66 árum síðar

Það er gleðiefni að undirbúningur stjórnlagaþings sé loksins að hefjast. Framundan er ferli sem gæti orðið, ef vel er á málum haldið, þjóðinni til mikillar gæfu. Ég ætla að gera orð Ragnars Aðalsteinssonar að mínum, en eftirfarandi er svar hans við spurningunni: Er ekki bara allt í lagi með stjórnarskránna?


Ragnar svaraði: "Nei, satt að segja, þá er ekki allt í lagi með hana og það er að sjálfsögðu kominn tími til að við setjumst niður og semjum okkar eigin lýðveldisstjórnarskrá. Það er að mínu viti brýn nauðsyn að þeir sem hér búa í þessu landi eigi sér sína eigin stjórnarskrá. Þeir hafa ekki átt hana fram að þessu. Við höfum átt þessa stjórnarskrá sem konungurinn lét okkur í té á sínum tíma. Við höfum aðlagað hana að litlu leyti að lýðveldisstofnuninni 1944 og gert smá breytingar síðan, en við höfum ekki reynt að spegla okkur í okkar eigin stjórnarskrá og þetta hefur leitt til þess að allt hefur farið hér á verri veg en ella og kannski er stjórnarskráin völd að því að nokkru leyti að lýðræði hefur ekki þróast hér með eðlilegum hætti."

"Það fer ekkert á milli mála að leiðtogar okkar á þeim tíma [1944] voru þess fullvissir að á næstu árum, að fengnum friði í heiminum, þá myndum við á tiltölulega skömmum tíma setja okkur okkar eigin lýðveldisstjórnarskrá og varpa fyrir róða gömlu stjórnarskrá konungsins. En síðan hafa menn leitast við að gera þetta, og hverjir hafa verið að leitast við að skrifa okkur nýja stjórnarskrá? Það eru stjórnmálaflokkarnir á þingi og forystumenn stjórnmálaflokkanna. Óhjákvæmilega og ósjálfrátt hafa þeir haft í fyrirrúmi hagsmuni sem lúta að flokkunum sjálfum og valdastöðu þeirra í samfélaginu og á Alþingi og af þeirri ástæðu hefur þeim ekki tekist að setja okkur nýja stjórnarskrá. Eitt af hlutverkum stjórnarskrár er að kveða á um valdmörk löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins og stöðu dómstólanna í ríkinu. Þarna er erfitt fyrir þá sem eru sjálfir valdhafarnir að setja sjálfum sér mörk og það er líka hlutverk stjórnarskrár að taka afstöðu til þátttökuréttinda almennings í stjórn ríkisins með kosningum og með öðrum afskiptum á milli almennra kosninga, svo sem eins og með þjóðaratkvæði. Kannski upplifa stjórnmálamenn það svo að ef að þeir leggja of mikla áherlsu á þátttöku almennings og á þjóðaratkvæðagreiðslu og takmörkun á valdi sínu, að þá séu þeir á rýra vald Alþingis og þar með sitt eigið vald og það hugnast þeim ekki."

www.samfelagssattmali.is


mbl.is Alþingishúsið kemur ekki til greina undir stjórnlagaþingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það sama og mér datt í hug, hræddir við að missa völdin til okkar! Þvílíkir hrokagikkir og valdnýðslu púkar!

Sigurður Haraldsson, 3.7.2010 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband