Græðgi bankanna varð þeim að falli

Réttara sagt, græðgi þeirra sem áttu og stjórnuðu bönkunum varð þeim að falli. Hlutabréfaverði var haldið uppi með markaðsmisnotkun, sýndarviðskiptum með hlutabréf og efnahagsreikningum sem gáfu kolranga mynd af stöðunni. Svo voru bankarnir endurreistir fyrir skattfé almennings og allir þekkja þá sögu.

Í dag þurfum við hins vegar að velta því fyrir okkur hvort að grundvallarbreytingu eigi að gera með samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Vissulega gerist breytingin ekki með því einu að breyta stjórnarskránni en með tillögum stjórnlagaráðs væru settar grundvallarreglur um valddreifingu og aðgengi að upplýsingum sem eru nauðsynlegar breytingar til þess að hér fari ekki allt í sama farið.

Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins varpaði ljósi á þetta þegar hann útskýrði ummæli sín um "hið ógeðslega samfélag" á fundi Stjórnarskrárfélagsins um beint lýðræði 26. sept. sl. Gefum Styrmi Gunnarssyni orðið.

 

"Ef ég á útskýra fyrir ykkur þessi ummæli mín um hið ógeðslega samfélag sem að ég stend alveg við og hef ekki breytt neinu um mína skoðun á því, að þá hugsa ég að það séu svona kannski 30 ár liðin frá því að ég fór að finna í samtölum við fólk sem ég átti - af því að þegar maður vinnur á fjölmiðli þá hittir maður mikinn fjölda fólks á hverjum einasta degi, úr ýmsum áttum - að ég fór að finna svona breytingu; breyttan tón. Ég fór að átta mig á því að það var alltaf verið að tala við mig um einhverja hagsmuni. Þeir sem voru að koma að heimsækja mig, þeir voru alltaf í heimsókn hjá mér til þess að koma fram einhverjum hagsmunum. Einhverjum sérstökum hagsmunum, það var alveg sama hvort heldur það var verið að selja eitthvað eða hafa einhver áhrif á afstöðu blaðsins eða hafa einhver áhrif í pólitíkinni eða hvað, það var alltaf einhverjir hagsmunir. Það voru ekki hugsjónir. Það voru ekki einhver svona prinsipp.

Sko, við sem að ólumst upp í kalda stríðinu og vorum að takast á - mín megin við kommúnista, og kommúnistar við okkur - að við vorum þó að berjast fyrir hugsjónum. Svo allt í einu, smátt og smátt, að þá sá ég það að hugsjónirnar voru að hverfa og hagsmunir komu í staðinn. Ég tek það fram að ég tók fyrst eftir þessu hjá ungu fólki. Þessi hagsmunabarátta, þessi hagsmunagæsla í þessu samfélagi, hún óx svo hröðum skrefum og maður gat ekki litið við án þess að verða var við það að það var einhvers staðar verið að herja á mann í þágu einhverja hagsmuna.

Þetta fór gersamlega úr böndum á fyrstu árum þessarar aldar. Þá varð þetta þjóðfélag ógeðslegt. Það var ógeðslegt vegna þess að það var eins og það væri allt til sölu. Að það væri hægt að kaupa hvað sem var. Að það væri hægt að kaupa fólk. Að það væri hægt að kaupa skoðanir. Það væri allt til sölu. Það væri ekki lengur neitt sem var heilagt. Ef að hægt var að fá einhverja peninga út úr því, þá væri það sjálfsagt. Þetta er það sem ég átti við þegar ég sagði við þessa undirnefnd Rannsóknarnefndar Alþingis um siðferði að mér fyndist þetta vera ógeðslegt samfélag. Og ég segi ykkur það að ég hef gert mér vonir um að við fengjum það út úr Hruninu að þetta samfélag kæmi ekki aftur og mér finnst það ofboðslega mikið mál að okkur takist að koma í veg fyrir að þetta samfélag þar sem allt var til sölu og allt var hægt að kaupa, ekki bara vörur, heldur skoðanir fólks, atkvæði fólks, fylgi fólks, hvað sem var, að þetta komi ekki aftur."


mbl.is Segir bankana geta hafið endurútreikning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband