á rekstrartíma þegar ekki er unnið með nýjar holur, en veruleg á framkvæmdatíma og einnig þegar nýjar holur eru boraðar á rekstrartíma og í blástursprófunum.
 
 

2) Landslag - vanmetin umhverfisáhrif:

Í skýrslunni eru nefnd fjölmörg atriði sem munu hafa áhrif á landslagið við Bitru/Ölkelduháls, en því er lýst sem fjölbreyttu, fögru og lítt snortnu. Talin eru upp ýmis mannvirki, s.s. stöðvarhús, kæliturnar og skiljustöðvar, 5 km af sýnilegum lögnum sem hlykkjast um svæðið, vegaslóðar í svipaðri lengd og 2 nýjar línulagnir. Auk þess munu verða þar nokkrir 20 m. háir gufuháfar með tilheyrandi gufustrókum og ærandi hávaða ef marka má samskonar gufuháfa sem nú blása við Hellisheiðarvirkjun. Hljóð/hávaði hefur mikil áhrif á sjónræna upplifun eins og þeir þekkja sem vinna við kvikmyndagerð (þ.m.t. undirritaður).
 
Stór hluti framkvæmdasvæðisins er á Náttúruminjaskrá, m.a. sökum stórbrotins landslags, og hlýtur sú staðreynd að hafa mikið vægi ein og sér. Maður veltir því fyrir sér hvort að Sveitarfélagið Ölfus sé svo illa statt fjárhagslega að það telji sig nauðbeygt til að breyta aðalskipulagi og horfa framhjá öllum ofantöldum þáttum ef það samþykkir breytt aðalskipulag með fyrirhugaðri Bitruvirkjun.
 
Skýrsluhöfundar taka samt sem áður fram "að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki á svæði sem teljist falla undir hugtakið ósnortin víðerni í skilningi laga nr. 44/1999". Auk þess segja þeir að "framkvæmdin komi til með að raska landinu og gera landslagið manngert" og "að upplifun fólks af landslaginu komi því til með að breytast". Með þessu móti finnst undirrituðum þeir reyna að gera minna úr þeirri röskun sem um er rætt. Ég efa það að nefndar mótvægisaðgerðir breyti miklu þó svo að svonefndar "torsýnilegar" mosagrænar lagnir séu líkast til skárri en áberandi rauðar. Raunar þarf ekki annað en að skoða sig um í nágrenni Hellisheiðarvirkjunnar til að fá góða hugmynd um hvaða áhrif svona framkvæmd hefur á landslagið.
 
Niðurstaða skýrsluhöfunda að áhrif virkjunarinnar á landslag séu talsverð er að mínu mati vanmetin og ætti frekar að teljast veruleg. 
 


3) Loftgæði  - óvissa um umhverfisáhrif:

Töluvert hefur verið rætt í fjölmiðlum að undanförnu um hugsanlega skaðsemi brennisteinsvetnis í lofti, í hve miklu mæli það telst skaðlegt heilsu fólks, óþægindi sökum lyktarinnar og einnig áhrif þess á málma s.s. silfur og þakklæðningar. Fram hafa komið efasemdir um að það sé eins skaðlaust og skýrsluhöfundar halda fram og vísa ég þá m.a. til Þorsteins Jóhannssonar sérfræðings Umhverfisstofnunar í viðtali í Speglinum á RÚV, 7. nóv. sl. sem lýsti því yfir að langtímaáhrif á fólk væru ekki nægilega vel þekkt.
 
Heilsuverndarmörk eins og þau eru skilgreind víða annars staðar en á Íslandi eru einungis 100 ppb og nú þegar sýna mælingar við Grensásveg í Reykjavík stundum gildi í kring um 30 ppb. Hvað skyldu mælingar þá sýna í Hveragerði? Viðmiðunarmörk vinnueftirlitsins eru ekki nothæf viðmiðun þegar fjallað er um loftgæði við heimili fólks þar sem börn alast upp og sjúklingar með öndunarfæraerfiðleika búa.
 
Miðað við allt það magn H2S sem kemur upp úr fyrirhuguðum borholum við Bitru (8.000 tonn á ári) mætti jafnvel reikna með því að Umhverfisstofnun geri einhverjar athugasemdir við skipulagðar gönguferðir í nágrenninu. Í öllu falli er ljóst að lyktin mun ekki verða erlendum ferðamönnum til yndisauka og varla heldur íbúum í Hveragerði og öðrum nærliggjandi byggðum. Er ólykt við heimili fólks annars ekki skerkt loftgæði?
 
Einnig mun virkjunin hafa í för með sér töluverða aukningu á CO2 útblæstri á landsvísu sem reiknast með í íslenska kvótanum eftir því sem skýrslan segir. Þetta mun að mínu mati setja aukinn þrýsting á ráðamenn að Ísland sæki um áframhaldandi undanþágu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá 2013-2020 sem er alls ekki ímynd þjóðarinnar til framdráttar og raunar fyrir neðan virðingu okkar sem þjóðar.
 
