Framtíð Borgarahreyfingarinnar - stjórn eða stjórnleysi?

Það þurfti töluverða umhugsun til að ákveða hvort ég gæfi aftur kost á mér í kjöri til stjórnar Borgarahreyfingarinnar. Eins og sjá má hér sagði ég mig úr stjórninni fyrir réttum mánuði síðan og var það í kjölfar vonlausrar deilu um keisarans skegg því að valdsvið og skyldur stjórnarinnar var illa skilgreint í upphaflegum samþykktum félagsins. Í von um að sátt náist um betri og ítarlegri samþykktir ákvað ég á endanum að gefa kost á mér.

Á landsfundinum sem nú fer í hönd koma tvennar nýjar samþykktir til umræðu og má búast við miklum og áköfum skoðanaskiptum um þær. Samþykktir A eru afrakstur svonefnds samþykktahóps sem var öllum opinn og starfað hefur meira og minna í allt sumar að því eina takmarki að útbúa nýjar samþykktir. Samþykktir B eru hins vegar til komnar á síðustu dögum en að baki þeim standa 3 eftirstandandi þingmenn hreyfingarinnar auk nokkurra annarra sem undir þær rita hér. Grundvallarmunur er á þessum tveimur tillögum og hugnast mér A nokkuð vel en B að flestu leyti illa. Helstu aðfinnslur mínar við tillögur B má lesa á bloggi Þórs Saari í athugasemd 8.

Ef ég næ kjöri í nýja stjórn hreyfingarinnar og að þeirri forsendu gefinni að stjórnin fái valdsvið til að taka til hendinni á sem flestum sviðum eru helstu áherslumál mín þessi:

  1. Að BH taki þátt í framboðum til stærri sveitarstjórna með áherslu á fækkun sveitarfélaga á SV-horninu, aðgerðir til að minnka hættuna á spillingu, umhverfismál og skipulagsmál svo eitthvað sé nefnt.
  2. Að koma á fót málefnahópum sem vinna undirbúningsvinnu fyrir þingfrumvörp. Að mínu mati væru varaþingmenn kjörnir til að leiða þetta starf í góðu samráði við þingmenn.
  3. Að útfæra leiðir til óhefðbundinnar stjórnmálaþátttöku með þrýstihópum og sértækum aðgerðum.
  4. Að hefja vinnu við stjórnlagaþing - hvers vegna að bíða með það?
  5. Að blása lífi í starf BH á landsbyggðinni með öllum ráðum.
  6. Að gera heimasíðuna að nothæfu samskiptatæki fyrir allt starf hreyfingarinnar.

Ég er einn tólfmenningana sem sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu og framtíðarsýn. Það er að mínu mati alrangt að þetta sé eitthvað flokkseigendafélag. Hins vegar er þetta fólk sem hefur svipaða sýn á framtíð og tilgang hreyfingarinnar og finnst að orðstýr hennar hafi borið alvarlega hnekki. Úr því viljum við bæta og setjum markið hátt.

Með ósk til ykkar allra um gott Borgaraþing/landsfund.


Bloggfærslur 11. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband