8.12.2010 | 11:24
Í orði eða á borði
15. júlí sl. hafði þingflokksformaður VG ýmislegt um þetta tiltekna mál að segja, m.a. að rifta þyrfti samningnum við Magma Energy sama hvað það kostaði:
"Það er grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að auðlindirnar okkar séu ekki settar í eigu einkaaðila. Þetta eru leifar af þessari hugmyndafræði, sem olli hruni á Íslandi. Þessi hugmyndafræði lifir alveg óskaplega sterku lífi í öllu okkar samfélagi. En þetta er algert grundvallarmál í okkar hreyfingu, að vinda ofan af þessari hugmyndafræði. Ég stóð í þeirri meiningu fyrir mörgum mánuðum síðan, við höfðum heit fyrir því, að þetta yrði stöðvað með einum eða öðrum hætti. Að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að koma í veg fyrir þetta."
"Krafan er ennþá skýlaus: Það verður að leita allra leiða til þess að rifta þessum samningum. Þetta snýst um að orkuauðlindir okkar fari ekki í hendur alþjóðlegra samsteypa sem soga úr samfélögum."
"Hversu margir hræðilegir afleikir sem hafa verið leiknir, þá verður að vinna úr þeirri stöðu sem er uppá borðinu. Þá verður að skoðast hvernig er hægt að rifta þessum samningum. Jafnvel þó að það kosti okkur eitthvað núna, þá er það innlegg inn í framtíðina, fyrir börnin okkar og næstu kynslóðir. Þetta er eitt af því sem gerist þegar maður les sér til um svona kreppu. Einmitt þannig að alþjóðlegar samsteypur komi inn, nýti sér tækifærið og hirði auðlindir."
"Í mínum huga er þetta borðleggjandi, ekki spurning um að þetta er ólögmætt. Þetta er í raun kanadískt stórfyrirtæki, sem er að búa til falsaða mynd af sér í Svíþjóð, mynd sem er ekki til. Það verður að láta reyna á það og ganga í það strax að rifta þessum samningum."
Í kjölfarið var skipuð nefnd sem átti að gera mjög viðamikla úttekt á málinu, lögmæti þess og aðdraganda. Eitt af því fyrsta sem sem fréttist eftir skipun nefndarinnar var það að einum nefndarmanna, Sveini Margeirssyni, dr. í iðnaðarverkfræði, var vikið úr nefndinni, enda var hann líklegastur til að geta bent á flókin hagsmunatengsl á bak við einkavæðingu orkufyrirtækisins, hugsanlega með þræði beint inn í stjórnmálaflokka. Nefndi vann þó sína vinnu að mestu leyti og skilaði merkilegri skýrslu sem stungið hefur verið undir stól, bæði af fjölmiðlum og stjórnmálamönnum.
Skyldi það ekki vera einsdæmi á Vesturlöndum að stjórnmálaflokkur í ríkisstjórn sem sver sig við græn gildi láti eitthvað þessu líkt gerast á sinni vakt? En á meðan að Vinstrihreyfingin Grænt framboð er búin að missa sjónar af mörgum stefnumálum sínum og hugsar helst um það eitt að sitja áfram við völd, renna auðlindir þjóðarinnar okkur úr greipum til óprúttinna fjármálaspekúlanta sem þola ekki réttmæta gagnrýni. Nú heyrist ekki einu sinni hljóð úr horni hjá þessum kjörnu fulltrúum 21,7% kjósenda á Alþingi.
Það eru hins vegar einstaklingar utan stjórnmálaflokka sem eiga mestan heiður skilinn í baráttunni gegn þessu dæmalausa framsali á auðlindum landsins. Við getum öll lagt þeirri baráttu lið með því að setja nöfn okkar undir áskorun á www.orkuaudlindir.is
Magma lýkur kaupum á HS orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.