Því tel ég að áhrif virkjunarinnar á loftgæði og útblástur séu líklega vanmetin og álít þau allt að því talsverð þó svo að óvissa ríki um skaðsemi brennisteinsvetnis í nágrenni við svæðið.

 


4) Ferðaþjónusta og útivist - vanmetin umhverfisáhrif:

Hér hafa skýrsluhöfundar komist að þeirri niðurstöðu að áhrif framkvæmdarinnar séu talsverð og ýmsir áhrifaþættir eru nefndir. Þó vantar alveg að minnast á fælingarmátt hávaðans sem því miður virðist stórlega vanmetinn (sjá athugasemd 1) og mikinn útblástur brennisteinsvetnis svo nærri göngufólki. Þeir sem skipuleggja slíkar ferðir á svæðinu munu hugsa sig um tvisvar áður en lagt er af stað með gönguhópa ef búast má við kvörtunum vegna óþæginda af þessum sökum. Ekki getur heldur talist æskilegt að byrja eða enda gönguferðir á virkjanasvæði innan um hávaðasöm mannvirki og lagnir, jafnvel þó að "torsýnilegar" séu. Af þessum sökum verður að telja það ólíklegt að svæðið bjóði upp á aukna nýtingu í ferðaþjónustu og má fremur búast við að dragi úr ásókn í að fara þar um nema hugsanlega fyrir sérstaka áhugamenn um jarðvarmavirkjanir.

Fram kemur að "meirihluti þeirra ferðamanna sem sækja Ölkelduhálssvæðið heim í skipulögðum ferðum séu útlendingar sem sækjast eftir að upplifa stórbrotna og ósnortna náttúru". Með slíkar væntingar má telja víst að þeir yrðu fyrir vonbrigðum og því má gera ráð fyrir að svæðið með virkjuninni fullnægi ekki þeirra óskum. 

Það vekur nokkra furðu mína að skýrsluhöfundar eru ófeimnir að leggja til færslur á leiðum fyrir göngufólk og hestamenn svo að þeir verði minna varir við rask af völdum virkjunarinnar. Er það ef til vill hluti af mótvægisaðgerðunum? Einnig gæla þeir við þá hugmynd að nýr hópur "útivistarfólks" muni sækja svæðið vegna mannvirkja og betri vega og eiga þá líklega við það fólk sem helst aldrei fer út úr bílum sínum ótilneytt.

Að mati undirritaðs verða áhrif virkjunarinnar á ferðaþjónustu og útivist veruleg, amk. á nærliggjandi svæðum.



5) Niðurstöður - vanmetin umhverfisáhrif:

Að mati undirritaðs hafa skýrsluhöfundar tvímælalaust vanmetið umhverfisáhrif Bitruvirkjunar. Eins og fram kemur í athugasemdunum hér að framan álít ég að ýmsir þættir hafi verið vanmetnir á hæpnum forsendum og/eða með tilvísunum til tæknilausna sem ekki standa til boða enn sem komið er. Um áhrif framkvæmdanna á gildi svæðisins til ferðamennsku þarf vart að fjölyrða en horft virðist framhjá stórauknum fjölda íbúa á SV-horninu auk þeirrar miklu aukningar á heimsóknum til landsins sem áætlanir gera ráð fyrir.
 
Samlegðaráhrif vegna landslags, hljóðvistar, útblásturs, mannvirkja, línu- og leiðslulagna gera svæðið líkara iðnaðarhverfi í dreifbýli en náttúruperlu. Þegar hinar virkjanirnar bætast við í reikninginn er hreinlega um umhverfisslys að ræða.
 
Við þetta bætist svo að nýtingarhlutfall orkunnar er afar lágt (undir 15%), en skýrsluhöfundar virðast að mestu skauta yfir þá umræðu. Sjálfbærni/endurnýjun auðlindarinnar virðist heldur ekki höfð að leiðarljósi þrátt fyrir loðið orðalag:
 
"Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær."
 
Það hlýtur að teljast mjög hæpið að lýsa sjálfbærni sem framtíðarmarkmiði eins og gert er í skýrslunni og reikna með að tækniframfarir geri það mögulegt. Af hverju var það ekki haft sem markmið frá upphafi? Er það vegna þrýstings frá orkukaupendum? Er m.ö.o. búið að lofa þessari orku áður en virkjanirnar hafa farið í gegnum lögbundið matsferli og fengið grænt ljós?
 
Niðurstaða mín er að heildaráhrif Bitruvirkjunar verði á bilinu talsverð til veruleg og mæli með svonefndum Núll kosti, þ.e. að hætta við framkvæmdina.

 


Virðingarfyllst,

Reykjavík 8. nóvember 2007.

Sigurður Hr. Sigurðsson. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband