22.6.2010 | 23:49
Að spara sér sporin
Ég hugsa stundum til 4x4 gaursins á upphækkuðum Econoline sem ók framhjá mér á 100 km/klst á miðjum Kjalvegi. Sjálfur var ég á reiðhjóli og það rigndi yfir mig grjóti af öllum stærðum og gerðum. Klukkutíma síðar sá ég bílinn og ökumann hans á Hveravöllum og spurði kurteislega hvort hann gerði sér grein fyrir því að sumir ferðalangar væru algjörlega berskjaldaðir fyrir tillitslausum ökumönnum. Vinurinn sagði að Kjalvegur væri fyrir bíla og að reiðhjólamenn ættu bara að halda sig á þar til gerðum stígum. Það er sjónarmið út af fyrir sig!
Reynsla mín af íslenskum hálendisökumönnum er frekar dapurleg. Þeir eru oft tillitslausir og því stærra sem ökutækið er, því minna tillit sýna þeir iðulega. Erlendir ökumenn eru hins vegar oftast mjög tillitssamir og hægja verulega á sér þegar þeir aka framhjá fólki sem kýs annan og rólegri ferðamáta. Þeir eru ekki heldur haldnir þeirri áráttu að þurfa helst að leggja bílnum á miðju tjaldsvæðinu til þess að spara sér örfá spor.
Skyldu meðlimir 4x4 ferðaklúbbsins ekki átta sig á sérstöðu þeirra svæða sem lokuð eru fyrir umferð vélknúinna ökutækja? Hvað með rétt þeirra ferðalanga sem leita í kyrrð og ró fjarri byggðu bóli?
![]() |
Mótmæla fyrirætlunum að loka fyrir bílaumferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2010 | 10:43
Þetta eru asnar, Guðjón
Í apríl 2001 fékk Alþingi í hendur umsögn frá Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, þar sem hann varar við því að samkvæmt óbreyttu frumvarpi (til laga um vexti og verðbætur) sé óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt.
http://www.visir.is/article/20100313/VIDSKIPTI06/337637238/-1
9 árum síðar virðist sami Guðjón Rúnarsson ganga út frá því að fjármálafyrirtækin hafi talið sig vera að veita lögleg lán!? Í Fréttablaðinu í dag kallar hann svo enn eftir aðkomu stjórnvalda, í þetta sinn til að koma í veg fyrir mögulega ringulreið tengdri gengistryggðu bílalánunum. Ringulreið hverra? Lögin eru skýr og dómsúrskurðir afdráttarlausir. Einnig er það skýrt samkvæmt áliti sérfræðings að dómarnir hafi fordæmigildi fyrir öll gengistryggð lán.
Það er gott til þess að vita að Kristinn H. Gunnarsson sem sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn vorið 2001 og samþykkti umrædd lög eigi ekki lengur sæti í leikhúsinu við Austurvöll. Það er einfaldlega ekki boðlegt að ætla framkvæmdavaldinu að grípa fram fyrir hendur dómsvaldsins í máli sem þessu þar sem eftirlitsstofnanir og kjörnir fulltrúar hafa einfaldlega brugðist skyldu sinni. Það gæti þar að auki skapað gífurlega skaðabótaskyldu fyrir ríkið á hvorn veginn sem færi. Verst er að Kristinn virðist eiga a.m.k. einn skoðanabróður á þingi.
Að lokum mæli ég með Benedikt Erlingssyni í Morgunútvarpi Rásar 2 á föstudögum. Einungis frjálsir menn og fordómalausir tjá sig með þeim hætti sem hann gerir. Eru Íslendingar upp til hópa ó-frjálsir? Hægt er að hlusta á Benedikt í spiladósinni hér á síðunni.
![]() |
Vill verðtryggingu á lánin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)