Hjörleifi svarað.

Í Fréttablaðinu í dag, föstudaginn 13/4 birtist grein eftir hinn vígamóða Hjörleif Guttormsson þar sem hann fer þess á leit við Ómar Ragnarsson og Íslandshreyfinguna - lifandi land að þau hætti við margboðað framboð sitt til Alþingis. Hjörleifur er vel þekktur fyrir baráttu sína gegn álverum og virkjanaæðinu sem nú geisar sem aldrei fyrr og hefur vissulega verið drjúgur í þeirri baráttu. En grein hans er því miður ekki uppbyggilegt innlegg.

Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð í þeim tilgangi að fjölga í græna liðinu. Henni er ætlað að vera málsvari þeirra sem láta sig umhverfismál miklu skipta en geta af ýmsum öðrum ástæðum ekki kosið Vinstri græna. Eitt helsta baráttumál hennar er að styðja við nýsköpun og frumlega atvinnustarfsemi aðra en þá sem skaðar land og þjóð. Hún leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlindanna og kýs gæði umfram magn og fjölbreytni umfram einsleitni. "Græn-vöxtur" er góðkynja hagvöxtur. Hún styður heils hugar við einkaframtakið og er á móti auknum skattaálögum. Hún vill sjá blómlega starfsemi í öllum byggðum.

Framtíðarlandið ætlaði sér svipaða leið, en í kosningu meðal félagsmanna varð niðurstaðan sú að ekki skyldi bjóða fram til Alþingis. Hjörleifur beitti sér þar mjög einarðlega gegn hugmyndinni og talaði oft og lengi á móti henni. Það má því vera ljóst að hann vill ekki undir neinum kringumstæðum sjá annað stjórnmálaafl sem leggur höfuðáherslu á umhverfismál. Heldur vill hann trúa því að allir svarnir umhverfissinnar muni styðja VG hvar svo sem önnur áherslumál þeirra liggja.

Gallinn við þetta útspil Hjörleifs er sá að hann er að spilla fyrir vinnu okkar við framboðið. Síðustu daga og vikur hefur verið unnið að því fullum fetum að koma saman trúverðugri stefnu og málefnaskrá. Það hafa verið haldir fundir víða um land með fulltrúum hins nýja framboðs. Síðast í gær var mjög spennandi fundur í Iðnó þar sem Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda og Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ töluðu fyrir sínum áherslumálum og svöruðu spurningum frá gestum í sal.
Mikill tími hefur farið í að finna frambærilegt fólk til að leiða alla framboðslistana. Þeirri vinnu er nú að mestu lokið og verða listarnir kynntir nú um helgina. Vonumst við til að það slái á allar úrtöluraddir í eitt skipti fyrir öll.

Að bjóða fram til Alþingis er lýðræðisleg leið til þess að hafa áhrif á mikilvæg mál og ná fram breytingum. Það er líka áhættusöm leið því að aldrei má ganga út frá því sem vísu að nýtt framboð komi fólki inn á þing. Aðrar leiðir eru vissulega fyrir hendi, t.d. að "styrkja" stjórnmálaflokka og fá þess í stað sporslur og fyrirgreiðslur líkt og tíðkast hér í ríkum mæli. Einnig er hægt að fara út í yfirtöku á eldri flokkum og breyta þeim í sérhagsmunasamtök án þess að sauðtryggir kjósendur hætti stuðningi sínum. Loks er hægt að beita þingmenn þrýstingi líkt og Framtíðarlandið gerði með auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun sinni. Hjörleifi hugnast sú leið trúlega best en við sem stöndum að Íslandshreyfingunni - lifandi landi teljum að líklegast til árangurs sé að koma okkar fólki inn á þing. Annars værum við ekki að þessu.

Að ætla að gera Ómar og Íslandshreyfinguna ábyrga fyrir því ef ríkisstjórnin fær aukinn byr í seglin er afar ósanngjarnt og ætti Hjörleifur að hafa hugsað sig um tvisvar áður en hann ákvað að ráðast opinberlega gegn okkur. Hins vegar eru 4 vikur til kosninga og mjög margir kjósendur enn óákveðnir. Við munum kynna okkar málstað eins víða og unnt er og erum þakklát öllum þeim sem aðstoða okkur í því sambandi.

