20.5.2011 | 23:54
Laugavegur = göngugata
Ég verð að játa að ég botna ekkert í þeim kaupmönnum við Laugaveginn sem líta á það sem aðför að verslunarrekstri að loka eigi Laugaveginum fyrir bílaumferð yfir aðal ferðamannatímann. Fólk sem þekkir göngugötur af eigin raun veit að þar blómstrar mannlíf. Á Laugaveginum er einfaldlega mjög takmarkað pláss í götunni, og eins og flestir vita tekur hver bíll mjög mikið svæði miðað við gangandi vegfarendur.
Kaupmennirnir stofnuðu hagsmunafélag sem þeir nefna "Miðborgin okkar". Í stjórn félagsins sitja þeir kaupmenn sem hvað harðast berjast gegn því að loka Laugaveginum fyrir umferð bifreiða og virðast líta niður á gangandi vegfarendur, allavega gjaldkeri félagsins. Tilgangurinn með félaginu samkvæmt heimasíðu þess er m.a. "að efla mannlíf í miðborginni og stuðla að fögru, snyrtilegu og öruggu umhverfi". Stjórnarmenn virðast þó ekki taka þetta allt of bókstaflega því að stanslaus umferð bíla um götuna vinnur algjörlega á móti þessum fyrirheitum.
Á tímum mikils niðurskurðar hjá Reykjavíkurborg sem hart bitnar á "dúkkulísum" og börnum almennt, vekur það furðu að hagsmunafélag þessara kaupmanna þiggi fúlgur fjár frá borginni á hverju ári til að sinna sínum sérhagsmunum. Samkvæmt þessari síðu fá samtökin árlega 5 milljónir frá borginni auk prósentuhlutar úr bílastæðasjóði. Fróðlegt væri að heyra hvort fólki þyki þeim peningum vel varið.
![]() |
Spilað með ævistarf fólks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.5.2011 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2011 | 09:35
Íslenski fáninn áberandi
Það er greinilegt að spænskir fjölmiðlar hafa mikið fjallað um ástandið á Íslandi. Búsáhaldabyltingin kom heilli ríkisstjórn frá völdum, án þess að stórslys yrðu á fólki. Kosningarnar um Icesave sýndu svo að fólk tekur því hreint ekki með jafnaðargeði þegar óábyrgt fjármálakerfi spilltra bankamanna hrynur yfir hausinn á því.
Vonbrigðin hér, líkt og á Spáni, eru með svokallaðar vinstri stjórnir sem virðast hafa misst tengsl við uppruna sinn og brugðist þeim kjósendum sem eru að kikna undan erfiðum húsnæðislánum á sama tíma og verðlag fer hækkandi og atvinna minnkandi.
Það er einstaklega ánægjulegt að sjá myndir af mótmælum á Spáni þar sem íslenski fáninn er á spjöldum og slagorðin segja t.d. "Allar leiðir liggja til Íslands" og "Ég vil líka vera íslenskur". Það virðist hafa vaknað von í brjósti fólks við það að heyra fréttir frá Íslandi, það er allavega árangur út af fyrir sig.
Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu: "Ég vil líka byltingu eins og á Íslandi". Einnig grein úr El País (í enskri þýðingu) frá því í gær.
![]() |
Áfram mótmæli á Spáni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)