25.1.2011 | 14:14
Sýndarviðbrögð
Ekki veit ég fyrir víst hvað Jóhanna og Steingrímur sögðu við fólkið sem nýlega afhenti þeim áskorun meira en 47.000 Íslendinga. Það hlýtur þó að hafa verið eitthvað annað en að iðnaðarráðherra skyldi falið "að taka þegar í stað upp viðræður við HS Orku, eigendur félagsins, og sveitarfélög á Reykjanesi, að um stytta (sic.) leigutíma nýtingarréttar á jarðhita". Allavega virtist Björk Guðmundsdóttir vera nokkuð vongóð um að ríkisstjórnin tæki áskorunina til greina.
Í áskoruninni segir: "Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra."
Ríkisstjórnin og sér í lagi VG, hafa algjörlega brugðist í þessu máli. Það var Steingrími J. í lófa lagið að koma í veg fyrir þessa sölu sem vafalítið var alls ekki í anda laga um erlent eignarhald, og setja á oddinn að regluverk um sjálfbæra nýtingu yrði klárað. Þingflokksformaður VG gekk jafnvel svo langt að skilyrða stuðning sinn við ríkisstjórnina við það að undið skyldi ofan af þessari dæmalausu sölu og sagði m.a.:
"Það er grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að auðlindirnar okkar séu ekki settar í eigu einkaaðila. Þetta eru leifar af þessari hugmyndafræði, sem olli hruni á Íslandi. Þessi hugmyndafræði lifir alveg óskaplega sterku lífi í öllu okkar samfélagi. En þetta er algert grundvallarmál í okkar hreyfingu, að vinda ofan af þessari hugmyndafræði. Ég stóð í þeirri meiningu fyrir mörgum mánuðum síðan, við höfðum heit fyrir því, að þetta yrði stöðvað með einum eða öðrum hætti. Að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að koma í veg fyrir þetta."
Að fela Katrínu Júlíusdóttur að semja við Magma og HS Orku um styttri leigutíma nýtingarréttar er álíka tilgangslaust og að láta Árna Pál Árnason semja við banka og lífeyrissjóði um niðurfellingar á lánum í þágu heimilanna. Varla ætla þau að greiða HS Orku háar upphæðir fyrir styttan leigutíma og láta kröfur 47.000 kjósenda algjörlega sem vind um eyru þjóta.
Semja um styttri nýtingarrétt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.