21.1.2010 | 15:31
Um "jafnaðarmenn" og vini í raun
Það er gleðilegt að sjá að Marinó G. Njálsson hafi verið skipaður í samráðshóp um aðgerðir í þágu heimilanna. Þar eru Hagsmunasamtök heimilanna loksins komin með góðan talsmann sem eflaust mun tala máli fjölmargra sem eru að sligast undan stökkbreyttum húsnæðislánum.
Annars hlustaði ég forviða á 10-fréttir RÚV í fyrrakvöld. Þar var m.a. rætt við félagsmálaráðherra um skuldavanda margra sem komnir eru í þrot. Hér er inngangurinn að fréttinni:
"Félagsmálaráðherra segir það enga lausn fyrir skuldara að fresta nauðungaruppboðum á íbúðarhúsnæði enn og aftur. Það sé hagur skuldara að ljúka málum sem fyrst."
Eigum við að sætta okkur við þessa afstöðu ráðherrans? Tökum sem dæmi fjölskyldu sem hafði sparað saman 10 milljónir til kaupa á íbúð. Hún tók gengistryggt lán upp á 19 milljónir til 30 ára samkvæmt ráðleggingum viðskiptabankans og keypti íbúð fyrir 29 milljónir í byrjun ársins 2006. Lánið var um 2/3 hlutar af kaupverðinu. Sundurliðun frá bankanum gerði ráð fyrir að fjölskyldan greiddi 82.000 í afborganir á mánuði, nú 4 árum síðar. Fjölskyldan var varkár og reiknaði því með að gengi krónunnar gæti lækkað allt að 50 % sem þýddi mánaðarlegar afborganir upp á 123.000 í stað 82.000.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að mánaðalegar afborganir eru nú um 210.000. Eftirstöðvar lánsins eru auk þess miklu hærri en áætlað verðmæti íbúðarinnar á núvirði. Fjölskyldan getur tæpast staðið í skilum og hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að spara öll nauðsynleg útgjöld til hins ítrasta svo þau geti staðið í skilum með afborganir af íbúðinni. Reyndar hefur hún tæpast nokkuð val því að enn sem komið er hafa ekki verið samþykkt lög um að fólk geti "skilað inn lyklinum". Vonandi tekst Lilju Mósesdóttur að finna nægilega marga "jafnaðarmenn" inni á Alþingi til að fá það réttláta frumvarp samþykkt á þinginu. Með nauðungaruppboðum nú myndu fjölskyldur væntanlega standa uppi eignalausar en með umtalsverðar skuldir á bakinu engu síður.
En hlustum á orð Árna Páls félagsmálaráðherra:
"Ég held að það sé ekki gott að frysta enn frekar nauðsynlegar ákvarðanir. Ef að hægt er að bjarga stöðu fólk er fresturinn vondur því að hann eykur bara á vandann."
Eins og margir aðrir velti ég því fyrir mér hvað maðurinn á við þegar hann talar um að "bjarga stöðu fólks". Það er deginum ljósara að innistæðueigendum var bjargað við hrun bankanna. Einnig var eigendum fjármuna í peningamarkaðssjóðum að miklu leyti bjargað við sama tækifæri þó svo að það kostaði seðlabankann og þ.a.l. ríkissjóð og almenning himinháar upphæðir. Eftir stendur það fólk sem lagt hafði sparifé og lánsfé í kaup á fasteignum. Hvar eru þeirra björgunaraðgerðir?
Til að gera málið enn ósanngjarnara eru sterk rök fyrir því að svokölluð "gengistryggð lán" brjóti í bága við vaxtalög nr. 38/2001 þar sem "heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður". Einnig má vísa til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 þar sem fram kemur að samningi megi víkja til hliðar ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hversu ósanngjarn þarf samningur eiginlega að vera til að falla undir þessa grein samningalaga? Þá er ótalinn þáttur bankanna í falli krónunnar en innan þeirra starfaði fólk við það eitt að hafa áhrif á gengi krónunnar til þess að bæta stöðu bankanna og ársfjórðungsuppgjör.
Félagsmálaráðherra telur hins vegar augljóslega að lausnin sé fólgin í nauðungaruppboðum og að losa fólk við eigur sínar sem fyrst. Flokkur hans hefur á tyllidögum kennt sig við jafnaðarstefnu. Eigum við ekki að velta því orði aðeins fyrir okkur?
![]() |
Samráðshópur fjallar um aðgerðir vegna hrunsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2010 | 12:00
Eldfimt efni
Eva Joly mætti í Kastljósið 10. júní sl. og krafðist þess m.a. að Valtýr Sigurðsson færi frá sökum vanhæfis. Hún sagði þar m.a.:
"This is not possible to live with and in this society this has to be dealt with. We need a state prosecutor and we need him to be in full posession of his possibility of action. And also because when your parliamentarian commission will give the report in November [February], the state prosecutor will make the filter of what can be handled on to the special prosecutors office and then there must be no suspicion on how this work is done."
Það var líklega ekki að ástæðulausu að Eva Joly lagði svo mikla áherslu á að Valtý bæri að víkja. Nú hefur hann sent frá sér ákæru gegn 9 mótmælendum sem væntanlega verður bara sú fyrsta af mörgum. Uppþotin á þingpöllunum 8. desember voru eiginlega bara forsmekkurinn að því sem síðar átti sér stað. Varla verður vægar tekið á þeim mótmælendum sem harðast gengu fram þegar byltingin stóð sem hæst.
Í öllu falli hefur Valtýr að frumkvæði skrifstofustjóra Alþingis nú dreift mjög eldfimu efni sem fuðrað gæti upp við minnsta tilefni. Það er auðvitað reginhneyksli að yfirvöld skulu beita sér að fullum þunga gegn mótmælendum á sama tíma og fjárglæframenn sem eyðilögðu orðstír þjóðarinnar skuli fá að ganga frjálsir ferða sinna og lifa kóngalífi erlendis fyrir þýfið sem þeir komu undan.
Ætla Íslendingar virkilega að láta þetta yfir sig ganga???
Ég hvet alla til að sjá frábæra nýja heimildamynd Gunnars Sigurðssonar og Herberts Sveinbjörnssonar "Maybe I should have - Frásögn frá efnahagsundrinu Íslandi". Hún verður sýnd frá og með 5. febrúar í kvikmyndahúsum og lætur engan ósnortinn. Þessi mynd er gerð af sönnum harðjöxlum sem sitja ekki á rassgatinu og yppta öxlum þegar hvert hneykslið á fætur öðru skekur þjóðfélagið okkar og spillir áliti umheimsins á þeim sem hér búa.
![]() |
Mál mótmælenda þingfest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)