Af hverju biðlar Hjörleifur ekki frekar til þeirra umhverfissinna sem kosið hafa Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og hvetur þá til að styðja Íslandshreyfinguna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Flott grein Siggi

Lárus Vilhjálmsson, 13.4.2007 kl. 16:31

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll og blessaður Sigurður Hreinn.Það er fjarri mér að ætla að leggja stein í götu ykkar í Íslandshreyfingunni, því að auðvitað fylgið þið sem að henni standið ykkar sannfæringu og notið ykkar lýðræðislega rétt eins og hugur ykkar stendur til. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að aðrir hafi skoðun á hversu skynsamlegt það er miðað við aðstæður nú í aðdraganda kosninga. Með grein minni er ég fyrst og fremst að bregðast við málflutningi Ómars Ragnarssonar formanns væntanlegs framboðs Íslandshreyfingarinnar. Á heimasíðu sinni hefur hann í grein eftir grein útlistað það hversu mikla hindrun hann telji það fyrir fólk að kjósa Vinstri græna af því að þeir einnig kenna sig við vinstri stefnu, þ.e. jöfnuð og velferð. Þú hefur eflaust lesið skrif hans með athygli eins og ég, þar á meðal greinina "Vandi vinstri grænna" 21. janúar 2007 og grein hans 5. apríl sl. sem hefst þannig: "Tal um hægri og vinstri er ekki marklaust meðan Vinstri hreyfingin - grænt framboð heitir þessu nafni. Að minnsta kosti ekki í huga þeirra sem kjósa VG vegna vinstri stefnunnar. Og stór hluti Sjálfstæðismanna telja sig hægri menn. Fyrir margan Sjálfstæðismanninn sem er á móti stóriðjustefnunni er það ekki mikið átak í óskuldbindandi skoðanakönnun að segjast ætla að kjósa VG." Síðan fylgir sú kynlega röksemdafærsla, endurtekin aftur og aftur af Ómari, m.a. í nefndri grein þannig orðuð: "Ætlun okkar er að "grípa" þessi atkvæði þegar þau hörfa til baka til hægri en gætu átt það til að staldra við hjá okkur í leiðinni af því að við erum ekki til "vinstri"."Þetta er afskaplega loftkenndur málflutningur og ekki traustur grunnur fyrir sérstöku framboði til Alþingis. Hér er verið að ala á tortryggni gagnvart Vinstri grænum án þess að gera minnstu tilraun til að ræða um hvaða málefni það séu sem Ómar og eftir atvikum Íslandshreyfingin séu ósátt við í stefnu Vinstri grænna. Þá er það mér ráðgáta hvers vegna óráðnir kjósendur sem eru eindregnir stóriðjuandstæðingar ættu frekar að merkja við Íslandshreyfinguna í kjörklefanum en Vinstri græna, ég tala nú ekki um ef í hlut á fólk sem horfir til hægri, á meðan ekki birtast í efstu sætum hjá Íslandshreyfingunni þekktir fyrrum Sjálfstæðismenn eða fólk sem talar skýrt fyrir hægristefnu. Skoðanakannanir síðustu vikna eftir að Íslandshreyfingin kom fram segja sína sögu. Það litla sem Í-listinn fær í könnunum er að langmestu leyti sótt til stjórnarandstöðuflokkanna, einkum VG. Áður en Íslandshreyfingin tilkynnti um framboð mældist stjórnarandstaðan vikum saman með meirihluta á þingi, en síðan hefur þetta snúist við. Það virðist því raunveruleg hætta á því að framboð Íslandshreyfingarinnar geti orðið til þess að ríkisstjórnin haldi velli. Framboð til Alþingis þarf, ef vel á að vera, að gera skýra grein fyrir sínum málefnaáherslum og stefnumiðum. Það hefur  Íslandshreyfingin ekki gert og er vissulega nokkur vorkunn, þar eð enginn flokkur hefur enn verið stofnaður um framboðið svo mér sé kunnugt og ekki enn ljóst, örfáum vikum fyrir kosningar, hverjir verði í framboði fyrir listann. Fyrir utan andstöðu við stóriðju vita menn það helst um stefnuna, að Íslandshreyfingin vilji að eftir kosningar verði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Um þá hugmynd þarf varla að stofna stjórnmálaflokk til viðbótar við Samfylkinguna, en aðild að ESB er þó altént grunnmúruð í stefnu hennar, þótt margt annað sé á reiki.Ég gleðst sannarlega yfir því ef fólk sem víðast, jafnt í frjálsum félagasamtökum sem og í stjórnmálaflokkum, setur fram kröfur um umhverfis- og náttúruvernd og samhæfir þær öðrum stefnumiðum varðandi þjóðmálin. Það er stærsta mál samtímans sem snertir framtíð alls mannkyns. Ég vænti þess að það góða fólk sem er að vinna fyrir Íslandshreyfinguna finni samleið með öðrum að því verkefni.Með bestu kveðjum                                                        Hjörleifur

Hjörleifur Guttormsson, 13.4.2007 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband