Dusilmenni

Á flestum ef ekki öllum vinnustöðum landsins eru gerðar þær lágmarkskröfur til fólks að það sýni ekki af sér hegðun á borð við þá sem Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason urðu uppvísir að. Hvaða fyrirtæki sem er hefði einfaldlega rekið þá á dyr fyrir óafsakanlega hegðun, niðrandi umtal um vinnufélaga sína og ýmsa þjóðfélagshópa. Í leiðinni afhjúpuðu þeir svo ósmekklegt plott sem gekk út á að fá tvo þingmenn úr Flokki fólksins til liðs við Miðflokkinn. Gunnar Bragi myndi víkja úr sæti þingflokksformanns enda taldi hann sig hafa fengið loforð um sendiherrastöðu, greiði fyrir greiða.

Sú virðing sem viðhöfð er í þingsal, að fólk ávarpi hvort annað með orðunum háttvirtur eða hæstvirtur, er í besta falli hláleg ef þessi óheiðarlegu dusilmenni fá að taka sæti eins og ekkert hafi í skorist, emjandi yfir óréttlæti í sinn garð. Og áður en við vitum eru þeir orðnir ráðherrar eða sendiherrar, delerandi enn á ný á dimmum börum á kostnað íslenskra skattborgara, okkur öllum til skammar.


mbl.is Gunnar og Bergþór aftur á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband