22.1.2010 | 09:48
Skilaboð til VG
Vinstrihreyfingin - grænt framboð var stofnuð 6. febrúar 1999 og er rétt rúmlega 10 ára. Ég batt á sínum tíma miklar vonir við þessa hreyfingu, sérstaklega sem talsmaður náttúruverndar og umhverfismála. Það leið þó ekki langur tími þangað til á mig runnu tvær grímur og ég fór að efast um að græni liturinn væri þvottaekta eða mikið annað en fegrunaraðgerð á gamla Alþýðubandalaginu.
Nú þegar að VG sem ég héðan í frá kýs að kalla V hafa setið í ríkisstjórn í tæpt ár hljóta margir kjósendur þeirra að vera farnir að kreppa tærnar og efast um að flokkurinn sé allur þar sem hann er séður. Sem dæmi vill ég nefna að 2 þingmenn alvöru Græningja á Evrópuþinginu, þau Eva Joly og Alain Lipietz hafa bæði tekið málstað Íslendinga í Icesave málinu og komið með rök fyrir því að ESB þurfi að taka þátt í lausn deilunnar, ekki síst vegna þess að um ófullkomið regluverk var að ræða að þeirra hálfu.
Hins vegar hafa Grímur og hans flokkur ákveðið að berja hausnum við steininn og gefa lítið fyrir álit þessara dyggu Grænu stuðningsmanna á Evrópuþinginu. Einnig hefur hann og flokkur hans afrekað að svíkja eitt helsta kosningaloforðið sem var að standa á móti inngöngu Íslands í ESB. Undir ríkisstjórn S og V tútnar áliðnaðurinn út og gefið er út veiðileyfi á auðlindir landsins í þágu stóriðju. Ekkert bólar heldur á margboðuðum lýðræðisumbótum, stjórnlagaþingi, persónukjöri (sem V standa nú í vegi fyrir), gegnsæi eða að faglega sé tekið á málum.
Síðast en ekki síst virðist endanlega verið að ganga frá RÚV þannig að sú gamla góða ríkisstofnun sé algjörlega ófær um að sinna skyldum sínum. Stöðugt fleiri starfsmönnum er sagt upp og eftir standa stjórnendurnir strípaðir, sumir skipaðir á pólitískum forsendum árið 2010. Já, það er satt! Er virkilega eitthvað vit í að senda fjölmiðlafólk á atvinnuleysisbætur frekar en að halda þeim í starfi???
En mín skilaboð til VG eru þessi: Hættið að reyna að hanga saman á ónýtri límingu og kljúfið ykkur í V og G. Það er eflaust bæði eftirspurn eftir afturhaldssömum sósíalistaflokki og róttækum Græningjaflokki eins og ástandið er núna.
![]() |
RÚV harmar ályktun VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)