18.4.2009 | 02:28
BULL
"Aldrei stóð til að þingframboð fengju gjaldfrjálsa kynningu í Sjónvarpinu."
Þetta hljómar einkennilega í mínum eyrum því að 27. mars sl. talaði ég sjálfur við fulltrúa RÚV í síma og fékk þær upplýsingar að 10 mín. gjaldfrjáls kynning stæði öllum flokkum til boða. Það var að vísu tekið fram að frumkvæði ætti að koma frá þeim sjálfum og að sett væru skilyrði um að meirihluti framboða vildu taka þátt.
Í framhaldi af þessu hafði ég samband við fulltrúa allra hinna flokkanna og fékk jákvæðar undirtektir frá D, L, F og P. Framsókn var hlutlaus en Samfylking og VG fremur neikvæð. Ég spurði hvernig stæði á því að vinstri flokkarnir ætluðu að afþakka ókeypis kynningu í Sjónvarpinu en lítið var um svör.
Það stenst því illa sem Ingólfur Bjarni fullyrðir og er vissulega yfirklór yfir það að Ríkisútvarpið stendur sig illa í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt útvarpslögum en 9. gr. hljómar svona:
9. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur. Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.
Reyndar finnst mér Sjónvarpið eiga verulega bágt í þessari kosningabaráttu því að Borgarafundir í beinni útsendingu eru algjörlega misheppnaðir. Ekki er nóg með að leikmynd og umgjörð sé endurnýtt frá árinu 2007, heldur eru spurningar það einnig. Þess virðist vandlega gætt að ræða ekki mál eins og persónukjör, misjafnt atkvæðavægi, kjördæmaskipan, stjórnarskrárbreytingar, lýðræðisumbætur, þjóðaratkvæðagreiðslur, gagnsæi í stjórnsýslu, faglegar ráðningar og fleiri grundvallarmál sem Borgarahreyfingin er með á stefnuskrá sinni. Í stað þess hljóma sömu gömlu frasarnir: Hvað ætlið þið að skapa mörg störf? Ætlið þið að hækka skatta? Hvernig á að spara í heilbrigðiskerfinu? Frambjóðendurnir yfirbjóða hvern annan og lofa upp í báðar ermar eins og ekkert sé sjálfsagðara.
X-O fyrir þá sem trúa ekki bullinu.
![]() |
Gjaldfrjáls kynning hjá RÚV stóð ekki til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)