Nefnum hlutina sínu réttu nöfnum.

Það kemur lítið á óvart að flokkarnir skuli hafa "skiptar skoðanir" um þetta mál enda fara hagsmunir almennings og hagsmunir flokkanna lítt saman í flestum málum sem tengjast lýðræðisumbótum. Nægir að nefna margboðað stjórnlagaþing sem varla verður svipur hjá sjón í meðförum þingsins ef það verður þá yfirleitt nokkuð úr því. Svæfingarmáttur þingnefndanna er mikill eins og sagan segir okkur og ekki kæmi mér á óvart að umrætt "frumvarp um persónukjör" sigli inn í draumalandið.

Reyndar er rétt að halda því til haga að hér er hreint ekki verið að tala um persónukjör heldur listakosningu eins og dómsmálaráðherra sagði orðrétt þegar hún mælti fyrir frumvarpinu 24. júlí sl.:

"Ég legg áherslu á að með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ekki með neinum hætti hróflað við listakosningu og hlutfallskosningakerfinu hér á landi. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og telst atkvæðið listanum til tekna óskipt til úthlutun sæta til listans í réttu hlutfalli við úrslit kosninganna."

Væri ekki rétt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum? Því miður apa fjölmiðlar oft á tíðum gagnrýnislaust vitleysuna upp eftir ráðamönnum og setja engin spurningamerki við orðanotkun þeirra og hugtakarugling.

Þegar öllu er á botninn hvolft...Hér á landi hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur á milli fólksins í landinu og ýmissa stofnana samfélagsins. Skortur á trausti er mikið vandamál og starfandi stjórnmálaflokkar eru þar alls ekki undanþegnir. Sú hugsun að fulltrúalýðræðinu sé best fyrir komið í hefðbundnum stjórnmálaflokkum á varla upp á pallborðið hjá almenningi eftir allt það sem á hefur dunið hér síðustu misserin. Í því ljósi þarf nauðsynlega í nýjum kosningalögum að gefa kjósendum fullt frelsi til að velja sér fulltrúa eftir því hvaða einstaklingum þeir treysta.

Það er hreint út sagt hlægilegt að flokkarnir skuli enn og aftur setja fótinn fyrir hagsmuni almennings í landinu. 


mbl.is Persónukjörið er ólíklegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband