13.5.2011 | 20:05
Gæsahúð eða ógleði
"Ísland farsældar frón" sungið af frábærum kór undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Undir venjulegum kringumstæðum ætti maður að fyllast stolti með gæsahúð og tár á hvörmum.
Tónlistarhúsið Harpa er langþráður draumur fjölmargra tónlistarunnenda sem hafa þurft að gera sér dapurleg húsakynni að góðu þegar okkar besta fólk og frábærir erlendir listamenn halda hér tónleika, t.d. Háskólabíó og Laugardalshöllina.
Þó að ég gleðjist yfir því að tónlistin hafi fengið húsaskjól á heimsmælikvarða get ég ekki látið hjá líða að hugsa um það hversu lítið við Íslendingar höfum lært á Hruninu og því hve hátt margur heimskur maðurinn hreykti sér og gerir enn.
Tónlistarhúsið er að hluta til byggt fyrir þýfi erlendis frá sem aldrei verður skilað til baka. Einnig er það að hluta til borgað með skattpeningum okkar flestra nú á tímum mikils niðurskurðar, atvinnuleysis og landflótta.
Ég velti því fyrir mér hvort að fólk sem misst hefur heimili sín vegna ólögmætra og ósiðlegra viðskiptahátta bankamanna geti hugsað sér að heimsækja húsið sem Björgólfur Guðmundsson og spilltir viðhlægjendur hans í opinberum embættum eru að saurga með nærveru sinni í dag.
Sjálfum langar mig mest að skila inn ríkisborgararéttinum nú þegar ég heyri þennan fagra söng.
![]() |
Harpa tekin formlega í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)