Um "jafnaðarmenn" og vini í raun

Það er gleðilegt að sjá að Marinó G. Njálsson hafi verið skipaður í samráðshóp um aðgerðir í þágu heimilanna.  Þar eru Hagsmunasamtök heimilanna loksins komin með góðan talsmann sem eflaust mun tala máli fjölmargra sem eru að sligast undan stökkbreyttum húsnæðislánum.

Annars hlustaði ég forviða á 10-fréttir RÚV í fyrrakvöld. Þar var m.a. rætt við félagsmálaráðherra um skuldavanda margra sem komnir eru í þrot. Hér er inngangurinn að fréttinni:

"Félagsmálaráðherra segir það enga lausn fyrir skuldara að fresta nauðungaruppboðum á íbúðarhúsnæði enn og aftur. Það sé hagur skuldara að ljúka málum sem fyrst."

Skjaldborg er bara eitt lítið orðEigum við að sætta okkur við þessa afstöðu ráðherrans? Tökum sem dæmi  fjölskyldu sem hafði sparað saman 10 milljónir til kaupa á íbúð. Hún tók gengistryggt lán upp á 19 milljónir til 30 ára samkvæmt ráðleggingum viðskiptabankans og keypti íbúð fyrir 29 milljónir í byrjun ársins 2006. Lánið var um 2/3 hlutar af kaupverðinu. Sundurliðun frá bankanum gerði ráð fyrir að fjölskyldan greiddi 82.000 í afborganir á mánuði, nú 4 árum síðar. Fjölskyldan var varkár og reiknaði því með að gengi krónunnar gæti lækkað allt að 50 % sem þýddi mánaðarlegar afborganir upp á 123.000 í stað 82.000.

Raunveruleikinn er hins vegar sá að mánaðalegar afborganir eru nú um 210.000. Eftirstöðvar lánsins eru auk þess miklu hærri en áætlað verðmæti íbúðarinnar á núvirði. Fjölskyldan getur tæpast staðið í skilum og hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að spara öll nauðsynleg útgjöld til hins ítrasta svo þau geti staðið í skilum með afborganir af íbúðinni. Reyndar hefur hún tæpast nokkuð val því að enn sem komið er hafa ekki verið samþykkt lög um að fólk geti "skilað inn lyklinum". Vonandi tekst Lilju Mósesdóttur að finna nægilega marga "jafnaðarmenn" inni á Alþingi til að fá það réttláta frumvarp samþykkt á þinginu. Með nauðungaruppboðum nú myndu fjölskyldur væntanlega standa uppi eignalausar en með umtalsverðar skuldir á bakinu engu síður.

En hlustum á orð Árna Páls félagsmálaráðherra:

"Ég held að það sé ekki gott að frysta enn frekar nauðsynlegar ákvarðanir. Ef að hægt er að bjarga stöðu fólk er fresturinn vondur því að hann eykur bara á vandann."

Eins og margir aðrir velti ég því fyrir mér hvað maðurinn á við þegar hann talar um að "bjarga stöðu fólks".  Það er deginum ljósara að innistæðueigendum var bjargað við hrun bankanna. Einnig var eigendum fjármuna í peningamarkaðssjóðum að miklu leyti bjargað við sama tækifæri þó svo að það kostaði seðlabankann og þ.a.l. ríkissjóð og almenning himinháar upphæðir. Eftir stendur það fólk sem lagt hafði sparifé og lánsfé í kaup á fasteignum. Hvar eru þeirra björgunaraðgerðir?

Til að gera málið enn ósanngjarnara eru sterk rök fyrir því að svokölluð "gengistryggð lán" brjóti í bága við vaxtalög nr. 38/2001 þar sem "heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður". Einnig má vísa til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 þar sem fram kemur að samningi megi víkja til hliðar ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hversu ósanngjarn þarf samningur eiginlega að vera til að falla undir þessa grein samningalaga? Þá er ótalinn þáttur bankanna í falli krónunnar en innan þeirra starfaði fólk við það eitt að hafa áhrif á gengi krónunnar til þess að bæta stöðu bankanna og ársfjórðungsuppgjör.

Félagsmálaráðherra telur hins vegar augljóslega að lausnin sé fólgin í nauðungaruppboðum og að losa fólk við eigur sínar sem fyrst. Flokkur hans hefur á tyllidögum kennt sig við jafnaðarstefnu. Eigum við ekki að velta því orði aðeins fyrir okkur?


mbl.is Samráðshópur fjallar um aðgerðir vegna hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Tek heilshugar undir með þér að það eru gleðifréttir að Marinó G Njálsson sé kominn í samráðshóp hjá flokksbróðir mínum Árna Páli Árnasyni. Aðgerðir í skuldamálum einstaklinga eru langt frá því nægar. Það er allt og mikið af fingraförum bankanna sjálfra á því sem lagt hefur verið fram og jafnvel eru þar blekkingar á ferð, að sögn Marinós. Hef sjálf ekki stærðfræðiþekkingu til að reikan svona. Marinó er rökfastur og áreyðanlegur í sínum útreikningum og honum treysti ég vel.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.1.2010 kl. 15:50

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir trú ykkar á mér.  Ég tek það fram að Hreyfingin hafði samband við mig og bað mig um að taka sæti í þessari nefnd sem óháður fulltrúi.  Þau vildu fá mann sem víðtæka þekkingu á málinu.  Mér fannst þau ganga framhjá góðum manni, þ.e. Þórði Birni Sigurðssyni, starfsmanni Hreyfingarinnar, og var ekki viss hvort ég ætti að segja já.  Eftir umhugsun ákvað ég að verða við beiðni þeirra.

Marinó G. Njálsson, 21.1.2010 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband