20.8.2010 | 23:09
Er sama hvaðan "gott" kemur?
Fróðlegt væri að vita hvernig viðskipti fyrirtækið stundar í Chile og bera það saman við eftirfarandi staðreyndir:
Nokkrar staðreyndir um sölu á HS Orku til Magma
Með sölunni á HS Orku til Magma Energy Sweden er verið að framselja nýtingarrétt af mikilvægum auðlindum í heilan mannsaldur eða jafnvel lengur. Salan er í meira lagi vafasöm vegna þess að:
- Magma sniðgengur íslensk lög sænskt málamyndafyrirtæki sett á svið
- meiri hluti kaupverðsins er fenginn að láni innanlands (kúlulán)
- lánið er með óverulegum vöxtum (1,5%)
- reiðufé er greitt með aflandskrónum
- veð er tekið í bréfunum sjálfum
- öðrum kaupendum var hafnað án viðræðna
- óljóst er hvort verðmætir kolefniskvótar hangi á spýtunni
- Magma hefur enga þekkingu á rekstri sem þessum
- ábyrgð ef Magma fer í þrot skilin eftir hjá almenningsfyrirtækjunum HS Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur.
- hlutur OR var seldur með gífurlegu tapi (9 milljarðar?) á grundvelli úrskurðar Samkeppniseftirlitsins sem m.a. vitnaði í bandarísk lög. OR neitar að birta gögn sem málinu tengjast.
Hér kveður því við kunnuglegan tón. Auk þess blasir við að undirbúningur stjórnvalda var og er algjörlega ófullnægjandi. Fjölmargar áleitnar spurningar mætti betur ígrunda:
- Hafa verið settar skorður við að orkunýtingin verði ekki of ágeng? Nei.
- Er búið að setja ákvæði um auðlindagjald í samningana? Nei.
- Er búið að setja ákvæði sem takmarka verðhækkanir á orku til neytenda? Nei.
- Er búið að setja ákvæði sem takmarka tímalengd samningsins? Nei.
- Eru takmarkanir á sölu til þriðja aðila, t.d. Alcoa eða Rio Tinto? Nei.
- Langtíma sýn og langtíma áætlun. Er hún einhver? Varla, en Magma vill tvöfalda orkuframleiðslu á Reykjanesi á næstu 5 árum. Auk þess hafa þeir nú þegar lýst yfir áhuga á að virkja á mörgum öðrum stöðum á landinu, t.d. í Kerlingafjöllum.
Umræðan er á villigötum. Þetta er fyrst og fremst pólitískt ágreiningsefni fremur en lagalegt. Þjóðin hefur ekki fengið tækifæri til að segja sína skoðun og ríkisstjórnin hefur ekki dug til að takast á við þetta mikilvæga mál. Þetta snýst öðru fremur um leikreglur, siðferði og tilgang með nýtingu auðlindanna og það hversu langt þjóðin vill ganga á þau gæði sem náttúra landsins býr yfir.
Því miður (eða sem betur fer) verður ekki hjá því komist að láta rannsaka allt ferlið í kringum einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja og aðkomu Geysir Green Energy að sölu á HS Orku til Magma Energy. Ekki er hægt að líta framhjá himinháum styrkjum til stjórnmálaflokka á sama tíma og Glitnir og GGE voru að bera í víurnar um að kaupa hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Hlut Orkuveitu Reykjavíkur í REI málinu þarf einnig að upplýsa þó svo að tekist hafi að stöðva það í tæka tíð. Varpa þarf ljósi á aðkomu bæjarfulltrúa og helstu stjórnenda umræddra fyrirtækja á það hvernig markvisst hefur verið unnið að því að færa yfirráð á auðlindum frá opinberum aðilum til útvaldra einkafyrirtækja.
![]() |
Magma fjárfestir í Chile |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)