RÚV á rangri leið

Seint á árinu 1993 gerði ég mér ferð á dagskrárdeild RÚV í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg með 30 mínútna stuttmynd undir hendinni. Myndin var hluti af lokaverkefni mínu frá Danska kvikmyndaskólanum, en leikstjóri hennar var skólabróðir minn, Thomas Vinterberg, sem margir ættu að vita deili á.

Þar sem myndin var á dönsku sagði yfirmaður innlendrar dagskrárdeildar að það væri undir dagskrárstjóra erlends efnis komið að ákveða hvort myndin yrði tekin til sýningar. Sá dagskrárstjóri var þá Hinrik Bjarnason og fór ég beinustu leið að bera erindið upp við hann. Viðbrögð Hinriks voru fáleg og sagði hann það algjört prinsippmál að RÚV sýndi ekki neins konar skólaverkefni. Ég maldaði aðeins í móinn, hrósaði myndinni og benti á að hún hefði unnið til verðaluna á kvikmyndahátíðum þá um sumarið, en lengra varð ekki komist því Hinrik harðneitaði að skoða málið frekar eða horfa á myndina.

BroskallSíðan þá hef ég átt í hálfgerðu ástar/haturssambandi við þessa ríkisstofnun. Helst hefur það líkst sambandi við nákominn ættingja sem manni þykir vænt um, en bregst þó alltaf væntingum manns þegar mikið liggur við. Ég skal fúslega viðurkenna að þeir eru ófáir útvarpsþættirnir sem ég hlusta á þegar tækifæri gefst til, bæði heima og að heiman. Með tilkomu hlaðvarpsins og ipod-spilarans náði hlustunin nýjum hæðum því að nú er hægt að hlusta á uppáhaldsþættina gangandi, skokkandi, hjólandi eða í strætó.

En allir vita að áhugavert útvarps- og sjónvarpsefni verður ekki til af sjálfu sér. RÚV hefur svo lengi sem ég man kappkostað að sinna hlutverki sínu sem útvarp/sjónvarp allra landsmanna. Starfsmenn hafa oft og iðulega lagt sig alla fram og á stundum sett sig sjálfa í lífshættu við að flytja fréttir af hamförum og hvers kyns stórviðburðum. Það hefur ekki vafist fyrir fólki þar á bæ að fara út í foráttuveður með hljóðnema og tökuvélar eða skora náttúruöflin á hólm.

Því er það gjörsamlega óskiljanlegt að nú skuli stofnunin ætla að segja pass og skorast hjá þátttöku þegar kosningar til stjórnlagaþings eru á næstu grösum. Samkvæmt óstaðfestum fréttum hefur verið lagt blátt bann við því innan RÚV að ræða við nokkurn af þeim 523 frambjóðendum sem gefa kost á sér, hvorki um málefni stjórnarskrárinnar eða nokkuð annað yfir höfuð.

Stjórnlagaþingið er einstakur viðburður í lýðveldissögunni. Þetta er í fyrsta sinn sem persónulega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar munu setjast niður og koma sér saman um þau grunnlög sem ríki og þjóð ætla að starfa eftir næstu ár og áratugi. Fátt skiptir okkur meira máli á þeim krossgötum sem við nú stöndum á.

Vissulega kann að vera að einhverjum hafi fallist hendur þegar ljóst varð að fjöldi frambjóðenda skipti ekki nokkrum tugum heldur mörgum hundruðum. Það er hins vegar hvorki ýkja flókið né ómögulegt að kynna svo marga frambjóðendur til leiks ef tími hvers og eins er verulega takmarkaður. Það ætti ekki að vefjast fyrir reyndu og hugmyndaríku dagskrárgerðarfólki að útbúa umgjörð fyrir slíka þætti sem augljóslega þyrftu að vera á dagskrá mörg kvöld í röð. Kostnaður yrði aldrei meiri en af öðru ódýru sjónvarpsefni. Almenningur hlýtur að gera þá kröfu að fá eitthvað meira að vita um frambjóðendur en eina ljósmynd og örstuttan texta sem fæstir munu nenna að lesa hvort eð er. Það þarf að sjá viðkomandi og heyra til þess að ákveða að treysta honum/henni fyrir atkvæði sínu.

Fyrrverandi fréttastjóri RÚVRÚV þarf stöðugt að sanna tilverurétt sinn. Eftir að nefskatturinn var tekinn upp er það eðlilegt og rétt að fólk geri miklar kröfur til stofnunarinnar, enn sem fyrr. Sama hlýtur að gilda um helstu stjórnendur hennar. Því sættum við okkur ekki við það að ófaglega sé staðið að ráðningum útvarpsstjóra og helstu stjórnenda, fremur en starfsmanna yfirleitt. Því sættum við okkur heldur ekki við það að útvarpsráð sé skipað undirsátum stjórnmálaflokka með litla sem enga þekkingu á  ljósvakamiðlum. Þaðan af síður sættum við okkur við það að hæfum og reynslumiklum fréttamönnum sé sagt upp vegna stjórnmálaskoðanna eða aukaverkefna utan vinnutíma.

Stjórnendur RÚV eru á síðasta séns hjá þjóðinni og ættu ef til vill að svipast um eftir öðru starfi ef metnaðurinn er ekki meiri. Kannski að það sé laust starf hjá fyrrverandi félaga þeirra á ÍNN? Einhvers staðar þurfa vondir að vera.


mbl.is Virðist viðmælandinn lykilatriðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þessu, það er til háborinnar skammar þetta algera metnaðarleysi RÚV varðandi alla kynningu á stjórnlagaþinginu.

Dagný (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband