7.1.2011 | 16:29
Samtakamáttur fólksins er sterkasta aflið
Fyrst langar mig að óska Björk og öllum sem að þessu standa til hamingju með hafa nú þegar fengið 30 þúsund manns til að setja nöfn sín undir þessa mikilvægu áskorun. Þess verður varla langt að bíða að 35 þúsund manna markinu verði náð og líklega gott betur áður en síðasti söngvarinn hefur lokið sér af. Ríkisstjórnin hins vegar heyrir ekkert, sér ekkert og gerir ekkert.
Spurningin er þessi: Hversu margar undirskriftir skyldi þurfa til þess að vekja VG til meðvitundar?
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, talaði mjög afgerandi gegn sölunni á Magma sl. sumar. Í viðtali á Rás 2 sagði hún m.a.:
"Það er grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að auðlindirnar okkar séu ekki settar í eigu einkaaðila. Þetta eru leifar af þessari hugmyndafræði, sem olli hruni á Íslandi. Þessi hugmyndafræði lifir alveg óskaplega sterku lífi í öllu okkar samfélagi. En þetta er algert grundvallarmál í okkar hreyfingu, að vinda ofan af þessari hugmyndafræði. Ég stóð í þeirri meiningu fyrir mörgum mánuðum síðan, við höfðum heit fyrir því, að þetta yrði stöðvað með einum eða öðrum hætti. Að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að koma í veg fyrir þetta."
Svo var skipuð nefnd og málið svæft. Nefndin skilaði að vísu mjög áhugaverðri skýrslu en fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að fara neitt í efni hennar, enda virðist tilgangurinn með nefndinni helst hafa verið sá að róa "órólegu" deildina innan VG.
En nú hafa rúmlega 30 þúsund manns krafist þess að komið verði í veg fyrir söluna á íslenskum orkuauðlindum til skúffufyrirtækis í vafasamri eigu. Það eru skýr skilaboð sem verður að bregðast við. Annars hefur ríkisstjórnin grafið sína eigin gröf.
![]() |
Hátt í þrjátíu þúsund undirskriftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)