3.7.2010 | 13:04
Áskorun frá BH
Í ljósi tilmæla FME og Seðlabankans um vexti af ólöglegum gengistryggðum lánum vill Borgarahreyfingin koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:
Þau fjármálafyrirtæki sem hafa á undanförnum árum boðið viðskiptavinum sínum íslensk lán bundin gengi erlendra gjaldmiðla hafa samkvæmt nýgengnum dómi Hæstaréttar brotið gegn lögum um vexti og verðbætur frá árinu 2001. Af því leiðir að umræddir lántakendur hafa verið krafnir um greiðslur langt umfram það sem lögmætur hluti lánasamninganna segir til um og í sumum tilfellum verið sviptir eigum sínum á ólögmætum forsendum.
Það væri fullkomlega óásættanlegt og vafalaust ólöglegt ef sömu fyrirtæki breyttu einhliða vaxtaákvæðum samninganna sér í hag til að koma í veg fyrir að fjárhagsstaða þeirra versni sökum eigin brota. Ábyrgð eftirlitsstofnana er einnig mikil í þessu máli og því er holur hljómur í tilmælum þeirra nú, sem ekki byggja á traustum lagalegum grunni.
BH skorar á yfirvöld að standa með brotaþolum, sem í þessu tilfelli eru lántakendur og neytendur, með takmarkaða burði til að berjast við harðsvíraða sveit lögfræðinga fjármálafyrirtækjanna. Eðlilegast væri að fresta afborgunum af öllum gengistryggðum lánum þangað til dómstólar hafa gefið út úrskurð um vaxtaákvæði samninganna byggðan á gildandi lögum.
BH skorar á neytendur og talsmenn þeirra að standa saman og láta ekki bjóða sér yfirgang og lögleysu. Nóg hefur almenningur þurft að sætta sig við fram að þessu. Að mati BH er refsivert athæfi að gefa út reikning án lögmætrar kröfu og slíkt ber að kæra til lögreglunnar.
X-mál og ákærur vegna hruns vofa yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Facebook
Athugasemdir
Var ekki dómurinn þannig að einungis tengingin við erlenda mynt var ólögleg, stendur vaxtaákvæði samningana ekki óbreytt? Eru það ekki bara bankar og lánastofnanir sem þvæla með að það sé einhver óvissa í sambandi við vextina á þessum lánum vitandi að þeir hagnast ekki eins mikið eftir að gengistryggingin er felld úr gildi. Hvað hefðu fjármálastofnanir sem buðu þessi lán gert ef gengið hefði haldist óbreytt allan lánstímann? Það er spurning sem mig langar að fá svar við!
Edda Karlsdóttir, 3.7.2010 kl. 14:31
EDDA, mér finnst við hæfi, að viðskiptaráðherra svari spurningu þinni sem allra fyrst !
Kv., KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 14.7.2010 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.