Bréf til fréttastofu RÚV

Til fréttastofu RÚV og útvarpsstjóra.

Ég ætla að koma hér á framfæri athugasemd og kvörtun vegna fréttar ykkar í hádeginu í dag. Þar var rætt við Björn Val Gíslason varaformann fjárlaganefndar um fullyrðingar Alain Lipietz í Silfri Egils í gær og þær fullyrðingar Björns að álit Lipietz væri á miklum misskilningi byggt.

Björn reyndi í viðtalinu að gera lítið úr þekkingu Lipietz á tilskipuninni og sagði m.a. að Lipietz hefði ekki átt sæti á Evrópuþinginu þegar að umrædd tilskipun var gerð.  Björn kvað Lipietz "telja sig hafa komið að gerð þessarar tilskipunar sem mér finnst undarlegt þar sem að maðurinn átti ekki sæti á Evrópuþinginu þegar það var gert..."

Það fyrsta sem Alain Lipietz sagði í viðtalinu í gær var hann hefði ekki komið að gerð 94 tilskipunarinnar heldur annarrar tilskipunar um eftirlit með fjármálastofnunum. Þannig er Björn Valur greinilega að fara með staðlausa stafi, mögulega til að gera Lipietz ótrúverðugan áður en hann ræðir skoðanir sínar á áliti franska Evrópuþingmannsins. Í framhaldi af því lætur Björn í ljósi kenningar sínar um að Lipietz misskilji að töluverðu leyti staðreyndir málsins sem er nokkuð einkennilegt þar sem að Eva Joly kynnti Lipietz til leiks sem sérfræðing á þessu tiltekna sviði (e. "He is an expert on this directive and he will make, I am sure, a brilliant analysis.").

Það sem að ég hef við ykkar fréttaflutning að athuga er það að þið leyfið Birni athugasemdalaust að bera á borð rangfærslur eins og ég rökstyð hér að ofan. Einnig leyfið þið honum að koma með tilgátur um misskilning án þess að hafa fyrir því að hringja í Lipietz og spyrja hann beint út um það hvort að hann hafi örugglega réttan skilning á eðli málsins. Er ekki eðlilegt að menn hafi andmælarétt í máli eins og þessu? Einnig finnst mér ámælisvert að skrifa inngang að þessari frétt eins og um staðreynd sé að ræða en ekki einhverjar vangaveltur stjórnarþingmanns í mjög aðkrepptri pólitískri stöðu.
 
Með kærri kveðju,
 

mbl.is Segir margt athugavert við málflutning Lipietz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband